„Það eru auðvitað uppi blendnar tilfinningar í þessu máli, en við metum ástandið hins vegar svo að þetta sé betri kostur en að láta svæðið fara endanlega niður í svaðið,“ segir Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis. Í gær náðust samningar á milli félagsins og íslenska ríkisins um kaup hins síðarnefnda á öllum eignarhluta Landeigendafélagsins innan girðingar á Geysissvæðinu.
Ríkið hefur um margra ára skeið átt í viðræðum við sameigendur sína innan girðingar á Geysissvæðinu um hugsanleg kaup ríkisins á eignarhluta þeirra. Nýgerður samningur bindur því enda á áralangar viðræður um að ríkið eignist svæðið að fullu, en deilur um gjaldtöku inn á svæðið rötuðu m.a. fyrir dómstóla fyrir tveimur árum.
Kaupverð lagt í mat
Svæðið innan girðingar á Geysi er u.þ.b. 19,9 hektarar að stærð. Innan þess svæðis á ríkið sem séreign u.þ.b. 2,3 hektara lands fyrir miðju svæðisins, en þar eru hverirnir Geysir, Strokkur, Blesi og Óþverrishola. Það sem eftir stendur, eða u.þ.b.17,6 ha., er í sameign ríkisins og Landeigendafélagsins.Fram kemur í tilkynningu fjármálaráðuneytisins að samkvæmt samningi verður kaupverð eignarhlutans lagt í mat þriggja dómkvaddra matsmanna. Fyrir um þremur árum var svæðið hins vegar í heild metið á 2,5 til 3,5 milljarða króna. Á síðasta ári buðu landeigendur um 800 milljónir króna í hlut ríkisins á Geysissvæðinu, en því tilboði var hafnað.
„Við undirritun samningsins tók ríkið formlega við umráðum alls lands sameigenda innan girðingar við Geysi. Þar með er ríkið orðið eigandi alls þess svæðis, en ríkið á þegar stóran hlut aðliggjandi landsvæða utan girðingar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. khj@mbl.is