Spenna Kolka, Röskva, Katla og Gauti fylgjast vel með útskýringum Karenar á verkefninu og missa ekki af neinu, því næst eru það skrímslin.
Spenna Kolka, Röskva, Katla og Gauti fylgjast vel með útskýringum Karenar á verkefninu og missa ekki af neinu, því næst eru það skrímslin. — Morgunblaðið/Eggert
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Í vetrarfríi grunnskólanna undanfarna daga hafa nokkur börn ekki setið auðum höndum heldur verið á námskeiði í skrímslabúningagerð hjá Skrímslaverksmiðjunni og verður afraksturinn til sýnis í vinnustofunni á Kex hosteli við Skúlagötu frá klukkan 12.30 til 13 í dag.

Skrímslaverksmiðjan er listasmiðja fyrir börn. Karen Briem búningahönnuður og Helga Ósk Hlynsdóttir hönnuður eru leiðbeinendur á námskeiðinu, sem lýkur með sýningunni. Karen segir að svona vinna sé sérlega gefandi, en þær stöllur buðu upp á þrjú vikunámskeið á þessu sviði á liðnu sumri.

Skemmtilega hömlulaus

„Sem búningahönnuður hugsa ég mikið um gervi, hvað gervi gera fyrir leikara og fólk almennt, og hef komist að því hvað það er gott, skemmtilegt og heilbrigt að bregða sér stundum í annað gervi, hvað þá skrímslagervi sem maður skapar sjálfur úr eigin hugarheimi og býr til söguna í kringum það,“ segir Karen. „Ég byrjaði á þessu á Lunga, listahátíð unga fólksins á Seyðisfirði, fyrir nokkrum árum og datt þá í hug að gaman væri að yfirfæra þetta á yngri krakka.“

Karen segir að börn séu skemmtilega hömlulaus og þess vegna sé svo gaman að vinna með þeim. „Þau ritskoða sig ekki, sem við fullorðna fólkið gerum of mikið af. Enn fremur upplifa þau svo mikla tvívídd í tölvuheiminum að það er gaman að sýna þeim hvað það getur verið auðvelt og gaman að vinna í þrívídd. Tækifærin eru ótrúlega mörg og börnin eru móttækileg fyrir öllu auk þess sem þeim finnst gaman að sulla, fá skítugar hendur og leyfa ímyndunaraflinu að njóta sín.“

Viðbrögðin hafa verið mjög góð, að sögn Karenar. „Við fengum mjög góðar viðtökur hjá börnunum og forráðamönnunum í sumar og þess vegna ákváðum við að bjóða aftur upp á þetta námskeið,“ segir hún. „Ótrúlega margir vilja búa til skrímsli úr eigin hugarheimi og við höfum heyrt frá foreldrum að þeir vilji námskeið fyrir fullorðna.“

Skrímslin eru eins ólík og þau eru mörg. Krakkarnir búa líka til sögur um skrímslin, útbúa plánetu þar sem þau búa, þar eru gangstéttir úr hoppukastölum, þar rignir nammi, einhyrningar prumpa regnbogum og svo framvegis.

„Börnin koma með tillögur um hvernig hlutirnir eigi að vera, kosið er um tillögurnar og svo er hafist handa. Það ríkir algjört lýðræði í skrímslaverksmiðjunni og allir leggja sitt af mörkum,“ segir Karen.