Haraldur Benediktsson
Haraldur Benediktsson
Eftir Harald Benediktsson: "Póstdreifing er á tímamótum. Mikilvægt er að bregðast við og gera úrbætur sem eru í takt við breytta tíma."

Í upphafi aprílmánaðar tók Íslandspóstur upp breytt fyrirkomulag varðandi póstdreifingu í dreifbýli og 34 minni byggðakjörnum, sem felst í því að útburðardögum hefur verið fækkað úr fimm á viku, í annan hvern virkan dag. Sem sagt tvo daga og þrjá daga vikulega á víxl.

Nú er saga póstburðar á Íslandi mæld í árhundruðum. Sagan er samofin búsetu- og atvinnuþróun þjóðarinnar. Góð póstþjónusta hefur á hverjum tíma þótt bæði sjálfsögð og nauðsynleg. Margs konar breytingar hafa verið gerðar á þjónustunni gegnum tíðina í takt við breytingar á samfélaginu. Of langt mál er að telja það upp hér.

Raunar var síðasta breyting á póstþjónustu sú að fjölgað var dreifingardögum úr þremur í fimm daga árið 2002. Íbúar dreifbýlis nota póstinn jöfnum höndum sem blaðbera og flutningsaðila á aðföngum til heimilis og fyrirtækjareksturs. Notkun á póstverslun hvers konar eykst jafnt og þétt og góð þjónusta Íslandspósts á pakkadreifingu gerir íbúum dreifbýlis kleift að fá innlenda pakkasendingu heim daginn eftir pöntun. Það er þungamiðja í póstþjónustu í dreifbýli að eiga möguleika á jafnskilvirku og -traustu flutningskerfi og Íslandspóstur hefur boðið. Það er næsta óraunverulegt að tíðni póstferða sé núna annan hvern virkan dag í dreifbýli. Sem sagt lakari þjónusta en verið hefur í áratugi. Að ekki sé talað um þegar frídagar lenda á póstdögum en þá verður póstur allt að sex daga gamall þegar hann loks berst viðtakanda þó að á einhverjum svæðum sé reynt að dreifa næsta virkan dag, lendi póstdagur á frídegi.

Íslandspóstur hefur burðarhlutverk í póstdreifingu í landinu. Fyrirtækið er í samkeppni og það er staðreynd að bréfasendingar hafa og munu að öllu óbreyttu halda áfram að dragast saman. Bætt aðgengi og aukin notkun rafrænna samskipta breytir myndinni líka verulega. Ný fyrirtæki í póstdreifingu hafa haslað sér völl í fjölmennasta þéttbýli landsins. Raunar er það svo að dreifingardagar Íslandspósts í mörgum hverfum þéttbýlisins eru sambærilegir og nú er raunin í dreifbýli. En íbúar þar verða mun minna varir við það sökum daglegrar dreifingar á dagblöðum og annarrar dreifingar. Til viðbótar er yfirleitt ekki langt á pósthús í þéttbýli, sé von á sendingu.

Sú þjónustuskerðing sem orðin er í dreifbýli er ekki ásættanleg. Leita verður leiða til að bregðast við.

Innanríkisráðuneytið hefur lagt fram til kynningar drög að nýrri heildarlöggjöf um póstþjónustu. Þar er horft til þess valkosts að virkja krafta samkeppni en tryggja jafnframt lágmarksþjónustu. Póstdreifing á samleið með öðrum rekstri. Yfirvöld póstmála eiga að móta sem fyrst útboðsleið vegna póstdreifingar, þá sérstaklega gagnvart svæðum þar sem Íslandspóstur hefur dregið úr þjónustu sinni og fullyrt er að ríkið þurfi að styrkja eftir að einkaréttur á póstþjónustu verður afnuminn. Það er allt eins líklegt að póstþjónusta geti aukið hagkvæmni margs konar rekstrar sem í dag er jafnvel á vegum sveitarfélaga eða annarra aðila sem þjónusta dreifðar byggðir. Mörg fyrirtæki eru nú þegar í vöruflutningum og -dreifingu um landið. Á þessi rekstur ekki samleið með þeim? Markmiðið verði að fjölga aftur dreifingardögum. Slíkt þarf að útfæra fyrir einstök svæði þar sem aðstæður eru mismunandi. Horft verði til þess að Íslandspóstur sinni áfram daglegri flokkun og flutningum á milli landshluta þar sem nýir aðilar kunna að taka að sér póstdreifingu.

Póstdreifing er á tímamótum. Mikilvægt er að bregðast við og gera úrbætur sem eru í takt við breytta tíma og þarfir okkar sem búum í dreifðum byggðum landsins. Hægt er að bregðast við þeirri afturför sem nú er orðin raunin. Tækifærin til að gera betur eru til staðar og aðkallandi að virkja þau.

Höfundur er alþingismaður NV-kjördæmis og skipar 1. sæti lista Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Harald Benediktsson