Birna Kristjánsdóttir, markvörður Grand Bodø, og Ingvar Jónsson, markvörður Sandefjord, tryggðu sér bæði sæti í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Grand Bodø er taplaust á toppi B-deildarinnar í Noregi eftir 20 leiki en enn eru tvær umferðir eftir. Liðið vann 5:0-útisigur á Fortuna Ålesund, en lið Birnu hefur skorað 70 mörk í deildinni og Birna hefur aðeins þurft að hirða boltann ellefu sinnum úr neti sínu. Liðið er með 54 stig á toppnum eftir að hafa unnið sautján leiki og gert þrjú jafntefli. Birna spilaði með Breiðabliki og Val hér á landi áður en hún gekk í raðir Grand Bodø.
Ingvar og félagar hans í liði Sandefjord tryggðu sér í gær sæti í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á næsta ári þótt ein umferð sé eftir af norsku B-deildinni.
Ingvar stóð í marki Sandefjord, sem lagði Bryne, 1:0. Fyrir síðustu umferðina er Sandefjord á toppnum með 59 stig eins og Kristiansund, sem einnig er öruggt með sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. yrkill@mbl.is