Eggert Jónsson fæddist í Reykjavík 25. ágúst 1941. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi eftir skamma legu 11. október 2016.

Foreldrar hans voru Lea Eggertsdóttir, f. 10.5. 1910 að Kleifum í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp, d. 26.11. 1994, og Jón Gíslason dr. phil, skólastjóri Verzlunarskólans, f. 23.2. 1909 í Dalbæ í Gaulverjabæjarhreppi, d. 16.1. 1980. Bróðir Eggerts er Gísli, viðskiptafræðingur, f. 9.8. 1949. Fyrri eiginkona Eggerts var Katrín Sigríður Árnadóttir fiðluleikari, f. 30.5. 1942, þeirra sonur er Árni Jón, hagfræðingur, f. 11.5. 1970. Þau skildu.

Árið 1974 kvæntist Eggert Sigurlaugu Aðalsteinsdóttur kennslumeinatækni, f. 28.12. 1944. Foreldrar Sigurlaugar: Hulda Óskarsdóttir húsmóðir, f. 1919, og Aðalsteinn Jóhannsson, tæknifræðingur og kaupmaður, f. 1913, d. 1998. Sigurlaug lést 21.10. 2000.

Börn Eggerts og Sigurlaugar eru:

1) Tómas Guðni, tónlistarmaður, f. 27.9. 1974. Unnusta hans er Sigurbjörg Þrastardóttir rithöfundur. Sonur Tómasar Guðna og Ingibjargar Karlsdóttur er Eggert Georg, nemi, f. 14.3. 1996. Sonur Tómasar Guðna og Sifjar Margrétar Tulinius er Hrafn Abraham, f. 15.7. 2003.

2) Eiríkur Áki, lögfræðingur, f. 14.4. 1977. Unnusta hans er Sonja Rut Jónsdóttir tannlæknir. Sonur þeirra er Róbert Leó, f. 14.3. 2013.

Eggert lauk stúdentsprófi frá MR 1961 og B.Sc.-prófi í þjóðhagfræði frá Queen's University í Belfast 1965. Hann var háseti á hvalbátum sumrin 1959-1966 og þátttakandi í hvalleitarleiðöngrum 1989 og 2001. Fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu 1966-1972. Framkvæmdastjóri Fiskimálaráðs 1969-1978. Borgarhagfræðingur Reykjavíkurborgar 1972-1999 og gegndi með því starfsheiti starfi framkvæmdastjóra fjármála- og hagsýsludeildar 1982-1995. Framkvæmdastjóri atvinnumálanefndar Reykjavíkurborgar 1979-1994, yfirumsjón með rekstri bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar 1993-1999. Frá 1999 vann hann ýmis ráðgjafastörf, einkum á sviði sveitarstjórnarmála, m.a. fyrir Reykjavíkurborg, félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Enn fremur var Eggert prófdómari í fiskihagfræði við Tækniskóla Íslands 1977-1985, í nefnd um heildarstjórnun sjávarútvegsmála 1970-1971 og í nefnd um tillögur að skipan og stjórnun fiskveiða á Íslandsmiðum 1975-1976. Í sparnaðarnefnd Reykjavíkurborgar 1981-1993. Í ýmsum starfshópum um tekjuöflun sveitarfélaga og fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Hann hafði yfirumsjón með árlegri útgáfu Árbókar Reykjavíkur 1973-1998, ritaði greinargerðir og tímaritsgreinar um sjávarútvegsmál, atvinnumál og fjármál sveitarfélaga og sinnti þáttagerð um margvísleg efni í Ríkisútvarpinu.

Útför Eggerts verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 24. október 2016, klukkan 13.

Nú er komið að leiðarlokum, frændi minn og góður vinur hefur kvatt þessa jarðvist. Margs er að minnast þegar litið er til baka þau ár síðan kynni okkar hófust, vissum hvor af öðrum en engin tenging nema að við erum bræðrasynir. Einn daginn birtist á hlaðinu á Stöðulfelli fallegur amerískur bíll, úr honum kom Jón Gíslason, bróðir föður míns, sem ekki var nýlunda að þeir bræður hittust, en einnig var með í för sonur hans Eggert og eiginkona hans, Sigurlaug Aðalsteinsdóttir, ásamt tveimur ungum sonum þeirra, Tómasi Guðna og Eiríki Áka.

Ekki hafði ég hitt Eggert fyrr, en um leið og við tókum tal saman fannst mér ég alltaf hafa þekkt hann, svo hrífandi var þessi persónuleiki og ekki dró úr persónutöfrum Sigurlaugar. En upp frá þessari heimsókn varð vinátta okkar náin, við ræddumst oft við í síma og eins urðu heimsóknir okkar tíðar.

Mikið var rætt þegar við hittumst eða heyrðumst, vorum ekki alltaf sammála, síst þegar stjórnmál bar á góma en aldrei bar skugga á milli okkar og gagnkvæm virðing ríkti okkar á milli. Það var gott að leita ráða hjá Eggert enda maður með mikla reynslu og fluggáfaður og nýtti ég mér það þegar ég vissi að hann gat lagt mér til góð ráð. Hann fræddist mikið um hagi frændfólks síns í Sandlækjarkoti og Skálholti og var stoltur af því að vera skyldur þessu dugnaðarfólki og var hann áhugasamur um búskapinn hjá bændunum í sveitinni. Sagði mér margar sögur af því þegar hann var í Skálholti við kirkjusmíðina þar og þessi tími virtist hafa verið eftirminnilegur og skemmtilegur. Einnig var hann stoltur af uppruna sínum úr Ísafjarðardjúpi og þeim tíma sem hann dvaldi þar á sumrin og kynntist sínu móðurfólki og var stoltur af, fór vestur flest sumur og hélt uppi frændsemi við fólkið sitt. Móðir hans átti sumarbústað í Djúpinu, þar undi Eggert hag sínum vel og borgarbarnið varð náttúrubarn og tíminn varð aukaatriði, þessar stundir voru honum mikil lífsfylling.

Eftir að hann fór að heimsækja okkur í sveitina vaknaði áhugi hans á að fá sér hesta, fljótlega eignaðist hann rauðan fallegan hest, hann Val, sem var honum mikill gleðigjafi enda úrvals gæðingur, og ekki löngu síðar frétti hann að til væri hestur undan Val og eignaðist hann líka, það var Stjarni og ekki var það síðri hestur og veitti eiganda sínum margar gleðistundir og var Eggert kóngur um stund þegar hann var kominn á bak þessum gæðingum og lagði af stað í óvissu kvöldblíðunnar. Ég fékk þessara hesta notið á sumrin og fór ég nokkrar ferðir á fjall á þessum hestum enda afbragð annarra hesta. Nú er komið að leiðarlokum, allt tekur enda, svo er með lífið sjálft.

Við hjónin á Stöðulfelli sendum sonum, tengdadætrum, barnabörnum og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúðarkveðjur með þökk fyrir allt og allt.

Oddur og Hrafnhildur,

Stöðulfelli.

Eggert frændi er látinn. Hann var sonur Leu Eggertsdóttur, systur Áka afa. Lea átti sumarbústað inni í Seyðisfirði, en foreldrar Leu voru með búskap að Kleyfum í Seyðisfirði í nokkur ár. Næsti fjörður við Seyðisfjörð er Álftafjörður og þar liggur þorpið Súðavík, þar sem bróðir hennar, Áki, bjó. Í sumarbústaðinn kom hún á hverju sumri og afi og stórfjölskyldan hans í Súðavík voru henni ávallt stoð meðan á dvöl hennar stóð. Eggert og bróðir hans Gísli Jón komu stundum með henni. Mikill og góður vinskapur varð milli Eggerts og stórfjölskyldunnar hans afa. Þegar börn afa og Leu frænku fullorðnuðust hélt Eggert uppteknum hætti og var duglegur við að koma með sína fjölskyldu í heimsókn til skyldmenna sinna í Súðavík. Hann og faðir minn Börkur Ákason urðu miklir vinir og þeir voru í miklu og góðu sambandi. Meðan faðir minn var með fyrirtækjarekstur sinn í Súðavík gáfust ekki mörg tækifæri hjá honum til tómstundaiðkunar eða að rækta vini sína. Eggert var duglegur að draga hann úr annríkinu og taka með sér í laxveiði. Hann leyfði honum ekkert að komast upp með að afþakka góð boð um veiði í góðum laxám. Það þurfti ekki margar laxveiðiferðir þar til pabbi tók bakteríuna og fór ótilneyddur í veiði, með eða án Eggerts. Vinskapurinn óx og dafnaði þegar stórfjölskyldan flutti svo öll á Reykjavíkursvæðið árið 1986. Ekki síst fyrir tilstilli Sigurlaugar konu hans sem var mjög dugleg að rækta ættingja og vini með heimsóknum og skemmtilegum boðum.

Eggert tók hlutverk sitt sem frænda alvarlega, vildi öllum vel og reyndi alltaf að verða að liði ef til hans var leitað. Við krakkarnir fundum það glöggt að honum var ekki sama um okkur. Hann fylgdist með hvernig okkur gekk að fóta okkur í tilverunni. Við skynjuðum væntumþykju hans ekki síst í mörgu því smáa. Hann gerði meðal annars velheppnaðar tilraunir til að taka við af pabba sem uppalanda þegar ég þurfti að flytja úr foreldrahúsum í Súðavík aðeins 13 ára gömul til að sækja skóla í Reykjavík. Eitt skiptið kom hann því vinsamlega á framfæri við mig að í Reykjavík bendir maður ekki á fólk þegar talað er um það. Í annað skiptið hvatti hann mig til að vera vandfýsnari við val á sjampói, hárið þyrfti að vera hreinna. Þá var hann duglegur við að hjálpa til ef eitthvað vantaði upp á lærdóminn og benda á og gefa bækur sem mættu verða til þess að auka víðsýni þeirra sem lásu þær. Honum óx ásmegin við hvað vel gekk með mig því að þegar yngsta dóttir foreldra minna, hún Dóra Jóna, vildi verða leikskólakennari buðu hann og Sigurlaug henni að dvelja hjá þeim meðan hún væri við nám.

Okkur öllum afkomendum Áka afa þótti mjög vænt um Eggert frænda. Það var alltaf gaman að hitta hann enda var hann einstaklega greindur, vel lesinn og skemmtilegur. Við munum ávallt minnast hans með hlýju. Gísla Jóni og öllum þremur sonum Eggerts og barnabörnum sendum við okkar hugheilustu samúðarkveðjur og megi góður Guð styrkja þau öll í sorg þeirra.

F.h. fjölskyldunnar úr Súðavík,

Rósa Björk Barkardóttir.

Við Eggert kynntumst fyrst í Miðbæjarskólanum í Reykjavík, þegar við vorum báðir sjö ára gamlir og innrituðumst í E-bekkinn. Þetta voru mikil kaflaskil, þegar hafið var skólanám og við tók nýr heimur og ekki síst nýr kunningsskapur og vinátta, sem var viðbót við þá æskuvini, sem maður hafði þegar eignast í sínu nærumhverfi. Í E-bekknum eignaðist maður vini, sem sumir áttu eftir að fylgja manni ævilangt og þannig var það með Eggert. Hann kom úr Vesturbænum, en ég úr Skuggahverfinu. Þuríður Jóhannesdóttir var kennari okkar. Hún var ákaflega viðfelldin kona, en sumir okkar voru mjög óþekkir og þurftu að eyða miklum tíma frammi á skólagangi. Það var sérstakur hópur stráka, sem héldu áfram námi í Menntaskólanum í Reykjavík (MR).

Ég var tvö ár í Bandaríkjunum, en hitti mína gömlu félaga í Gagnfræðiskólanum í Vonarstræti og það var sem ekkert hefði gerst. Gerðumst unglingar og ungir menn. Menntaskólanámið var okkur mjög auðvelt, en félagsskapurinn, sem við höfðum hver af öðrum fyllti allt tómarúm í tilveru okkar. Við mynduðum kvartett fjórir saman og komum fram í Sjálfstæðishúsinu. Spiluðum mikið brids og billjard. Sjoppan Skalli í Lækjargötunni var eins konar félagsmiðstöð okkar.

Í háskóla skildi leiðir, Eggert hélt til Belfast að nema hagfræði, en við hinir dreifðumst í ýmsar greinar. Sjálfur lauk ég háskólanámi 1970 og sneri þá heim til Íslands. Eggert var þá hvort tveggja fréttamaður hjá útvarpinu og framkvæmdastjóri hjá Aflatryggingasjóði. Hann var mjög vinsæll útvarpsmaður. Síðar varð hann borgarhagfræðingur hjá Reykjavíkurborg auk annarra starfa.

Við Eggert gerðumst nágrannar í Norðurmýrinni um tíma. Svo bar til að við urðum báðir feður á þeim tíma og vorum talsvert nánir, en Eggert hafði kvænst Sigurbjörgu Aðalsteinsdóttur og urðu bæði Sigurlaug og Helga Ólafsdóttir kona mín barnshafandi á svipuðum tíma og var mikill samgangur á milli heimila okkar. Eggert var mjög farsæll í starfi sínu sem borgarhagfræðingur og mér skilst, að hann hafi fyrstur komið á tölulegum grunni fyrir rekstur Reykjavíkurborgar. Tengsl okkar smáminnkuðu og það var orðið aðeins við hátíðleg tækifæri að við hittumst. Sigurlaug, kona Eggerts, veiktist af krabbameini og annaðist Eggert hana með mikilli alúð allt þar til hún lést.

Ég sendi samúðarkveðjur til sona hans og fjölskyldna þeirra. Fyrir mér er mjög bjart yfir minningum mínum um Eggert Jónsson og vil ég óska honum Guðs blessunar.

Vin sínum

skal maður vinur vera,

þeim og þess vin.

En óvinar síns

skyli engi maður

vinar vinur vera.

(Úr Hávamálum)

Ásgeir Leifsson.

Þau voru góð þessi 20 ár í borgarstjórninni. Dálítið sérstakur heimur. Mikill metnaður fyrir borgina. Töluverð átök á milli meirihluta og minnihluta. Það dró fram hin skörpu skil og auðveldaði borgarbúum val. Eftirminnilegt fólk. Stjórnmálamennirnir allir með tengsl út á við líka. Borgarfólkið varð margt að ævilöngum vinum. Einn úr þessum hópi var Eggert Jónsson. Hann var þó sennilega sá af þessum þúsundum sem átti minnst tengsl við hóp. Einstæður maður og engum líkur. Gat notið sín í hópi og þá hrókur alls fagnaðar. En þó ekki þannig að neinn hópur gæti gengið að honum algjörlega vísum.

Við urðum góðir vinir Eggert og Sigurlaug, Ástríður og Davíð. Áttum fjölmargar eftirminnilegar stundir saman, hér heima mest en einnig utan landsteina. Fórum eitt sinn saman í Dalina í Svíþjóð. Góður vinur, John Olle Persson, yfirborgarstjóri í Stokkhólmi, léði okkur sumarhús sitt í Dölunum í júnímánuði. Dalirnir tóku vel á móti okkur og mýið þar líka. Við undum okkur vel þarna í viku, þrátt fyrir mý, og nutum samverunnar. Eins og gerst hafi í gær. Eggert spilaði Jussi Björling hvenær sem færi gafst og oftar. Enn syngur vornóttin vögguljóð sín, heitir það hjá Tómasi. Þau voru falleg og góð hjón Eggert og Sigurlaug og ekki skrítið þótt honum hafi fundist fátt eftir þegar hún fór allt of fljótt.

Borgarhagfræðingurinn hafði lén í húsi við Vonarstræti með sínum hópi. Þar var safnað gögnum og spáð í tölur. Nýr borgarstjóri vildi fá Eggert í hagnýtari verk, eins og hann kallaði það. Þú vilt fá þá fáu sem hafa tóm til að hugsa og horfa til heildarhagsmuna og leggja hinar stóru línur til að hætta því, voru viðbrögðin sem hann fékk. Þá var ekki búið að fá tepruorðið framtíðarsýn í forðann í stað stefnu. Nú er framtíðarsýn í annarri hverri setningu á eftir umræðustjórnmálum en hvergi bólar á stefnu. Það var sjálfsagt töluvert til í þessu hjá Eggerti. En það munaði samt mikið um hann í beinu fjármálastjórninni í náinni samvinnu við borgarritarann. Hann og hæglætismaðurinn Kristján fjárhagsáætlunarfulltrúi sátu lengi, stundum allan sólarhringinn, yfir áætlunum. Embættismenn voru kallaðir í yfirheyrslur hver af öðrum. Þá var betra að vera sæmilega undirbúinn.

Eggert Jónsson var aldrei sammála síðasta ræðumanni. Það gilti eins um borgarstjórann og aðra. Og eins þótt borgarstjórinn færi nánast orðrétt með texta frá Eggerti. Ég hef á tilfinningunni að þú sért á villigötum, borgarstjóri, sagði Eggert. Hvernig geturðu sagt það? Þetta var allt nánast beint upp úr þér sjálfum. Þarna sérðu. Maður sem étur eitthvað umhugsunarlaust upp úr öðrum er nokkurn veginn örugglega á villigötum, var svar Eggerts. Við annað tækifæri fann borgarstjórinn að svipuðum athugasemdum. Eggert: Jafnfyrirferðarmikill maður og þú ert, borgarstjóri, má alls ekki við því að þeir sem standa honum næstir séu sammála honum. Og þótt þeir séu það stundum er það ígildi skemmdarverks að láta það uppi.

Enn það var á hinn bóginn aldrei alveg öruggt að Eggerti væri alvara. Eggert var glúrinn briddsspilari. En líka óútreiknanlegur þar. Eggert opnaði á einu grandi. Undirritaður makker hans átti líka grandopnun. Það gekk meira á í sögnum en vænta mátti við þessar aðstæður og ýmsir tóku þátt. Makkerinn endaði í sex gröndum. Þau voru dobluð og redobluð. Það varð mikið tap. Þetta var fyrirstöðugrand, sagði Eggert, sem átti engan punkt. Þú gast sagt þér það sjálfur, borgarstjóri. Makkerinn var þá fyrir löngu hættur að vera borgarstjóri.

Nú er þessi óvenjulegi, ógleymanlegi makker um margt í liðinni tilveru horfinn annað. Það er að minnsta kosti alls ekki útilokað að sú sem hann helst saknaði hafi þegar tekið á móti honum. Þá mun vornóttin enn syngja honum vögguljóð sín, en nú árið um kring. Þá geta allir verið ánægðir.

Ástríður og Davíð Oddsson.

Góður samstarfsmaður, vinur og ferðafélagi, Eggert Jónsson, fyrrverandi borgarhagfræðingur, er fallinn frá. Við unnum náið saman á borgarstjóraárum mínum og þá tókst með okkur vinátta sem hélst þar til yfir lauk.

Eggert var skarpgreindur, frjór í hugsun og hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Hann var aldrei sammála síðasta ræðumanni og við vinir hans vorum fyrir löngu búnir að sætta okkur við að hann ætti alltaf síðasta orðið í hverri umræðu. Hann var fundvís á nýjar hliðar á hverju máli. Sumir myndu kalla það sérvisku.

Á yngri árum starfaði Eggert sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu. Ég þekkti Eggert þá ekki neitt en mér eru enn í fersku minni fastir pistlar sem hann flutti í útvarpið um sjávarútvegsmál af ótrúlegu næmi og þekkingu og ekki spillti hin djúpa og fallega rödd sem naut sín vel í þessum flutningi.

Í starfi sínu sem borgarhagfræðingur bar hann atvinnulíf borgarinnar mjög fyrir brjósti. Hann skynjaði að undirstaða blómlegs mannlífs í borginni var traust og öflugt atvinnulíf og hann sótti sér mikla þekkingu á þessu sviði til borga í öðrum löndum sem létu sig þessi má varða.

Ásamt góðum hópi vina, Fróðárhópnum svo nefnda, veiddum við Eggert oft saman og ferðuðumst víða um landið og til útlanda. Það voru góðir dagar. Eftirminnileg er ferð hópsins til Egyptalands þar sem siglt var um Níl í nokkra daga og helstu borgir og minjar þessa fornfræga lands skoðaðar. Þá skráði Eggert niður ævintýri hvers dags og las fyrir okkur á kvöldin. Mér er sem ég heyri enn hljómmikla rödd hans flytja þessa ferðapistla.

Eggert hafði yndi af tónlist og ég minnist margra stunda þar sem við sátum saman og hlustuðum á djass, ekki síst gömlu meistarana sem voru okkur hugstæðir. Eitt sinn fórum við saman á Montmatre-djasslúbbinn í Kaupmannahöfn. Þar hlustuðum við á Dizzy Gillespie. Það var magnað. Eftir tónleikana kom Dizzy fram í salinn, gekk um meðal gesta og spurði hvort einhverjir ættu franskar sígarettur. Eggert bauð honum vindil sem hann þáði ekki, en þá notaði Eggert tækifærið og sagði: Þú spilaðir ekki nógu mikið. Dizzy svaraði að bragði: Heldur þú að ég sé einhver vinnuþræll hér? Þetta svar féll í góðan jarðveg hjá Eggerti.

Eggert hafði einnig mikinn áhuga á myndlist og var mjög næmur á því sviði. Hann átti sjálfur gott safn málverka og mig grunar að margir þeir dýrgripir sem eru í glæsilegu safni Reykjvíkurborgar hafi ratað þangað fyrir frumkvæði Eggerts.

Síðustu árin voru Eggerti erfið. Hann saknaði mikið konu sinnar, Sigurlaugar Aðalsteinsdóttur sem féll frá á besta aldri árið 2000. Hann þjáðist af erfiðum gigtarsjúkdómi, átti erfitt með að hreyfa sig og treysti sér m.a. ekki til að keyra bíl síðustu árin. Synirnir Tómas Guðni og Eiríkur Áki voru stoð hans og stytta og hann bar hag þeirra mjög fyrir brjósti og gladdist yfir velgengni þeirra. Eggert andaðist eftir stutta sjúkdómslegu 11. október sl.

Við Sonja sendum sonunum og öðrum ættingjum okkar dýpstu samúðarkveðjur og söknum góðs vinar.

Birgir Ísl. Gunnarsson.

Líf manna fléttast saman ófyrirsjáanlega. Við Eggert Jónsson hittumst fyrst í Barnamúsíkskóla Heinz Edelstein fyrir tæpum 70 árum til að læra undirstöður tónmennta. Eftir það tókum ávallt tal saman af ákafa þegar við sáumst á förnum vegi þótt aldrei værum við leikbræður, skólafélagar eða starfsbræður. Áhugi Eggerts á landsmálum var mikill. Hann hafði gjarnan frumkvæði að þessum samtölum en ég af því gagnið. Líklega hef ég ekki átt svo langt kunningjasamband við nokkurn annan mann utan fjölskyldu.

Í starfi framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs átti ég ýmis formleg samskipti við Eggert sem borgarhagfræðing og mætti þar hinum kórrétta og þrjóska embættismanni þegar hagsmunir borgarinnar voru í húfi. Áhugamál og hagsmunir fóru þó mjög saman þegar stuðning við nýsköpun í atvinnulífi bar á góma. Á því sviði gegndi Eggert lengi ábyrgðarstarfi fyrir atvinnumálanefnd Reykjavíkurborgar.

Raunverulegt vinasamband hófst þó varla fyrr en báðir voru komnir fram á miðjan aldur og hópur sameiginlegra veiðifélaga þjappaði okkur saman. Úr því varð dýrðlegt tímabil við veiðiskap og skemmtisögur af mönnum og málefnum – og tími endalausra og djúphugulla greininga á vandamálum samtímans sem var uppáhaldsviðfang Eggerts og fleiri í þeim hópi. Var vísifingri hins einarða andmælanda þá tíðum brugðið á loft. Það skemmdi ekki að miðpunktur í þessum hópi framan af var Stefán Jónsson, fyrrum fréttamaður Ríkisútvarpsins og þingmaður, sem Eggert hafði einmitt áður unnið með þegar hann ungur starfaði hjá Ríkisútvarpinu. Stefán hafði þá unnið sér til afreka að hafa átt samtöl við fleiri Íslendinga en nokkur annar í Íslandssögunni og fest þau á stálþráð eða segulbönd eftir því sem tækninni fleygði fram. Þar og í höfði Stefáns geymdust og spruttu stórkostlegar sögur af mönnum og málefnum, sem glöddu andann.

Þegar hér var komið hafði Eggert lengi gegnt starfi borgarhagfræðings hjá Reykjavíkurborg og í hópnum voru Þórður Þ. Þorbjarnarson borgarverkfræðingur og svili hans Jón Sigurðsson sem þá var orðinn forstjóri Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga. Á heimili Jóns og Bergljótar Jónatansdóttur í hlíðum Akrafjalls á þeim árum upplifðum við glaðar stundir líflegrar umræðu í bland við fluguhnýtingar og sagnir af veiðum. Fleiri áhugasamir veiðifélagar komu við sögu og juku mjög við skemmtanagildi þessara funda. Ekki skemmdi heldur návist makanna sem bættu um betur – ekki síst Sigurlaug Aðalsteinsdóttir, kona Eggerts, sem smitaði samkomuna með glaðværð sinni. Hún dró jafnvel fram harmonikkuna þegar best lét.

Mikill var harmur okkar þegar Sigurlaug lést fyrir aldur fram árið 2000. Dró þá úr gleði Eggerts og ættgengir gigtarkvillar tóku að hrjá hann, sem brátt gerðu honum erfitt fyrir á árbökkum og í ferðalögum. Má geta sér til að Eggert hafi þráð þá stund að andi þeirra sameinaðist aftur á vettvangi eilífðarinnar – hver sem birtingarmynd hennar kann að vera.

Á skilnaðarstund er samferðin þökkuð og minnst margra góðra samverustunda. Blessuð sé minning Eggerts.

Vilhjálmur

Lúðvíksson.

Þegar Tómas Guðni og Eiríkur Áki, synir Eggerts æskuvinar míns, hringdu í mig að kvöldi dags þriðjudaginn 11. október og létu mig vita að Eggert pabbi þeirra hefði látist fyrr um daginn brá mér verulega. Þá rifjuðust upp ýmsar minningar um þau tæp 70 ár sem eru liðin frá því við Eggert hittumst fyrst og það eru engin undur að maður sakni vina sinna við fráfall eftir allan þennan tíma. Ég kynntist tveimur góðum vinum mínum, Eggerti og Ásgeiri Leifssyni, þegar ég kom 8 ára gamall í E-bekkinn í Miðbæjarskólanum. Síðan þá höfum við þrír verið vinir eða í tæp 70 ár. Við brölluðum ýmislegt saman á unglingsárum okkar og vorum ekki alltaf sammála, en þrátt fyrir ágreining í ýmsum málum tókst okkur alltaf að ná saman að lokum. Eggert og Ásgeir voru oft á öndverðum meiði og ég lenti oftar en ekki í því að reyna að sætta sjónarmið þeirra, sem tókst misjafnlega því báðir voru oft heldur þverir.

Ég tel að einhver mesta gæfa Eggerts hafi verið þegar hann kynntist Sigurlaugu. Þau Sigurlaug eignuðust tvo yndislega stráka, þá Tómas Guðna og Eirík Áka, sem hafa spjarað sig vel. Sigurlaug var einatt í góðu skapi og naut þess að hitta vini sína og kunningja. Hélt hún mörg fjölskylduboð sem við Hanna vorum oft boðin í. Þegar Sigurlaug féll frá eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm söknuðum við vinir hennar mikið en meiri harmur var kveðinn að Eggerti og strákunum.

Eftir fráfall Sigurlaugar virtist Eggert missa lífslöngun. Hann dró sig inn í skel og gerðist einrænn, því síðustu árin hefur hann lítið viljað vera í sambandi við fyrrverandi félaga sína, sem er synd. Við Eggert vorum þó í sambandi fram undir lokin. Genginn er góður vinur og við Hanna sendum Tómasi Guðna og Eiríki Áka og fjölskyldum þeirra samúðarkveðjur og ég þakka fyrir að hafa átt hann að vini.

Jón H. Magnússon.

Við Eggert Jónsson hittumst fyrst í MR. Með okkur tókst strax mikill vinskapur sem aldrei hefur fallið skuggi á. Við kölluðum hvor annan nafna og þegar við höfðum náð nokkrum tökum á þýskunni þýddum við enska orðið namesake yfir á prentsmiðjuþýsku og kölluðum hvor annan namentsache eða bara nament.

Á skólaárum var ýmislegt brallað. Eitt sinn í 6. bekk vorum við Nafni á Skalla, sjoppu í Lækjargötu á móti MR, að reyna að slá skólafélaga til að kaupa áfengi. Það gekk vægast sagt illa. Þá mundum við að Ólafur Hansson sögukennari var að fræða okkur um ýmsar áfengistegundir sem framleiddar hafa verið í Evrópu. Við hófum því nýja sláttuferð og nú til kaupa á slivovitz. Við urðum að hætta að taka á móti framlögum eftir tvær mínútur, svo mikill var áhuginn. Því miður reyndist enginn slivovitz til í Ríkinu svo að við keyptum brennivín. Þegar við komum aftur á Skalla kom upp mikill kurr meðal hluthafa, sumir sögðu jafnvel að við hefðum vitað þetta allan tímann. Um þennan atburð orti skólafélagi okkar, Gísli heitinn Sigurkarlsson, blessuð sé minning hans:

Slógu fyrir slivovitz slungnir

erkiþrjótar.

Enginn frýr þeim föntum vits,

en meir eru þeir grunaðir um græsku.

Þegar við vorum báðir komnir í okkar framtíðarstörf, Nafni sem borgarhagfræðingur og ég sem háskólakennari, vildi svo til að sökum plássleysis í Háskólanum kenndi ég stórum hópum nemenda í Tjarnarbíói tvisvar í viku. Þar var engin aðstaða í frímínútum hvorki fyrir kennara né nemendur. En þá kom í ljós að beint á móti Tjarnarbíói, í virðulegu timburhúsi, var skrifstofa borgarhagfræðings og þangað bauð Nafni mér í hverjum frímínútum upp á nýuppáhellt kaffi. Þar áttum við saman margar góðar stundir.

Á seinni árum hittumst við Nafni ekki eins oft og áður, þó einstaka sinnum við bridsborð hjá gömlum félögum.

Nú er Nafni horfinn yfir móðuna miklu. Blessuð sé minning hans. Ég votta sonum hans samúð mína.

Eggert Briem.

Ég á margar góðar æskuminningar frá þeim tíma sem ég dvaldi á heimili og með Eggerti Jónssyni og Sigurlaugu Aðalsteinsdóttur. Vinátta mín og Tomma, strax á leikskóla, varð til þess að við fengum að dvelja á heimili hvort annars, frá morgni til kvölds, hvern laugardag í fleiri ár. Þannig hélst vinátta okkar þrátt fyrir að við færum síðar í sitt hvorn grunnskólann. Er ég foreldrum okkar þakklátur fyrir það.

Á heimili Eggerts og Sigurlaugar var afslöppuð og notaleg stemmning. Sigurlaug sat oft og spilaði á píanó eða harmonikku þegar ég var í heimsókn. Ég man einnig eftir að Night Train með tríói Oscar Peterson eða annar djass var stundum á fóninum. Hafði dvöl mín hjá Eggerti og Sigurlaugu úrslitaáhrif á að ég fór sjálfur að læra á hljóðfæri.

Eggert spilaði stundum við okkur strákana, mig, Tomma og Eirík, Matador. Ég man þegar hann keypti hótel á eina af götum sínum og fékk til þess lánað hjá bankanum með því að setja fasteignina að veði. Það skyldi ég ekki þá.

Eggert fór einnig oft með okkur í hesthúsið og leyfði okkur að kemba og fara á bak. Við settumst upp í Volvoinn, Eggert kveikti sér í pípunni og Tommi bað hann að opna gluggann. Síðan var lagt af stað. Í hesthúsinu sagði Eggert mér söguna af því þegar einn af hestunum hans stal af honum veskinu. Á heimleiðinni var stundum farið í Dairy Queen á Hjarðarhaga og keyptur einn Shaken Stevens.

Ég á bara góðar minningar frá samverustundum okkar og er þakklátur fyrir þann tíma sem ég átti með Eggerti og Sigurlaugu. Blessuð sé minning þeirra.

Tomma og Eiríki sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Grétar Már

Ólafsson.

Það er ekki ýkja langt síðan samfélagsumræða spannst í enn eitt sinn um fallegasta orð íslenskrar tungu og fólk kepptist við að raða á lista og senda inn í þar til gerða potta. Um þær mundir rétti Eggert Jónsson okkur upp úr þurru handskrifað blað við eldhúsborðið. Á því var stutt hugleiðing sem hann hafði sett saman, ekki fyrir neins slags vinsældakosningu heldur fyrir sjálfan sig – og kannski okkur. Þar stóð stafrétt:

„Ljósaskipti; þegar birtu tekur að bregða, himinn, haf og jörð breyta sífellt um ásýnd, uns þau renna saman í eitt í myrkrinu til morguns, þegar birtan tekur aftur völdin,“

Á kveðjustund er við hæfi og honum líkt að þessi miði komi í leitirnar, enda erfitt að finna upp á öðru sem passar betur. Um leið vekur eftirtekt komman sem svo einkennilega er komið fyrir í lokin – ekki punktur, heldur skýr komma, eins og til þess að benda á að hann hefði getað haldið áfram, en að sama skapi var mögulegt frá að hverfa því öll helstu atriði voru komin til skila, fegurðin, fallveltið og náttúrulegt samhengi hlutanna.

Ljósaskipti er sannarlega fegursta orðið. Hvíldu í friði, kæri Eggert Jónsson.

Sigurbjörg

Þrastardóttir.