„Miðað við þær upplýsingar sem við höfum um sölu á bókum Halldórs Kiljans Laxness er Arnaldur búinn að slá met hans en bækur Halldórs eru hingað til taldar hafa selst í um 10 milljónum eintaka,“ segir Hólmfríður Úa Matthíasdóttir, útgefandi Forlagsins.
Miðað við alla sölu á öllum bókum Arnaldar Indriðasonar eru þær sölutölur komnar vel yfir 12 milljónir eintaka á heimsvísu en bókin Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness er þó enn sú staka bók eftir Íslending sem hefur selst í flestum eintökum erlendis.
Hólmfríður segir að í raun sé það þó svo að aldrei verði hægt að segja með hundrað prósent vissu að íslenskir rithöfundar hafi skákað Nóbelsverðlaunaskáldinu því á þeim tíma sem Halldór Laxness hóf sinn rithöfundarferil, og langt fram eftir honum, voru samantektir á sölutölum ekki fullnægjandi.
„Fyrsta bók Halldórs Kiljans Laxness í erlendri útgáfu kom út fyrir 82 árum og á þeim tíma voru auðvitað engar tölvur og því ekki jafnauðvelt að halda utan um og nálgast upplýsingar.
En þetta er engu að síður það sem við höldum og segjum eftir bestu vitund; að Arnaldur sé búinn að selja tveimur milljónum eintaka fleiri bækur en Halldór Kiljan Laxness. Sá fyrirvari sem við setjum á þetta er að einhvern tímann gæti eitthvað dúkkað upp sem við vitum ekki í dag varðandi sölu á bókum Halldórs, þótt ég eigi ekki von á því.“
Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.