Skálholt í Biskupstungum er annar helgasti staður landsins á eftir Þingvöllum. Þar sat fyrsti biskup landsins og þar stendur móðurkirkja allra annarra kirkna sem reistar hafa verið í landinu.

Skálholt í Biskupstungum er annar helgasti staður landsins á eftir Þingvöllum. Þar sat fyrsti biskup landsins og þar stendur móðurkirkja allra annarra kirkna sem reistar hafa verið í landinu. Margir merkisatburðir hafa þar átt sér stað og saga staðarins er í raun samtvinnuð allri sögu þjóðarinnar. Þangað er merkilegt að koma enn í dag þótt ekki sé staða Skálholts eins miðlæg í stjórnsýslulegu, menntalegu og menningarlegu tilliti og áður var. Fyrir þá sem þekkja sögu staðarins er mikil upplifun að koma þangað og fyrir þá sem hafa áhuga á fallegum byggingum er Skálholtskirkja einstakt guðshús á margan hátt. Þar er einnig að finna marga dýrgripi sem tengjast kristnisögunni. Má þar nefna maríualtari úr Brynjólfskirkju, prédikunarstól úr sömu byggingu og fleiri kirkjugripi sem vekja mikla eftirtekt. Þá teljast altaristaflan eftir Nínu Tryggvadóttur og steindu gluggarnir eftir Gerði Helgadóttur til þjóðardýrgripa. Steinkista Páls biskups Jónssonar, sem lést í Skálholti 1211 er einhver allra merkilegasti forngripur landsins og er hún varðveitt í kjallara kirkjunnar. Sagan sem henni tengist er einnig merkileg og hún vekur athygli allra þeirra sem hana heyra.

Allt þetta veldur því að gríðarlegur fjöldi fólks hefur mikinn áhuga á því að sækja Skálholt heim á hverju ári og þangað sækja hundruð þúsunda manna ár hvert. Það hefur einnig áhrif að staðurinn er í alfaraleið – eins og á fyrri öldum – og þeir sem leggja á sig ferðalagið um Gullna hringinn, sem svo er kallaður, eiga þess kost að koma við í Skálholti án þess að leggja mikla lykkju á leið sína. Og það er gott að fólk vilji sækja Skálholt heim því þá gefst tækifæri til að kynna fyrir fólki sögu staðarins og íslenskrar kristni. Skálholt er heilagur staður vegna þess að þangað hefur fólk streymt í aldanna rás til að komast í tæri við helgi staðarins og þá sögu sem honum er samtvinnuð.

Kirkjan hefur gríðarlegt tækifæri til að byggja upp aðstöðu í Skálholti til að miðla fróðleik og styðja við boðunarstarf sitt. En tækifærið felst einnig í því að afla staðnum tekna. Það er enda mjög mikilvægt þar sem nú þarf mikla fjármuni til að halda við þeim gersemum sem þar eru varðveittar. Til dæmis þarf að kosta til gríðarlegum fjármunum til að gera upp og vernda steindu gluggana í dómkirkjunni.

Nú þarf Þjóðkirkjan að finna þessar leiðir og það verður aðeins gert með myndarlegri uppbyggingu á staðnum sem gerir henni betur kleift að taka á móti þeim sem sækja staðinn heim, Íslendingum og erlendum gestum. Þar getur kirkjan slegist í hóp með fjölmörgum aðilum sem nú vinna að því að styrkja innviði ferðaþjónustunnar í landinu. Hún hefur enga afsökun fyrir því að gera það ekki. Skálholt er helgur staður því þar hafa menn hugsað stórt á flestum tímum. Nú er það nauðsynlegt. ses@mbl.is

Stefán Einar Stefánsson

Höf.: Stefán Einar Stefánsson