Áhrínisorð Egill Skallagrímsson knúði fram vilja sinn með því að orða hann í vísu sem magnaðist upp við að vera rist með rúnum.
Áhrínisorð Egill Skallagrímsson knúði fram vilja sinn með því að orða hann í vísu sem magnaðist upp við að vera rist með rúnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Passaðu töskuna þína, hún er opin!“ var sagt fyrir stuttu við konu í hópferð í útlöndum. „Það er allt í lagi, bara að ég missi ekki þetta,“ sagði konan og benti á veskið sem hún hafði vafið um úlnliðinn, með vegabréfinu og...

Passaðu töskuna þína, hún er opin!“ var sagt fyrir stuttu við konu í hópferð í útlöndum. „Það er allt í lagi, bara að ég missi ekki þetta,“ sagði konan og benti á veskið sem hún hafði vafið um úlnliðinn, með vegabréfinu og bankakortinu. „Passaðu þig að djinksa það ekki,“ sagði förunauturinn. „Á ekki segja ‘djinksa því '?“ sagði sá þriðji. Sú fjórða stóð hjá og vissi ekki um hvað þau voru að tala. Skömmu síðar var veskið horfið og konan fór á næstu lögreglustöð að tilkynna vasaþjófnað sem hún kallaði kannski yfir sig með sínum eigin áhrínisorðum – nefnd jinx á ensku.

Trúin á kraft orðanna er ekki bundin við forneskjuna eða prentuð þjóðsagnasöfn heldur var það almenn trú Íslendinganna í hópnum að konan hefði storkað örlögunum með því að orða hættuna; sum héldu að það hefði hjálpað að segja „sjö, níu, þrettán“ og banka í tré, til að vinda ofan af galdrinum.

Hér er á ferð sama hugmynd um kynngi orðanna og þekkt er úr sögum af ákvæðaskáldum sem sænski þjóðfræðingurinn Bo Almqvist skrifaði merka grein um í Skírni 1961 og tengdi við írsk kraftaskáld. Og sögurnar ná langt aftur því Egill Skallagrímsson knúði fram vilja sinn með því að orða hann í vísu sem magnaðist upp við að vera rist með rúnum. Þorleifur jarlsskáld var ekki síður öflugur í þessari iðju, eins og Þórarinn Eldjárn skrifaði um í sögu sinni Hér liggur skáld – og Grímur Thomsen orti um: „Enginn skyldi skáldin styggja, skæð er þeirra hefnd.“

Því fer fjarri að fornskáldin ein hafi verið ákvæða- og kraftaskáld. Hinn 10. nóvember árið 1968 spurði Hallfreður Örn Eiríksson, þjóðsagnasafnari Árnastofnunar, Jón Norðmann Jónasson í Mávahlíðinni í Reykjavík hvort það hefðu verið fleiri kraftaskáld talin þarna í Skagafirði. Jón svaraði (sbr. http://www.ismus.is/i/audio/id-1009250): „Ég man það nú ekki núna í augnablikinu, en eitt get ég nú sagt þér ef þú kærir þig um. Það er nú ekki beint úr Skagafirði, og þó, það er í sambandi við Guðrúnu, dóttir séra Páls skálda í Vestmannaeyjum. Páll skáldi þótti nú kraftaskáld, og það þótti nú ganga eftir einu sinni. Honum lenti eitthvað saman við einhvern vertíðarmann þarna í Vestmannaeyjum, og þessi vertíðarmaður, hann kvað einhverja vísu um Pál þar sem hann spáir honum því að hann muni drukkna. Og Páll reiddist og gerir vísu, þetta var á vertíðinni, og sú vísa er svona:

‘Fari það svo að fyrir lok,

fáirðu að rata í sandinn,

ætti að skerast ofan í kok,

úr þér tungufjandinn.'

En það fór nú svo að þessi maður, þegar hann var að fara í land, þá drukknaði hann við Landeyjasand og þegar hann fannst, hafði marfló étið úr honum tunguna. Og, ja, þetta gat nú vel allt hafa skeð án þess að vísan hefði komið, en þetta hittist nú svona á. Nú, Guðrún dóttir hans sagði föður mínum nú þessa sögu.“ Hvort Páll skáldi í Eyjum hefur ‘djinksað' það eða því , er ekki gott að segja.

Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is

Höf.: Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is