Guðmundur Torfason Magnússon fæddist 7. september 1938. Hann lést 15. október 2016.

Móðir hans var Sigríður Guðmundsdóttir, f. 1922, d. 1988, og faðir Magnús Haraldsson, f. 1915, d. 1992. Stjúpfaðir: Sigurður Einarsson, f. 1914, d. 2001, ættaður frá Reykjadal í Hrunamannahreppi.

Guðmundur var alinn upp af móðurforeldrum sínum, þeim Júlíönu Guðmundsdóttur, f.1889, d. 1978, og Guðmundi J. Jóhannssyni, f. 1887, d. 1963.

Systur (föður) Þyri Ísey Magnúsar Warner, f. 1942, d. 1998, ogDiana Bjarney Stahr, f. 1943.

Systkini (móður) Margrét Sigurðardóttir, f. 1942. M. Sigmundur Eiriksson, f. 1938, d. 2014. Hrafnhildur Sigurðardóttir, f. 1945. M. Stefán Sveinsson. Rafn Sigurðsson, f. 1949. Hrönn Sigurðardóttir, f. 1958. M. Eiður Örn Hrafnsson.

Guðmundur T. giftist ungur að árum Petrínu Rósu Ágústsdóttur og eignuðust þau þrjú börn, Sigríði Maríu, f. 1957, gift Peter Sundin. Þau eiga Gustav Eric og Oscar Peter. Gustav á eitt barn með unnustu sinni, Carolinu.

Guðmundur Örn. Eiginkona hans er Linda H. Eggertsdóttir, þau eiga tvo syni, Svan Örn og Aron Þór. Ágúst Pétur, maki Kristín Lilja Garðarsdóttir. Þau eiga þrjár dætur, Írenu Björk, Söndru Dís og Ísabellu Mjöll.

Guðmundur T. vann lengst af sem verktaki við hitaveitulagnir. Hann átti nokkur áhugamál, m.a. fótbolta, hann var í Breiðabliki, einn af framherjunum. Laxveiði með vini sínum Sveini Skafta, sem er nú farinn á undan. Svo kom biljarður og síðast var það golfið. Hann var fyrsti formaður Golfklúbbs Bakkakots til fimm ára. Samtímis tók hann þátt í uppbyggingu Golfklúbbs Oddfellowa í Urriðakoti.

Hann gekk í Oddfellow-regluna 1986.

Útför hans fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 24. október 2016, kl. 11.

Elsku Mummi minn, ég vil þakka þér samfylgdina í 61 ár. Og þótt ótrúlegt sé þá höfum við alltaf verið hlémegin í lífinu og sólarmegin. Við eignuðumst þrjú yndisleg börn, sjö barnabörn og eitt langafabarn.

Við byrjuðum lífið með tvær hendur tómar en fullt af bjartsýni. Með mikilli vinnu og eljusemi byggðir þú okkur og börnunum heimili. Dansinn var okkar sameiginlega áhugamál og síðan golfið og ferðalög.

Minn besti vinur, þú ert farinn í ferðina miklu. Hittumst síðar og tökum tangó eða vals. Þín

Petrína Rósa Ágústsdóttir (Peggy).

Elsku pabbi.

Ég er þakklát fyrir að hafa náð klukkutíma með þér, áður en þú kvaddir þennan heim.

Við höfum bara sést einu sinni á ári, annaðhvort komst þú til mín til Svíþjóðar eða ég (og stundum með fjölskyldunni) kom heim í Hafnarfjörð.

Barnabörnin, Gustav og Oscar, voru send til Íslands á hverju sumri í mörg ár og fóru í ógleymanlegar veiðiferðir og þú kenndir þeim að veiða, þegar þeir voru litlir. Seinna kenndir þú þeim að spila golf. Það var alltaf ævintýri að koma heim til ömmu og afa.

Þó svo að það hafi verið himinn og haf á milli okkar, þá hefur þú alltaf verið í mínum huga og hjarta.

Ég er stolt og glöð yfir að hafa verið þín dóttir. Sjáumst pabbi,

Sigríður María (Sigga Mæja).

Að vera heill í gegn er hverjum manni dýrmætara.

Pabbi var sjálfstætt starfandi verktaki frá 1968-2011, eða í 43 ár. Hann lagði heimtaugar fyrir Hitaveitu Reykjavíkur og síðar OR. Fyrstu árin í eigin nafni og frá 1975 í nafni einkahlutafélags sem hann stofnaði þá og bar nafn hans. Hann lifði af allar kreppur og lét aldrei freistast á góðæristímum þegar boðin voru út stærri verk og menn urðu stórverktakar og stundum „sterkefnaðir“ á skömmum tíma. Nei, hann lét enga græðgi hlaupa með sig í gönur. Hann tók ekki þátt í slíku. Hann rauk ekki til og réð menn í vinnu eða sagði mönnum upp. Í gegnum árin var hann með 1-2 menn í vinnu og þar af starfaði Halldór hjá honum í 30 ár. Hann hélt sínu striki, hann var klettur. Hann hélt tryggð við sín verkefni. Hann var traustur og tryggur. Reksturinn var ekki alltaf auðveldur en hann gætti þess ávallt að eiga fyrir sínum skuldbindingum. Hann var gætinn í endurnýjun á verkfærum og tækjum. Óþarflega gætinn fannst mér þegar ég var ungur og vann hjá honum. Hélt margar ræður um það að endurnýja flotann og slá lán, ef þess þyrfti. Hann hins vegar réð og fór sína leið. Þessa festu hefur maður skilið betur með árunum og er ég stoltur af honum að hafa rekið sitt verktakafyrirtæki frá 1975-2011, þegar hann varð að hætta vegna heilsubrests, á sömu kennitölunni. Hann var trúr sjálfum sér og heill í gegn.

Megir þú hvíla í friði.

Þinn sonur

Guðmundur Örn Guðmundsson.

Elsku tengdapabbi, mér er í fersku minni dagurinn sem ég kynntist þér fyrst. Þá var ég að störfum í heimahjúkrun og var að vitja Sigga stjúpföður þíns í fyrsta sinn. Í þessari vitjun varð mér ljóst hversu heill og sannur maður þú varst og barst hag stjúpföður þíns fyrir brjósti. Til að leggja áherslu á orð þín og þungar áhyggjur þínar af mjög svo slæmri stöðu Sigga bankaðir þú kröftuglega í eldhúsborðið með alvarleika í svip. Á þeirri stundu minntir þú mig einna helst á indíánahöfðingja, breiðleitur, með þykkar dökkar augabrýr, bogið nef og hárprúður. Myndarmaður. Þá var stjúpfaðir þinn, Siggi, búinn að bíða lengi eftir plássi á hjúkrunarheimili og þér var sárlega misboðið hversu illa það gekk. Ég var snortin af að sjá hvað þú sýndir honum mikla umhyggju og hugsaði með mér hversu lánsamur Siggi væri að eiga svo góða að. Mig grunaði ekki þá að þú ættir eftir að verða tengdafaðir minn, en ég kynntist syni þínum og nafna skömmu síðar. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég átti eftir að sjá þig skipta skapi. Ég var virkilega lánsöm að eignast þig sem tengdaföður, þú varst svo einstaklega góður, heiðarlegur og traustur maður. Í mínum huga ertu alltaf indíánahöfðinginn sem reykti friðarpípur (stóra vindla), sem hafði yndi af barnabörnunum sínum. Þú varst einnig mikill dýravinur og þú þekktir allar fuglategundir með nafni á Íslandi.

Þú lást oft uppi í sófa á meltunni eftir gómsæta máltíð frá elsku tengdamömmu minni, sem alltaf sá til þess að þú hefðir nóg að borða, enda matmaður mikill. Ég man líka eftir þér liggjandi á milli þúfna í sumarbústaðalandinu ykkar. Þar naustu þín vel í friði og ró, einn með náttúrunni.

Þú bjóst yfir sterkri kímnigáfu og ég gat oft hlegið með þér. Ég fékk að heyra margar skondnar sögur frá bernsku þinni sem ég geymi vel í minni.

Þú varst einstaklega friðsæll og yfirvegaður maður, geðgóður, þolinmóður og þrautseigur. Þú sagðir ekki margt en meintir hvert orð af því sem þú sagðir.

Elsku tengdapabbi, ég kveð þig með sárum söknuði. Megi allt hið góða geyma þig og vernda.

Mig langar að lokum gefa þér þessa kveðjuvísu sem ég samdi með mínum hætti:

Höfðingi þú heill og sannur

hljóðlátur og góður.

Um alla fugla hér á landi

feikilega fróður.

Fíraðir í vindlum vænum

við loga frá suðu hverri.

Stubba sendir í allar áttir

sá var löstur verri.

Hárprúður og hjartahreinn

hreinlyndur og tryggur.

Þú hafðir ekki hátt um það

en stundum varst þú hryggur.

Vil ég þig kveðja í þetta sinn

þú kæri tengdapabbi minn.

(Linda H. Eggertsdóttir)

Linda Hrönn Eggertsdóttir.