Fréttaveitan Bloomberg fjallaði um það fyrir helgi að verðbréfamarkaðurinn íslenski væri farinn að sýna viðbrögð vegna þess að útlit væri fyrir að núverandi ríkisstjórn missti meirihluta á þingi og að viðræður væru hafnar um vinstri stjórn sem hygði á róttækar breytingar á ýmsum sviðum. Haft er eftir innlendum fjárfestum að slík ríkisstjórn, að meðtöldum Pírötum sem leiði í sumum könnunum, muni hafa í för með sér skattahækkun til að standa undir stórauknum útgjöldum.
Í frétt Bloomberg kemur fram að ríkisstjórnin eigi í erfiðleikum í könnunum þrátt fyrir að hafa snúið 14,3 milljarða króna hallarekstri í 408 milljarða króna afgang samkvæmt spám. Í fréttinni segir einnig frá neikvæðri þróun á skuldabréfamarkaði að undanförnu þrátt fyrir sterkan hagvöxt á fyrri hluta ársins. Loks er bent á að við ríkisstjórnarskipti gætu fjárfestar vaknað upp við vondan draum, en þeir hafi streymt aftur til Íslands eftir að ríkisstjórnin hafi losað um fjármagnshöftin.
Ekki þarf að koma á óvart að skoðanakannanirnar sem birtar hafa verið nú skömmu fyrir kosningar veki athygli erlendrar fréttaveitu. Það sætir vitaskuld tíðindum og vekur furðu að flokkar í ríkisstjórn sem náð hafa þeim árangri sem Bloomberg lýsir skuli ekki mælast með meira fylgi. Ekki vantar að fólk hafði fengið nóg af vinstristjórninni sem hrökklaðist frá völdum eftir síðustu kosningar rúin trausti og fylgi. Hún hafði ekki aðeins stórhækkað skatta og hamlað hagvexti heldur hafði hún líka lagt í ýmsa leiðangra þar sem hún reyndi að þröngva sérviskumálum sínum upp á almenning. Nægir að nefna Icesave, Evrópusambandið og stjórnarskrármálið í því sambandi.
Sú vinstristjórn sem rætt er um að stofna eftir næstu kosningar hyggst taka upp öll þau óþurftarmál fyrri ríkisstjórnar sem ekki náðust fram í hennar tíð, nema að vísu Icesave-málið. Næstu vinstristjórn mun líklega ekki takast að endurvekja það.
Nú er tæp vika í kosningar. Líklegt er að fylgið muni hreyfast töluvert næstu daga en mikilvægt er þegar kjósendur gera upp hug sinn að þeir velti því fyrir sér í alvöru hvað bíður handan kosninga. Sú góða tíð sem verið hefur síðustu mánuði hér á landi getur haldið áfram en henni getur líka lokið fyrr en varir takist Pírötum það ætlunarverk sitt að setja saman fjölflokka vinstristjórn um að umbylta samfélaginu.