Áræðinn Alexander Júlíusson, leikmaður Vals, sækir að marki Akureyrar í leik liðanna á laugardaginn.
Áræðinn Alexander Júlíusson, leikmaður Vals, sækir að marki Akureyrar í leik liðanna á laugardaginn. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Hlíðarenda Hjörvar Ólafsson hjorvaro@mbl.is Valur hélt áfram sigurgöngu sinni í Olísdeild karla í handbolta þegar liðið lagði lánlaust lið Akureyrar, 24:22, í áttundu umferð deildarinnar í Valshöllinni á laugardag.

Á Hlíðarenda

Hjörvar Ólafsson

hjorvaro@mbl.is

Valur hélt áfram sigurgöngu sinni í Olísdeild karla í handbolta þegar liðið lagði lánlaust lið Akureyrar, 24:22, í áttundu umferð deildarinnar í Valshöllinni á laugardag.

Valur hóf leikinn af miklum krafti og komst fimm mörkum yfir í upphafi leiksins, en leikmenn Akureyrar náðu að þétta vörn sína um miðbik fyrri hálfleiks og þar bak við varði Tomas Olason, markvörður liðsins, vel. Staðan var jöfn í hálfleik og liðin skiptust á að hafa forystuna í seinni hálfleik. Leikmenn Akureyrar fóru illa að ráði sínu í sóknaraðgerðum sínum á lokakafla leiksins og tvö mörk Sveins Arons Sveinssonar úr hraðaupphlaupum sigldu sigrinum í land fyrir Val.

Samvinna Antons Rúnarssonar og Orra Freys Gíslasonar var einkar skemmtileg í þessum leik. Anton fann Orra Frey hvað eftir annað með glæsilegum línusendingum sínum, en þrjú af fjórum mörkum Orra Freys í leiknum komu eftir línusendingar Antons. Þá fiskaði Orri Freyr einnig nokkur víti eftir línusendingar frá Antoni og Anton sá svo um að skila vítaköstunum í netið.

Valur hefur nú borið sigur úr býtum í fimm leikjum í röð í deildinni eftir slæma byrjun í deildinni þar sem liðið laut í lægra haldi í fyrstu þremur leikjum sínum.

Valur á heima í toppbaráttunni

„Við vorum ekki búnir að slípa liðið nógu vel saman í upphafi leiktíðarinnar. Liðið er hins vegar að smella saman núna og við erum á miklu skriði,“ sagði Anton í samtali við Morgunblaðið.

„Okkur finnst við klárlega eiga heima í þessari toppbaráttu og við ætlum að sýna það gegn Aftureldingu í næstu umferð,“ sagði hann enn fremur.

Akureyri er á botni deildarinnar með tvö stig, en liðinu hefur gengið illa að hafa betur í jöfnum leikjum sínum. Akureyri hefur beðið ósigur í þremur leikjum með einu marki og í þessum leik var liðið yfir um miðbik seinni hálfleiks, en Valsmenn reyndust sterkari á lokakafla leiksins.

„Ég er mjög ánægður með spilamennsku strákanna í þessum leik eins og heilt yfir í vetur. Þetta hefur verið saga liðsins í vetur, það er að það vanti herslumuninn og við töpum leikjunum með litlum mun. Við höfum leikið vel í vetur og einungis lent á vegg í einum leik. Hlutirnir hljóta að fara að falla með okkur og við hljótum að fara að fá heppnina á okkar band,“ sagði Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar, í samtali við Morgunblaðið eftir leikinn.

Valur komst upp í annað sæti deildarinnar með þessum sigri, en deildin er afar jöfn þessa stundina. Einungis munar fjórum stigum á Val og Haukum, sem eru óvænt í næstneðsta sæti deildarinnar. Valur mætir toppliði deildarinnar, Aftureldingu, í næstu umferð. Fjórum stigum munar á liðunum fyrir þann leik og getur Valur hleypt miklu lífi í toppbaráttu deildarinnar með sigri í þeim leik.