Bestur Ármann Smári Björnsson varð efstur í einkunnagjöf Morgunblaðins árið 2016 og hlaut fyrir vikið veglegan verðlaunagrip. Ármann lék átján leiki með Skagamönnum í deildinni og fékk samtals 17 M fyrir frammistöðuna.
Bestur Ármann Smári Björnsson varð efstur í einkunnagjöf Morgunblaðins árið 2016 og hlaut fyrir vikið veglegan verðlaunagrip. Ármann lék átján leiki með Skagamönnum í deildinni og fékk samtals 17 M fyrir frammistöðuna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bestur 2016 Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.

Bestur 2016

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Hornfirðingurinn Ármann Smári Björnsson, miðvörður og fyrirliði ÍA, var valinn besti leikmaður Pepsi-deildar karla á nýafstöðnu tímbili af Morgunblaðinu en Ármann fékk flest M í einkunnagjöf blaðsins eins og farið var ítarlega yfir í þriðjudagsblaðinu síðasta.

,,Það er frábært að fá svona viðurkenningu og gaman að fá smá klapp á bakið, sérstaklega þar sem tímabilið endaði svona illa fyrir mig,“ sagði Ármann Smári við Morgunblaðið þegar hann tók á móti fallegum verðlaunagrip sem hann fékk viðurkenningarskyni. Hornfirðingurinn hávaxni varð fyrir því óláni að slíta hásin í leik á móti KR-ingum í 19. umferð deildarinnar og missti þar af leiðandi af þremur síðustu leikjum sinna manna. Ármann hefur þegar gengist undir aðgerð og verður frá æfingum og keppni næstu mánuðina en hann stefnir á endurkomu.

Ármann Smári, sem er 35 ára gamall, stóð vaktina vel í vörn Skagamanna í sumar og í ófá skipti kom hann til bjargar í vítateig sinna manna og gerði usla mikinn í vörn andstæðinganna enda stór og stæðilegur og sérlega hættulegur í föstum leikatriðum ÍA-liðsins, sem endaði í áttunda sæti.

Gátum ekki farið neðar

,,Við byrjuðum mótið hörmulega og maður heyrði þá umræðu að við færum örugglega niður. Ég er kannski orðinn það gamall í þessu að ég er hættur að spá í hvað aðrir segja. En bæjarfélagið kveikir í mönnum og við fengum alveg að heyra það þegar verst gekk í byrjun tímabilsins. Það urðu ákveðin kaflaskil eftir sigurinn á móti KR í Frostaskjólinu. Við gátum ekki farið neðar eftir tapið á heimavelli á móti Þrótti og ég held að það hafi verið sparkið í rassinn sem við þurftum. Við náðum að vinna fimm leiki í röð eftir tapleikinn við Þrótt og þar með skildum við botnliðin eftir. Spilamennska liðsins um mitt sumar var virkilega góð en við gáfum síðan eftir á lokasprettinum. Það vantaði meiri stöðugleika hjá okkur. Annaðhvort töpuðum við örugglega eða unnum. Ef okkur hefði tekist að halda dampinum allt tímabilið þá hefðum við alveg getað náð Evrópusæti og það hefði verið óskaplega gaman og ekki síst fyrir ungu strákana í liðinu. En ég er sannfærður um að það gerist innan tíðar,“ sagði Ármann Smári, sem þessa dagana styðst við hækjur eftir aðgerðina á hásininni.

Gott að gefa uppöldum leikmönnum tækifæri

Ármann Smári segist ánægður með þá stefnu sem tekin var á Akranesi að stóla á yngri og uppalda leikmenn félagsins en margir þeirra vöktu verðskuldaða athygli fyrir vasklega framgöngu í sumar.

,,Ég er mjög hlynntur þeirri stefnu að gefa uppöldum leikmönnum tækifæri. Það hefur verið gert á Akranesi en auðvitað þarf líka að styrkja liðið með utanaðkomandi leikmönnum. Þeir mega hins vegar ekki vera of margir. Þessir ungu strákar hafa öðlast ómetanlega reynslu síðustu tímabil og ef rétt verður haldið á spöðunum þá er framtíðin björt hjá liðinu,“ sagði Ármann.

Ármann hefur leikið með Skagamönnum frá 2012 þegar hann sneri heim úr atvinnumennsku en hann lék í Noregi og á Englandi í fimm ár. Hann er uppalinn hjá Sindra á Hornafirði og lék síðan með Val og FH á árunum 2001 til 2006, og fagnaði þremur Íslandsmeistaratitlum á jafnmörgum árum með FH-ingum áður en hann fór til Noregs, þar sem hann varð meistari með Brann í fyrstu tilraun. Ármann lék með Brann til 2009 en var síðan tvö tímabil með Hartlepool í ensku C-deildinni.

Kalla mig stundum afann

,,Strákarnir eru stundum að kalla mig afann í hópnun,“ segir Ármann og hlær en hann elsti og reyndasti leikmaður ÍA-liðsins. ,,Mér finnst gaman þegar strákarnir koma til mín og leita ráða. Ég segi þeim hiklaust hvað mér býr í brjósti um það sem þeir þurfa að laga og þeir skilja það. Þeir hlusta á mig og ég er mjög ánægður með það,“ segir Ármann.

Eins og áður segir meiddist Ármann illa þegar hann sleit hásin en hann vonast til að geta komist aftur út á völlinn. ,,Þetta eru verstu og leiðinlegustu meiðslin sem ég hef lent í á mínum ferli. Það er ömurlegt að þurfa að hanga heima og geta ekki æft og spilað en ég lít á þetta sem verkefni sem ég þarf að leysa. Nú ætla ég bara að reyna að fá mig góðan af þessum meiðslum og ég reikna alveg með því að spila aftur. Ég ætla að gera allt til þess. Nú ef það gengur ekki þá mun ég samt vera eitthvað í kringum fótboltann,“ segir Ármann Smári en hann verður frá vegna meiðslanna næsta hálfa árið.

Ármann Smári hefur gengið í gegnum ýmislegt með Skagamönnum þau ár sem hann hefur leikið með þeim. ,,Ég hef fallið með liðinu og komist upp og svona er bara fótboltinn. Ég átti góða tíma hjá Val og FH og öðlaðist heilmikla reynslu. Það var gaman að taka þátt í uppgangi FH og ég á ljúfar minningar frá Íslandsmeistaratitlunum sem ég vann með FH. Ég fékk tækifæri til að spreyta mig í atvinnumennskunni og þar rættist ákveðinn draumur og svo var mikill heiður að fá tækifæri til að spila með landsliðinu,“ segir hinn hógværi Ármann Smári, sem á tímabili flakkaði á milli þess að spila sem miðvörður eða framherji og hann skoraði sitt eina mark með íslenska landsliðinu sem framherji þegar hann skoraði fyrra markið í 2:1 sigri á móti Norður-Írum í undankeppni EM á Laugardalsvellinum árið 2007.

Duglegir að minna mig á markið

Ármann lék alls sex leiki með íslenska landsliðinu. ,,Strákarnir eru duglegir að minna mig á þetta mark í kringum landsleikina. Það er gaman að eiga þessar minningar og þegar maður hættir þá getur maður farið á koddann og sagt við sjálfan sig: Maður er þó búinn að gera þetta allt saman.“

Spurður út í gæði fótboltans í sumar og hvort EM hafi haft áhrif á deildina, segir Ármann:

,,EM hafði ekki áhrif á okkur. Við æfðum vel og á þeim tíma vorum við rífa okkur upp úr drullunni. Gulli gaf okkur líka gott frí þar sem menn gátu farið þangað sem þeir vildu. Menn gátu kúplað sig aðeins frá þessu og þetta gerði okkur gott. Mér fannst fótboltinn yfirhöfuð í sumar bara nokkuð góður og ég er ekki sammála þeim sem segja að hann hafi verið lélegur. Það eru margir ungir góðir strákar að koma upp en mér finnst synd hversu mörgum ungum leikmönnum er ýtt út í staðinn fyrir útlendinga. Þar með er ég ekkert að setja út á útlendingana. Það er gott að hafa þá en þeir mættu vera færri en betri.“

Ármann Smári
Björnsson
» Ármann er 35 ára gamall og hóf sinn feril með Sindra á Hornafirði þar sem hann skoraði 45 mörk í 61 deildaleik.
» Ármann lék með Val og FH áður en hann gekk í raðir ÍA og í millitíðinni lék hann með Brann í Noregi og Hartlepool á Englandi.
» Ármann lék sex leiki með íslenska A-landsliðinu og skoraði eitt mark. Leikir hans í efstu deild hér á landi eru 149 og mörkin 17. Samtals hefur hann spilað 316 deildaleiki á ferlinum, heima og erlendis, og skorað í þeim 72 mörk.