Stykkishólmur Mikið líf er við höfnina alla daga og skipaumferð hefur aukist verulega undanfarin ár.
Stykkishólmur Mikið líf er við höfnina alla daga og skipaumferð hefur aukist verulega undanfarin ár. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr Bæjarlífinu Gunnlaugur Auðunn Árnason Stykkishólmur Hesteigendafélag Stykkishólms er að byggja 600 fermetra reiðskemmu úr límtré við hesthúsahverfið. Það styttist í að draumur hestamanna um að eignast bætta aðstöðu verði að veruleika.

Úr Bæjarlífinu

Gunnlaugur Auðunn Árnason

Stykkishólmur

Hesteigendafélag Stykkishólms er að byggja 600 fermetra reiðskemmu úr límtré við hesthúsahverfið. Það styttist í að draumur hestamanna um að eignast bætta aðstöðu verði að veruleika. Með byggingunni batnar öll aðstaða félagsmanna mikið. Hægt verður að stunda reglulega þjálfun hesta yfir vetrartímann og stórefla barna- og unglingastarf. Stykkishólmsbær styrkir bygginguna um 12 milljónir og hestaeigendur fjármagna mismuninn. Þar reynir mjög á félagsmennina sjálfa við húsbygginguna, en þeir eru 50 talsins. Nadine Walter, formaður félagsins, er stolt af sínum félögum og segir að sjálfboðaliðar mæti vel til starfa, sem eflir samstöðuna. Það er mikil tilhlökkun að geta komist í nýja og góða aðstöðu. Tvær samskonar reiðskemmur er verið að reisa á Snæfellsnesi, að Lýsuhóli og í Ólafsvík.

Þjóðvegurinn um Skógarströndina versnar með hverju ári sem líður og hefur ekki verið verri en í sumar. Ástand hans er vaxandi slysagildra eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Umferð hefur aukist vegna fjölgunar ferðamanna. Vegurinn gegnir mikilvægu hlutverki að tengja saman Snæfellsnesið við Vestfirði og Norðurland. Vegurinn styttir vegalengdina um 90 kílómetra í Búðardal og 60 km í Staðarskála. Bifreiðar sem aka Skógarströndina eru oftast auðþekkjanlegar þegar í Hólminn er komið. Sú þjónusta sem ökumenn þeirra nota fyrst er þvottaplan Olís og dekkjaverkstæðið. Eigandi verkstæðisins segir að ástand vegarins skapi honum vaxandi tekjur og að hann þurfi að gefa út afkomuviðvörun ef farið verður í endurbætur á veginum.

Það er góður gangur í ferðaþjónustunni. Ferðamönnum hefur fjölgað mikið það sem af er árinu. Mest er fjölgun erlendra ferðamanna á allskyns bílaleigubílum. Gistirýmum hefur fjölgað í bænum, en ekki nóg til að anna eftirspurn. Áhrif ferðamannanna koma víða fram í bæjarfélaginu. Í sumar störfuðu sjö veitingastaðir og verða flestir þeirra opnir í vetur. Aðsókn að söfnum, sundlauginni og tjaldstæði hefur verið góð. Í sumar komu til Stykkishólms 14 skemmtiferðaskip og hefur ferðum þeirra fjölgað á síðustu árum. Nú telst það ekki lengur til tíðinda þó sjáist farþegaskip við hafnarkantinn.

Rán ehf. í eigu Kristjáns Berntssonar og Eydísar Jónsdóttur hefur fengið leyfi til að reisa 8 smáhýsi við tjaldstæðið í Hólminum. Um er að ræða 35 fermetra hús með 2 herbergjum og er undirbúningur að byggingu hafinn. Húsin verða til útleigu fyrir ferðamenn.

Tilraunaveiðar á hörpuskel eru hafnar þriðja árið í röð. Verið er að rannsaka betur ákveðin svæði og meta hvaða áhrif veiðarnar hafa á viðkvæman hörpudisksstofninn. Veiðum var sjálfhætt árið 2003 er skelstofninn hrundi vegna sýkingar. Heimilt er að veiða um 800 tonn á tímabilinu. Veiðar hafa gengið vel, falleg skel sem hentar vel til vinnslu. Einn bátur stundar í fyrstu veiðarnar og er aflinn um 8-9 tonn á dag. Skelin er unnin hjá Agustson ehf.

Miklar byggingarframkvæmdir eru í bænum og meiri en hefur verið um langt árabil. Mikið er að gera hjá iðnaðarmönnum og vantar fólk til starfa. Það er verið að byggja íbúðarhús, leiguíbúðir og endurbyggja og viðhalda gömlum húsum. Til að fylgja eftir aukinni eftirspurn hefur bæjarstjórn opnað fyrir byggingar í nýju hverfi þar sem áður var bærinn Vík.

Hafin er stækkun við grunnskólann. Um er að ræða 500 fermetra menningarbyggingu sem mun hýsa starfsemi Amtsbókasafnsins, skólasafns og ýmsa menningarviðburði. Skipavík ehf. tók að sér verkefnið í alútboði og skilar verkefninu eftir tæpt ár.

Í Stykkishólmi virðast vera bjartir tímar framundan. Það sem styrkir þá sýn er að íbúum hefur fjölgað um 3,7% frá áramótum og eru nú 1.147.