Neytendasamtökin Afar mikilvæg, segir Ólafur Arnarson, sem tók við formennsku á aðalfundi þeirra um helgina.
Neytendasamtökin Afar mikilvæg, segir Ólafur Arnarson, sem tók við formennsku á aðalfundi þeirra um helgina. — Morgunblaðið/Golli
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Rödd Neytendasamtakanna í þjóðfélagsumræðunni þarf að vera háværari. Verkefnin skortir heldur ekki því margt í viðskiptaumhverfinu er mjög fjandsamlegt.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Rödd Neytendasamtakanna í þjóðfélagsumræðunni þarf að vera háværari. Verkefnin skortir heldur ekki því margt í viðskiptaumhverfinu er mjög fjandsamlegt. Stjórnmálaflokkarnir hafa heldur ekki sinnt þessum hópi sem vera skyldi – og viðvíkjandi bankakerfinu hafa stjórnmálamenn verið þægir þjónar fjármálafyrirtækja en ekki neytenda,“ segir Ólafur Arnarson, nýr formaður Neytendasamtakanna. Aðalfundur þeirra var á laugardaginn og þar fékk Ólafur trausta kosningu í formannsembættið, eða 129 atkvæði. Teitur Atlason og Guðjón Sigurbjartsson fengu 47 atkvæði hvor og átta studdu Pálmeyju Gísladóttur.

Fákeppnisstaða og krónan er vanmáttug

Ólafur telur að sá mikli stuðningur sem hann fékk í formannsembættið helgist af skýrri afstöðu hans og baráttu gegn verðtryggingu og háum vöxtum. Sem stjórnarmaður í Neytendasamtökunum síðustu ár hafi hann talað skýrt og skorinort um þessi efni og þau sjónarmið náð í gegn. Neytendasamtökin hafi til dæmis tekið skýra afstöðu gegn verðtryggingu á neytenda- og þar með talið húsnæðislánum – og þau sjónarmið náð í gegn.

„Ég hef grun um að þetta hafi ráðið ansi miklu um úrslitin í formannskjörinu. Þetta eru einhver stærstu neytendamálin, þessi gríðarlegi kostnaður. Vaxtaokrið hér er áþján fyrir íslenska neytendur og íslensk heimili. Þar ræður fákeppnisstaða íslensku bankanna miklu. Erlend fjármálafyrirtæki hafa ekki áhuga á Íslandi og þar ræður auðvitað hve vanmáttug íslenska krónan er.“ Ólafur nefnir einnig verðbólguna, sem hefur verið lág um nokkurt skeið, en það telur hann aðallega vera vegna lágs heimsmarkaðsverðs á olíu og haftanna sem krónan er í.

„Ég hef áhyggjur af því þegar við horfum á kjarasamninga og fleira hvað gerist þegar höftum verður aflétt, að þá muni verðbólga koma mjög illa við íslenska neytendur.“

Fyrir formannskjörið á aðalfundinum nú segist Ólafur hafa rekið skipulega kosningabaráttu – meðal annars á Facebook. Það hafi skilað sér vel.

„Eftir að ég tók ákvörðun um formannskjör setti ég á fullt. Ég tel Neytendasamtökin afar mikilvæg og vil efla þau. Við þurfum að fjölga félagsmönnum og vera sýnilegri til dæmis í farsímaveröld dagsins í dag,“ segir Ólafur. Hann segist strax á næstu dögum ætla að setja af stað vinnu við að bæta úr því. Hann vilji koma upp sérstöku neytenda-appi þar sem fólk geti í símanum nálgast ýmsar þarfar upplýsingar, t.d. um verð, gæði, þjónustu og þann rétt sem neytendur sannarlega hafi. Hins vegar sé rétt að taka fram að starf Neytendasamtakanna hafi almennt verið í góðum farvegi. Jóhannes Gunnarsson hafi á löngum formannsferli sínum unnið merkt starf og eigi meðal annars heiður að kvartana- og leiðbeiningaþjónustu, sem og leigjendaaðstoð sem sé þjónusta sem ekki beri endilega mikið á. Þetta sé eigi að síður vettvangur sem sé mikið notaður þegar upp komi ýmis ágreiningsmál sem þurfi að jafna

Sjónarmið almennings komi sterkar fram

„Það er hins vegar áhyggjuefni að Neytendasamtökin eru kannski ekki nógu sýnileg,“ segir Ólafur, sem kveðst áfram um að félagsmönnum fjöldi. Gerð verði á næstunni gangskör í að fá fleiri í samtökin því þannig – og tæpast öðruvísi – verði þau það sterka afl sem neytendur þurfi að hafa. Nú sé til dæmis boðað að endurskoða eigi lög um búvörusamninga og þar sé mikilvægt að neytendur hafi í umræðum til jafns við bændur og fulltrúa stjórnvalda. Þá séu vextir og verðtrygging alltaf til umræðu, til dæmis í tengslum við húsnæðismál. Í þeim efnum þurfi sjónarmið almennings að koma sterkar fram og þar munu Neytendasamtökin láta í sér heyra, að sögn Ólafs Arnarsonar.