Sigríður Ingibjörg Bjarnadóttir fæddist í Vestmannaeyjum 19. febrúar 1931. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum, 1. október 2016.

Foreldrar Sigríðar Ingibjargar voru Bjarni Bjarnason, f. 12. nóvember 1903 í Efri-Hömrum í Holtum í Rangárvallasýslu, d. 9. apríl 1993, og Sigurbjörg Einarsdóttir, f. 27. apríl 1910 á Krossi í Landeyjum í Rangárvallasýslu, d. 1. september 1987. Systkini Sigríðar Ingibjargar: Einar Valur, f. 25. mars 1932, d. 5. september 2014, og Gunnhildur, f. 4. apríl 1935. Foreldrar þeirra, Bjarni og Sigurbjörg, bjuggu allan sinn búskap í Eyjum og voru jafnan kennd við hús þeirra, Breiðholt við Vestmannabraut.

Sigríður Ingibjörg, eða Sirrý eins og hún var jafnan kölluð, giftist 12. apríl 1952 Stefáni Helgasyni, elsta syni hjónanna Helga Benediktssonar, f. 1899, d. 1971, og Guðrúnar Stefánsdóttur, f. 1908, d. 2009. Dætur þeirra eru : 1. Guðrún, f. 17. ágúst 1952 . Eiginmaður hennar er Arnar Sigurmundsson. Hún á þrjú börn með fyrri eiginmanni sínum, Jóni Braga Bjarnasyni. Þau eru: a) Sigurrós, f. 1972, gift Kára Árnasyni Ibsen og eiga þau tvo syni. b) Sigríður Dröfn, f. 1976, gift Andrési Þór Gunnlaugssyni og eiga þau fjögur börn, c) Bjarni Bragi, f. 1991, í sambúð með Hólmfríði Hartmannsdóttur. 2. Sigurbjörg, f. 7. nóvember 1953, eiginmaður hennar er Páll G. Ágústsson. Börn þeirra eru a) Íris, f. 1973 , gift Rúnari Þór Birgissyni og eiga þau þrjú börn. b) Stefán, f. 1979, kvæntur Clöru L. Benitez Robertsdóttur og eiga þau fjögur börn. c) Hjalti, f. 1990, í sambúð með Örnu Hlín Ástþórsdóttur.

Að lokinni skólagöngu í Eyjum fór Sirrý í Húsmæðraskólann að Laugalandi í Eyjafirði skólaárið 1949-1950. Eftir að dæturnar uxu úr grasi fór hún á vinnumarkað á nýjan leik og starfaði meðal annars í verslunum tengdaforeldra sinna. Þá starfaði hún um langt árabil við handavinnukennslu í Gagnfræðaskólanum í Eyjum og síðar veitti hún forstöðu í Athvarfi nemenda við Barnaskóla Vestmannaeyja og Hamarskólann í Eyjum. Sirrý lét af störfum árið 2001 þegar hún varð sjötug.

Síðustu æviárin eftir að heilsan gaf sig dvaldi Sirrý á Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum.

Útför Sigríðar Ingibjargar fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 8. október 2016, kl. 14.

Faðmlag Sirrýjar ömmu var innilegra og lengra þegar ég hitti hana í síðasta skipti í sumar, áður en ég fór frá Eyjum. Á leið minni af spítalanum velti ég fyrir mér hvort hún vissi meira en ég – einhvern veginn grunar mig það.

Fyrstu minningar mínar um ömmu eru frá Brimhólabrautinni, en við Hjalti frændi dvöldum þar saman löngum stundum. Hús Sirrýjar ömmu og Denna afa og umhverfið í kring var allt einn stór ævintýraheimur. Svefnsófinn sem við gistum í var ekki sófi heldur var hann Herjólfur, bláa teppið á ganginum var sjór sem varð að hoppa yfir. Hrjóstrugir klettar á Hólnum urðu að húsi með eldhúsaðstöðu og kjallara og með einni nælu breytti amma teppi í riddaraskikkju. Í bakgarðinum tókum við öll saman upp alls konar grænmeti. Minnisstæð er búðarferð með ömmu og afa þar sem amma missti á mig eggjabakka svo kollurinn varð að eggjaköku, stóratburður fyrir lítinn koll.

Eftir fráfall Denna afa árið 2000 fluttist Sirrý amma í íbúð eldri borgara í Kleifarhrauni. Allt var einhvern veginn betra hjá ömmu en heima, meira að segja mjólkin. Þær voru ófáar gæðastundirnar sem fjölskyldan átti hjá ömmu sem umvafði okkur með sinni hlýju og afslöppuðu nærveru. Hvort sem það var á leið heim úr skólanum, af sparkvellinum eða í hádegismat og kríu í sófanum, alltaf voru dyrnar hjá ömmu opnar og pönnukökupannan stutt undan.

Við amma ræddum eitt og annað, hvort sem það voru gömul ástarbréf foreldra hennar eða Heimaeyjargosið og gamli tíminn. En það sem mér finnst standa upp úr þessum samræðum var hversu ótrúlega umburðarlynd hún var þegar kom að litrófi mannlífsins, hún felldi enga dóma – allir voru bara mannlegir.

Undanfarin ár fékk hún ófáar heimsóknir upp á spítala í Eyjum. Þar hafði hún helst áhyggjur af því hvort allir gestkomandi fengju kaffi og meðlæti. Hún var meira en tilbúin til þess að hætta sér í svaðilfarir á óstyrkum fótunum svo allir fengju sitt, svo að stundum þurfti beinlínis að standa yfir henni. Í fjölskylduboðum síðustu árin naut hún sín þar sem hún rifjaði upp gamla tíma yfir slædsmynda-sýningum og dáðist að litlu börnunum.

Það er erfitt að kveðja, en ég er þakklátur fyrir að hafa átt svona yndislega ömmu og að geta yljað mér um hjartarætur við minningarnar um allar góðu samverustundirnar. Takk fyrir allt.

Bjarni Bragi.

Elsku besta Sirrý amma.

Mikið rosalega er erfitt að kveðja þig, en samt um leið er ég glaður að þú fáir loks að hitta Denna afa og alla þá sem eru þér svo mikilvægir. Ég er glaður að hafa safnað ótrúlega dýrmætum minningum um yndislega ömmu.

Þú átt svo sannarlega risastóran hluta af hjarta mínu, söknuðurinn er mikill, tómarúmið er mikið en ég get huggað mig við það að plássið sem þú skilur eftir er pláss fyrir þær endalausu minningar sem ég á um þig, á um okkur saman að hafa gaman. Þær mun ég að eilífa geyma.

Ég þekki ekki lífið án þín, allt frá því ég fæddist varðst þú stór partur af því, þú varst mér svo mikilvæg. Þú varst ekki bara amma mín, þú varst vinkona mín. Við spjölluðum mikið saman, við rúntuðum saman, við grínuðumst saman. Þú varst svo góð við allt og alla, þú sást það góða í öllum.

Þolinmæði þín var einstök, það mátti sko allt hjá Sirrý ömmu og Denna afa.

Þú spurðir mig þegar ég var lítill hvað krakkarnir á leikskólanum mínum hétu, ég svaraði: „Áttu ís?“ Ísinn fékk ég alltaf en þó komst það ekki til skila fyrr en löngu síðar, að ég var einfaldlega að svara þér að Áslaug Dís væri með mér á leikskólanum. Takk fyrir alla ísana, takk fyrir allar pönnukökurnar, takk fyrir allt, elsku amma.

Gleðinni, kærleikanum, húmornum og þolinmæðinni tapaðir þú aldrei. Minningunni um þig, elsku amma mín, tapa ég aldrei.

Við sjáumst síðar og þá fæ ég pottþétt pönnukökur, ég bið vel að heilsa öllum sem ég þekki þarna uppi.

Hjalti Enok.

Elsku Sirrý amma.

Við eigum öll eftir að sakna þín og allar góðu minningarnar verða ávallt varðveittar hjá okkur. Til dæmis þegar ég var í pössun hjá þér og við elduðum saman rosalega flott kjöt. Þá sagði ég: Amma þú verður að muna að steikja kjötið í 2 mínútur á hvorri hlið eins og karlinn i sjónvarpinu sagði, og að sjálfsögðu gerðir þú það fyrir mig. Eins þegar við vorum í skrifstofuleik og við sendum skeyti á milli okkar eða þegar við vorum í spítalaleik og þá skaust ég undir hornborðið, þar sem dótakassinn var, náði í sárabindið og fékk að vefja þig alla. Eins man ég þegar við misstum ilmvatnið í gólfið og allt húsið angaði af ömmulykt og við hlógum bara að því. Þú varst alltaf tilbúin að hjálpa til ef eitthvað var að, hugga mann þegar maður átti erfitt eða hlæja þegar manni leið illa og koma manni í gott skap.

Seinna þegar ég var kominn í skóla þá komum við Sirrý alltaf í hádegismat á föstudögum og þú varst alltaf búin að elda eitthvað gott, en alltaf var nú grjónagrauturinn bestur. Það var fastur liður hjá okkur fjölskyldunni á Þorláksmessu að koma til þín í hangikjöt. Eins var laufabrauðsútskurðurinn hjá þér alveg ómissandi liður í jólunum. Þetta eiga eftir að verða skrítin jól og áramót í ár þegar það vantar þig hjá okkur. Við fengum oft að baka með þér flatkökur og pönnukökur og borðuðum það með bestu lyst enda varst þú best í þeim flokki.

Þín verður sárt saknað, en við vitum að þú verður alltaf með okkur.

Ástarþakkir fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, elsku amma.

Þinn,

Snorri.

Elsku amma, það eru bara liðnir nokkrir dagar en samt sakna ég þín eins og þú sért búin að vera rosa lengi í burtu frá okkur.

Ég fór aðeins að hugsa um allar skemmtilegu og góðu minningar okkar saman. Þegar ég var lítil vildir þú alltaf leika við mig og ég vildi alltaf vera hjá þér. Þegar ég var síðan í grunnskóla kom ég alltaf til þín eftir skóla og þú varst alltaf búin að elda góðan mat fyrir mig. Síðan horfðum við alltaf saman á þáttinn okkar og spjölluðum mikið um persónurnar og hvað við vonuðumst til að myndi gerast í næsta þætti. Þú vildir alltaf láta mig lesa svo þú gætir heyrt hvað ég væri búin að bæta mig frá degi til dags. Alltaf þegar við systkinin áttum að fara í pössun þá vildi ég fara til þín því það var svo mikið kósí hjá okkur. Á morgnana vaknaði ég síðan alltaf við það að þú varst búin að finna handa mér rosa flottan morgunmat og búin að skera niður fullt af ávöxtum fyrir mig sem þú færðir mér síðan á bakka. Eftir að þú fórst á spítalann gaf ég mér ekki eins mikinn tíma til þess að kíkja á þig, því fannst mér við fjarlægjast hvor aðra pínu. Núna hugsa ég bara, vá ég hefði átt að finna mér meiri tíma til að bara fara til þín og spjalla um allt og ekkert.

En núna veit ég að þér líður ekkert illa lengur. Núna ertu ekki jafn þreytt og ég veit að þú ert komin til mömmu þinnar og pabba og til Denna afa.

Hvíldu í friði, elsku amma. Takk fyrir allar góðu stundirnar og minningarnar. Þú ert og verður alltaf mín mesta fyrirmynd í lífinu og ég er svo endalaust stolt af því að bæði hef ég getað kallað þig ömmu mína og svo stolt og glöð að ég fái að bera nafn þitt með mér alltaf.

Ég elska þig. Þitt langaömmubarn,

Sirrý.

Móðir mín ól tvær kynslóðir í þennan heim á 23 árum. Mágkonur mínar, þær Sirrý, Bryndís og Dóra, voru því stundum ígildi móður minnar þegar foreldrarnir voru af bæ, enda var ég á svipuðum aldri og bræðrabörnin.

Sirrý var glaðlynd kona og góðlynd. Hún hafði gott lag á börnum og lét þau hlýða sér ef þess þurfti. Hún var mannvinur og sáttasemjari, sem einatt var leitað til þegar draga þurfti úr ýfingum milli manna. Stefán sagði móður okkar eitt sinn að þeim hefði aldrei orðið sundurorða í hjónabandi sínu.

Minningarnar hópast að. Um aðventuleytið 1959 sáu þau Sirrý og Denni um heimilið að Heiðarvegi 20 á meðan móðir okkar var með Helga bróður í Reykjavík, þar sem hann barðist við hvítblæðið sem dró hann til dauða árið eftir. Þær Guðrún og Systa voru kærkomnir leikfélagar. Töluðum við ótal margt og reyndum enn fleira.

Þá hafði sá siður komist á að gefa börnum í skóinn og varð það til þess að við sofnuðum stundum seint. Oft var kveikt frammi á gangi og skein ljósgeislinn á sængina hjá okkur. Við komumst að því að englar væru þar á ferð. Stundum reyndum við að ýta þeim á brott, en hvernig sem við kuðluðum sænginni fóru þeir hvergi.

Þeim hjónum var einstök gestrisni í blóð borin og einhvern veginn fór það svo að við kynntum iðulega fyrir þeim gesti sem að garði bar. Móttökurnar voru hlýlegar og alltaf eitthvað gómsætt á borðum. Kvöldið fyrir skírdag 1971 fórum við í heimsókn á Boðaslóðina og fengum firnagóða rjómatertu. Kvöldið eftir spurði pabbi hvort við ættum ekki að heimsækja Sirrý um helgina og hjálpa þeim hjónum með kökuna. Leikar fóru svo að hún var nýtt á föstudaginn langa handa fjölskyldu og vinum sem komu til að votta samúð sína vegna andláts hans.

Sirrý var einkar næm á aðstæður og tilfinningar fólks. Vorið 1987 átti ég erindi til Eyja og bauð með mér konu nokkurri, sem varð síðar eiginkona mín. Við héldum að engan grunaði að um samdrátt væri að ræða, en mamma trúði mér fyrir því að Sirrý hefði sagt sér að greinilega væri þetta ástarsamband, „því að hún horfði á hann með svo mikilli væntumþykju“. Auðvitað voru þetta góðar fréttir.

Stefán lést árið 2000 og syrgði hún hann mjög. Naut Sirrý þess að tala um hann og segja frá ýmsu sem borið hafði við um ævina. En smám saman fann hún glaðlyndi sitt á ný og hefur umhyggja afkomenda hennar vafalítið stuðlað að því. Á ég þar við Guðrúnu og Systu, afkomendur þeirra og eiginmenn.

Við hjónin heimsóttum Sirrý í síðasta sinn í sumar. Hún var glöð að vanda en hugurinn reikaði víða og athafnaþráin lýsti sér í orðræðum hennar um að hún ætlaði nú að fara að pakka saman og halda heim af sjúkrahúsinu. Margt rifjuðum við upp. „Þú varst nú stundum óttalega óþægur við mig,“ sagði hún. Kannaðist ég vel við það og bað hana fyrirgefningar. „Ef þú kyssir mig á kinnina,“ svaraði hún og hlýddi ég því.

Við Elín biðjum sál hennar allrar blessunar og vottum þeim Guðrúnu, Systu og fjölskyldum þeirra samúð okkar.

Arnþór Helgason.

Brosmildi, glettni og hláturmildi eru allt orð sem koma upp í hugann þegar ég hugsa til Sirrýar. Hún var einstaklega hjartahlý og glaðsinna kona. Það birti upp í kringum hana. Við Fífilgötufjölskyldan áttum margar góðar samverustundir með Sirrý og fjölskyldu. M.a. gamlárskvöldin hjá okkur á Fífó og þrettándakvöldin á Boðaslóðinni hjá þeim. Bátsferðirnar, þegar haldið var til Sölva. Ég átti líka góðar stundir hjá Sirrý og Denna frænda, manni hennar, þegar þau pössuðu mig í æsku. Sirrý umfaðmaði mig og sinnti af mikilli natni. Ég held að það hafi myndast ákveðinn strengur milli okkar frá þeim tíma sem var alltaf til staðar. Ég kveð þessa eðalkonu með söknuði og þakklæti fyrir samferðina og allar þær góðu minningar sem hún skildi eftir handa mér. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég til dætra hennar, niðja og annarra í fjölskyldunni.

Stefán Haukur

Jóhannesson.

Sigríður Bjarnadóttir, Sirrý, elskuleg vinkona foreldra minna og okkar systkinanna á Fífilgötu 8, hefur kvatt þetta líf. Hún skilur eftir sig góðar minningar um ljúfa manneskju sem öllum þótti vænt um. Hún var ávallt hlý og brosandi, með góðan húmor og gleði sem geislaði af henni. Sirrý kenndi hannyrðir við gagnfræðaskólann þegar ég var unglingur og náði góðu sambandi við okkur, nemendur sína, þó að unglingastælarnir væru stundum yfirþyrmandi. Seinna unnum við Sirrý saman í þessum sama skóla þegar ég hóf kennslu og áttum gott og skemmtilegt samstarf . Eftir það fór Sirrý að vinna í barnaskólanum þar sem hún hélt utan um athvarf skólans og man ég eftir að Eiríkur heitinn skólastjóri kynnti hana sem „ömmuna“ í athvarfinu. Öll börnin sem þangað sóttu nutu hins hlýja hjartalags sem Sirrý bjó yfir. Hún sýndi þeim ávallt þolinmæði, skilning, stuðning og elskusemi og hvatti þau sífellt til dáða. Nokkuð er ég viss um að margir skjólstæðinga hennar hugsa til hennar með mikilli hlýju þó mörg ár séu liðin síðan athvarfið var og hét.

Ég vil, fyrir hönd móður minnar og systkina, þakka samfylgdina í gegnum lífið. Megi blessun fylgja afkomendum hennar sem við sendum innilegar samúðarkveðjur.

Erna Jóhannesdóttir.