Kolbrún Ingjaldsdóttir fæddist í Eskifirði 31. ágúst 1938. Hún lést á Landspítala Fossvogi 9. október 2016.
Foreldrar hennar voru Ingjaldur Pétursson vélstjóri, f. 2. nóvember 1901, d. 20. júní 1961, og Brynhildur Björnsdóttir saumakona, f. 22. júlí 1911, d. 13. mars 2002. Systkini Kolbrúnar eru Garðar Pétur Ingjaldsson, f. 23. maí 1931, d. 18. ágúst 2006, Pálrún Ingjaldsdóttir, f. 23. maí 1947, og Brynhildur Bára Ingjaldsdóttir, f. 29. mars 1951.
Hinn 8. maí 1957 giftist Kolbrún Kára Snorrasyni útgerðarstjóra, f. 14. september 1935. Foreldrar hans voru Snorri Arnfinnsson hótelstjóri, f. 19. júlí 1900, d. 28. júní 1970, og Þóra Sigurgeirsdóttir húsfreyja, f. 12. september 1913, d. 9. maí 1999. Börn Kolbrúnar og Kára eru 1) Snorri Kárason, f. 4. janúar 1957, kvæntur Magdalene Kárason, f. 30. apríl 1964, börn hans eru a) Kolbrún Dóra Snorradóttir, f. 5. febrúar 1976, b) Rogvi Snorrason, f. 1. maí 1979, c) David Snorrason, f. 7. janúar 2001, sonur Snorra og Magdalene. 2) Brynhildur Káradóttir, f. 1. september 1958, börn hennar eru a) Kári Hallsson, f. 4. maí 1975, d. 1. mars 2011. b) Guðmundur Brynjar Guðmundsson, f. 23. september 1981. c) Fannar Ingi Guðmundsson, f. 27. ágúst 1984. d) Berglind Rós Guðmundsdóttir, f. 15. febrúar 1991. 3) Helga Káradóttir, f. 17. október 1959, börn hennar eru a) Linda Ólafsdóttir, f. 25. október 1978. b) Bjarki Ólafsson, f. 5. janúar 1982, d. 16. júní 1982. e) Kolbrún Eva Ólafsdóttir, f. 24. ágúst 1983. 4) Ingjaldur Kárason, f. 27. október 1961, börn hans eru a) Garðar Pétur Ingjaldsson, f. 10. júní 1982, d. 23. júlí 2009. b) Anton Örn Ingjaldsson, f. 27. ágúst 1995. c) Ásta Lilja Ingjaldsdóttir, f. 8. ágúst 2007. 5) Kári Kárason, f. 26. apríl 1967, kvæntur Evu Hrund Pétursdóttur, f. 13. janúar 1969, börn þeirra eru a) Sandra Dís Káradóttir, f. 23. júní 1988. b) Hilmar Þór Kárason, f. 5. febrúar 1993. c) Ástrós Káradóttir, f. 4. október 1996. d. 4. október 1996. d) Pétur Arnar Kárason. f. 1. júlí 1999. e) Karen Sól Káradóttir. f. 1. júlí 1999. Langömmubörnin eru 19 talsins.
Kolbrún bjó fyrstu fimm ár sín á Eskifirði, fluttist þaðan til Akureyrar með foreldrum sínum. Gekk þar í Barnaskóla Akureyrar og í Gagnfræðaskóla Akureyrar. Árið 1955 fór hún að vinna um sumarið í Krossfjarðarnesi á símstöð. Haustið 1955 fór hún til Blönduóss að vinna á Hótel Blönduósi. Þar kynntist hún eftirlifandi manni sínum, hófu þau búskap haustið 1956 á Blönduósi, voru með hænsnabú. Árið 1959 hófu þau rekstur eigin fyrirtækis, sem var fatahreinsun og þvottahús, Efnalaugarinnar Blöndu sem þau ráku í 25 ár. Árið 1969 stofnuðu þau fyrirtækið Hafrúnu sem sérhæfði sig í vinnslu á hörpudiski. Árið 1974 stofnuðu þau ásamt öðrum útgerðarfélagið Særúnu, sem sá um rækjuvinnslu og útgerð. Árið 1986 stofnuðu þau ásamt öðrum Útgerðarfélagið Nökkva, sem festi kaup á togara og var hann í rekstri til ársins 2002. Kolbrún vann við fyrirtækin ásamt heimilisstörfum.
Útförin fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 24. október 2016, og hefst athöfnin klukkan 11.
Elsku yndislega mamma og vinkona, það er þyngra en tárum taki að skrifa mína hinstu kveðju til þín, elsku mamma. Það er erfitt og sárt að hugsa til þess að ég eigi ekki eftir að geta hitt þig, faðmað eða tala við þig aftur. Það eru margar minningar sem sækja að mér og yndislegar stundir sem við áttum saman. Við gátum talað um allt og ekkert, ég gat alltaf leitað til þín þegar mér leið illa og vel, þú tókst mér alltaf opnum örmum. Þú varst ekki bara mamma mín heldur líka mín besta vinkona. Þegar ég átti mitt fyrsta barn varst þú aðeins 36 ára orðin amma, þér þótti svo vænt um það, og öll þín ömmubörn, þeim þótti öllum svo gaman að koma til þín. Þú varst alltaf svo mikil húsmóðir og barst alltaf fram kræsingar handa okkur öllum. Svo var það myndavélin ekki mátti gleyma henni, þú varst svo dugleg að mynda ömmubörnin þín, þú unnir börnum og ömmubörnunum þínum mikið. Síðasta ferð okkar utan var til Parísar, ég man hvað það var mikil tilhlökkum. Þetta var svona stelpuferð og yndisleg ferð, þú og pabbi ferðuðust um allan heim. Það var svo gaman að heyra ferðasögurnar, þú hafðir svo gaman af að ferðast. Öll sumur eftir að þið pabbi fluttuð suður eydduð þið sumrinu í sumarbústaðnum ykkar í Vatnsdal A-Hún. þar sem þið eruð búin að gera að paradís. Þar er svo yndislegt að vera svo mikið af blómum og trjám sem þið eru búin að setja niður, þér leið alltaf svo vel þar og hlakkaðir alltaf til næsta vors og fara norður í bústað. Þú varst alltaf svo mikið jólabarn, jólin voru alltaf svo yndislegur tími hjá þér, mikið af ljósum og kertum og ég tala ekki um fjölskylduboðin, þá varst þú í essinu þínu, þú varst alltaf boðin og búin fyrir okkur og vildir allt fyrir okkur gera. Þú varst svo yndisleg mamma og amma, þín verður sárt saknað.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(Vald. Briem)
Þin dóttir,
Brynhildur (Binna).
Mamma
Þú ert gull og gersemi, góða besta mamma mín.
Dyggðir þínar dásami, eilíflega dóttir þín.
Vandvirkni og vinnusemi væntumþykja úr augum skín.
Hugrekki og hugulsemi og huggun þeg ar hún er brýn.
Þrautseigja og þolinmæði – kostir sem að prýða þig.
Bjölluhlátur, birtuljómi, barlóm, lætur eiga sig.
Trygglynd, trú, já algjört æði.
Takk fyrir að eiga mig.
(Anna Þóra)
Þó sólin nú skíni á grænni grundu
er hjarta mitt þungt sem blý,
því burt varst þú kallaður á örskammri stundu
í huganum hrannast upp sorgarský.
Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða
svo fallegur, einlægur og hlýr
en örlög þín ráðin – mig setur hljóða
við hittumst ei aftur á ný.
Megi algóður Guð þína sálu nú geyma
gæta að sorgmæddum, græða djúp sár
þó kominn sért yfir í aðra heima
mun minning þín lifa um ókomin ár.
(Höf. ók.)
Þín dóttir,
Helga.
Að kveðja móður sína er alltaf sárt. Það sár sem myndast er stórt og djúpt en tíminn mun lækna sár segir máltækið, en eftir mun standa ör sem ávallt mun vekja hugann til ferðalaga minninga, minninga sem með tímans rás munu vekja upp gleði, framkalla bros og endalausa væntumþykju.
Mig langar að ljúka þessu með dæmisögu sem ég las þegar ég sat yfir móður minni á hennar síðasta degi, en þar segir:
„Við skulum ímynda okkur að við stöndum í flæðarmálinu um sumarkvöld og horfum á fallegt fley sem býr sig undir að sigla úr vör. Seglin eru dregin upp. Seglin þenjast í kvöldgolunni og fleyið lætur úr höfn út á opið hafið. Við fylgjum því eftir með augunum þar sem það siglir inn í sólarlagið. Það verður æ minna og að lokum hverfur það eins og lítill depill við sjóndeildarhringinn. Þá heyrum við sagt við hlið okkar; nú er það farið.
Farið og hvað tekur við? Það að það minnki og hverfi að lokum er í rauninni bara það sem augu okkar sjá. Í raun og veru er það jafn stórt og fallegt og þegar það lá við ströndina. Á sama augnabliki og við heyrum að það sé farið er ef til vill einhver á annarri strönd sem horfir á það birtast við sjóndeildarhringinn, einhver sem bíður eftir að fá að taka á móti einmitt þessu fleyi þegar það nær nýrri höfn.“
Komdu til mín í draumi, elsku mamma mín, svo ég geti faðmað þig einu sinni enn og kvatt þig, elsku mamma.
Kári Kárason.
Hér að hinstu leiðarlokum
ljúf og fögur minning skín.
Elskulega amma góða
um hin mörgu gæði þín.
Allt frá fyrstu æskudögum
áttum skjól í faðmi þér.
Hjörtun ungu ástúð vafðir
okkur gjöf sú dýrmæt er.
Athvarf hlýtt við áttum hjá þér
ástrík skildir bros og tár.
Í samleik björt, sem sólskinsdagur
samfylgd þín um horfin ár.
Fyrir allt sem okkur varstu
ástarþakkir færum þér.
Gæði og tryggð er gafstu
í verki góðri konu vitni ber.
Aðalsmerkið: elska og fórna
yfir þínum sporum skín.
Hlý og björt í hugum okkar
hjartkær lifir minning þín.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Þín
Berglind Rós.
Karen Sól Káradóttir.
Það er svo sárt að missa þig og ég sakna þín svo mikið, en þegar ég hugsa um allar fallegu og góðu minningarnar um þig fyllist hjartað mitt af stolti og ást.
Amma, þú varst einstök kona eins og allir vita sem voru svo lánsamir að kynnast þér, þú varst glæsileg og með mikla reisn og þokka, ég mun sakna góðra stunda með þér, spjallsins sem við áttum svo oft og hlýrra faðmlaga.
Ég kveð þig, elsku amma mín, í hinsta sinn, minningar um þig verða ávallt ljóslifandi í huga mínum, ég mun sakna þín svo sárt en veit að þú hvílir nú í örmum Guðs.
Erfitt er amma mín án þín að vera,
ég sakna þín svo mikið,
að í sorginni veit ei hvað ég á af mér að gera,
kærleikur til þín streymir úr mínu klökka hjarta,
sem kveður með trega og tárum,
en von um framtíð bjarta,
þú aldrei munt hverfa úr huga mínum,
hallaðu þér nú aftur,
við minningunum aldrei týnum,
sofðu sætt og rótt, elsku besta amma
Ég elska þig svo mikið.
Linda Ólafsdóttir.
Þegar ég kom til þín og afa og spilaði á gítarinn fyrir ykkur voruð þið alltaf jafnglöð að heyra mig spila, líka þegar þú heyrðir að ég var byrjaður að æfa dans brostirðu út að eyrum og varst mjög ánægð fyrir mína hönd að ég hafi byrjað að æfa dans.
Það verður frekar tómlegt að fara út í Vatnsdal og þar er engin amma. Ég fer bara þangað með afa og við gróðursetjum tré saman og gerum garðinn flottan. En ég mun lofa því, amma, að ég mun hugsa mjög vel um afa og vera duglegur að hringja í hann svo honum á ekki eftir að leiðast.
Ég á eftir að sakna þín mikið, ég á eftir að sakna þess að koma til Reykjavíkur og kíkja til ömmu og afa. Það vaka alltaf englar yfir okkur og núna eru þeir einum fleiri.
Pétur Arnar Kárason.
Ég trúi því ekki að Kolla amma mín sé farin, hún bættist í hóp engla sem vaka yfir mér og mínum. Eftir sitjum við með brostin hjörtu sem lagast seint. Kolla amma, eða amma skvísa eins og hún var svo oft kölluð, var yndisleg í alla staði. Hún var með betri konum sem ég hef haft þá ánægju að kynnast. Þótt ég vildi óska þess að við hefðum haft lengri tíma verð ég ævinlega þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk með henni yndislegu Kollu ömmu minni. Það er sagt að tíminn lækni öll sár en eins og mér líður núna finnst mér það vera óraunverulegt. Á svona erfiðum tímum er gott að hafa góðar minningar og ég er mjög þakklát fyrir mínar.
Þar sem jólin nálgast leitar hugurinn til þess tíma sem við hittumst hjá ömmu og afa og skárum út laufabrauð, vorum við barnabörnin alltaf að keppast um að gera sem flottasta og flóknasta útskurðinn, stundum svo flókið að ómögulegt var að fletta munstrinu upp. Á aðfangadagskvöldum var hefð að allir hittust hjá ömmu og afa í eftirrétt og spjall, þetta var yndislegur tími sem ég mun ekki gleyma.
Fyrir þremur árum fórum við saman nokkrar skvísur í stelpuferð til Parísar. Það sem við skemmtum okkur vel, við skoðuðum Louvre, sigldum niður Signu og fórum aðsjálfsögðu að Eiffel-turninum. París verður alltaf með sinn sess í hjarta mínu og hjá okkur öllum.
Síðustu dagarnir í lífi Kollu ömmu voru erfiðir fyrir okkur aðstandendurna. Að vera svona hjálparvana, geta ekkert gert nema bíða og vona. Alltaf var hún elsku amma samt hress og glöð þegar við vorum hjá henni. Í gríni nefndi ég við hana í eitt skipti að hún fengi ekki frið fyrir gestagangi, hún svaraði á móti að henni fyndist svo gaman að fá gesti og ég ætti að vita það. Amma talaði mikið við mig um fallegu börnin mín. Við töluðum saman um lífið og tilveruna, okkur systkinabörnin og langömmubörnin. Þeir sem þekktu ömmu vita að hún elskaði öll börnin sín. Hún var sterk kona og vildi ekki að fólk hefði áhyggjur af sér. Þegar ég spurði hana hvernig hún hefði það var svarið fínt eða ágætt. Þegar ég sat hjá henni elsku ömmu minni, milli þess að við spjölluðum, þá svaf hún, ég hélt í hönd hennar og strauk henni. Húðin hennar var svo mjúk og ilmaði svo vel, hún leit svo vel út og var guðdómlega falleg kona. Ég brosti við tilhugsunina að þessi unglega stórglæsilega kona væri amma mín og langamma barnanna minna.
Ég veit að Kollu ömmu minn líður vel þar sem hún er og fylgist með öllum börnunum sínum. Ég mun alla tíð sakna hennar og þakka fyrir að ég fékk hana sem ömmu.
Í einni heimsókn spurði ég ömmu hvort hún vissi að það væri til ljóð um okkur. Ég las fyrir hana ljóð sem heitir Kolbrún mín einasta:
Kolbrún mín einasta, ástfólgna Hlín
mín aleigan dýrmætust löngu
svo ertu þá komin aftur til mín
um óraveguna ströngu.
Nú ætlarðu´ að verða þá alltaf hjá mér
svo eldregi þurfum að skilja
og lofa mér una og unna þér
uns algleymis skuggarnir hylja!
(Hannes Hafstein) Ég elska þig, elsku yndislega Kolla amma mín.
Kolbrún Ólafs.
Árið 1956 kom þangað einstaklega falleg ung stúlka, gagnfræðingur frá Akureyri. Há og grönn, svarthærð, glaðlynd, vel klædd og flott, hún hét Kolbrún Ingjaldsdóttir.
Starf hennar var í salnum, þar sem hún skartaði svörtum kjól með hvíta svuntu.
Þau ákváðu að verða hjón, Kári Snorrason, sonur hótelstjórans, og Kolla, þessi flotta kona vildi verða Blönduósingur, síðan eru liðin 60 ár.
Þau byggðu sér hús að Húnabraut 11 sem varð heimili þeirra og barnanna sem urðu fimm á 10 árum.
Í sama húsi ráku þau fyrirtæki sitt, Efnalaugina Blöndu, sem var fatahreinsun og þvottahús sem stækkaði og þjónaði bæði fyrirtækjum og einstaklingum. Þarna vann Kolla fulla vinnu, ásamt því að hugsa um heimilið.
Seinna stofnuðu þau hjón stórfyrirtæki í útgerð og fiskvinnslu og létu smíða skip á Akureyri.
Það er ljúft að minnast Kollu, þar sem hún stendur með kampavínsflöskuna og gefur skipinu nafn í Slippnum á Akureyri. Þarna stóð hún við hlið Kára síns, stolt og ánægð með lífið. Hún studdi mann sinn ævinlega í öllum hans verkum.
Árin líða, börnin eru vaxin úr grasi og þau orðin tvö í heimili, starfsþrekið ekki eins og áður, þau taka sig upp og flytja til Reykjavíkur, eignast þar fallegt heimili og hugsa vel hvort um annað.
Þau dvelja í sumarhúsi sínu í Vatnsdalnum á sumrin, rækta og hlúaað gróðrinum.
Ég þakka skaparanum fyrir nýliðið dásamlegt sumar í dalnum okkar, þar sem þau nutu daganna alveg fram í septembermánuð.
Nú þegar komið er að skilnaðarstundu bið ég góðan Guð að leiða Kolbrúnu til æðri heima.
Sorgin og missirinn er mestur hjá eiginmanni og börnum, einnig systrum Kolbrúnar.
Ég og fjölskylda mín biðjum ykkur öllum blessunar Guðs.
Kristín Ágústsdóttir.