Jóhann Berg Guðmundsson átti drjúgan þátt í 2:1 sigri Burnley gegn Everton. Jóhann Berg lagði boltann laglega með hælnum í hlaupaleiðina fyrir Scott Arfield í aðdraganda fyrra marks Burnley í leiknum.

Jóhann Berg Guðmundsson átti drjúgan þátt í 2:1 sigri Burnley gegn Everton. Jóhann Berg lagði boltann laglega með hælnum í hlaupaleiðina fyrir Scott Arfield í aðdraganda fyrra marks Burnley í leiknum. Arfield átti síðan skot að marki Everton sem Maarten Stekelenburg, markvörður Everton, varði en Sam Vokes fylgdi á eftir og skoraði.

Jóhann Berg átti síðan bylmingsskot í þverslána á marki Everton á lokaandartökum leiksins og Scott Arfield fylgdi skoti Jóhanns Bergs eftir og skoraði sigurmark Burnley.

Gylfi Þór Sigurðsson komst næst því að tryggja Swansea City fyrsta sigurinn undir stjórn bandaríska knattspyrnustjórans Bob Bradley, sem stýrði liðinu í sínum öðrum leik þegar það gerði markalaust jafntefli við Watford.

Gylfi Þór átti gott skot úr aukaspyrnu um miðbik seinni hálfleiks sem Heurelho Gomes, markvörður Watford og fyrrverandi liðsfélagði Gylfa Þórs hjá Tottenham Hotspur, varði vel. Þá skaut Gylfi Þór boltanum í stöngina á marki Watford undir lok leiksins.