England
Hjörvar Ólafsson
hjorvaro@mbl.is
Endurkoma José Mourinho, knattspyrnustjóra Manchester United, á Stamford Bridge, sinn gamla heimavöll, var ekki eftir þeirri uppskrift sem hann hafði vonað. Leikmenn Manchester United voru kjöldregnir og lokatölur í leiknum urðu 4:0 Chelsea í vil.
Pedro Rodriguez kom Chelsea yfir strax eftir 29 sekúndna leik, en þetta er fljótasta markið í ensku úrvals-deildinni á yfirstandandi leiktíð. Þetta er jafnframt fljótasta mark Chelsea í úrvalsdeildinni síðan 21. febrúar 2004, en þá skoraði Eiður Smári Guðjohnsen eftir aðeins 27 sekúndur í leik gegn Arsenal.
Gary Cahill, Eden Hazard og N'Golo Kante bættu síðan við þremur mörkum fyrir Chelsea, sem skaust upp í fjórða sæti deildarinnar með þessum sigri.
Fyrir rúmri viku var umræða um það í breskum fjölmiðlum hvort starf Antonio Conte hjá Chelsea væri í hættu, en nú þegar liðið er einu stigi frá toppliðum deildarinnar ætti Conte að fá frið frá atgangi fjölmiðla þar í landi. Það er hins vegar óvíst að Mourinho eigi sjö dagana sæla næstu vikurnar eftir þessa niðurlægingu.
Manchester City í toppsætið
Manchester City tyllti sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla með 1:1 jafntefli gegn Southampton í gær. Pep Guardiola undirstrikaði orð sín í fjölmiðlum í síðustu viku þess efnis að Sergio Agüro og Vincent Kompany væru ekki á förum frá félaginu með því að setja þá í byrjunarlið liðsins.John Stones gerði sig sekan um skelfileg mistök þegar Nathan Redmond kom Southampton yfir í leiknum. Kelechi Iheanacho, sem kom inn á sem varamaður fyrir Manchester City í hálfleik, tryggði síðan liðinu stig með marki sínu í upphafi síðari hálfleiks.
Manchester City hefur nú leikið þrjá deildarleiki í röð og fimm leiki alls án þess að hafa betur, en trónir
þrátt fyrir það á toppi deildarinnar.
Leikmönnum Arsenal mistókst að færa knattspyrnustjóra sínum, Arsene Wenger, sigur í afmælisgjöf, en liðið gerði markalaust jafntefli gegn Middlesbrough á 67 ára afmælisdegi franska knattspyrnustjórans.
Arsenal var raunar heppið að næla sér í stig í þessum leik, en leikmenn Middlesbrough fengu fleiri opin færi í leiknum og Petr Cech bjargaði því að Arsenal fengi stig í leiknum.
Tottenham Hotspur mistókst að nýta sér feilspor erkifjanda síns, Arsenal, og skjótast á topp deildarinnar, en liðið gerði markalaust jafntefli við Bournemouth.
Liverpool komst upp að hlið Arsenal með 2:1 sigri gegn West Bromwich Albion. Sadio Mané kom Liverpool yfir í þeim leik með fjórða deildarmarki sínu fyrir Liverpool, en hann gekk til liðs við félagið fyrir þessa leiktíð og hefur stimplað sig rækilega inn í liðið. Philippe Coutinho tvöfaldaði forystu Liverpool, en hann var sömuleiðis að skora sitt fjórða deildarmark fyrir Liverpool á þessari leiktíð.
Liverpool er taplaust í síðustu sjö deildarleikjum sínum; hefur haft betur í fimm leikjum og gert tvö jafntefli.