Áhugi Með því að teygja starfsemina austur til Kína gæti Beringer Finance greitt leiðina að sjóðum og stórfyrirtækjum þar í landi sem vilja fjárfesta á Vesturlöndum, í samræmi við stefnu kínverskra stjórnvalda.
Áhugi Með því að teygja starfsemina austur til Kína gæti Beringer Finance greitt leiðina að sjóðum og stórfyrirtækjum þar í landi sem vilja fjárfesta á Vesturlöndum, í samræmi við stefnu kínverskra stjórnvalda. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Í sumar var greint frá samruna íslensk-sænska fjármálaráðgjafarfyrirtækisins Beringer Finance og Fondsfinans, elsta fjárfestingarbanka Noregs.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Í sumar var greint frá samruna íslensk-sænska fjármálaráðgjafarfyrirtækisins Beringer Finance og Fondsfinans, elsta fjárfestingarbanka Noregs. Aðalsteinn Jóhannsson, stofnandi Beringer Finance, verður forstjóri hins sameinaða banka. Þar starfa rúmlega 80 manns og eru tekjur þessa árs áætlaðar tveir milljarðar íslenskra króna.

Fondsfinans var stofnað 1915 en árið 1972 eignaðist norski fjárfestirinn Erik Must bankann og hefur í gegnum hann byggt upp eignir sínar í Noregi. Er bankinn með fimm starfsstöðvar í Bandaríkjunum og Evrópu.

„Fyrir nokkrum árum fór Erik að huga að því að setjast í helgan stein og tók að leita í kringum sig að einhverjum til að taka við kyndlinum,“ segir Aðalsteinn, sem sjálfur hefur fengist við fjárfestingarbankastarfsemi frá 1999.

Aðalsteinn tapaði miklu í fjármálahruninu 2008 og lýsir því þannig að hann hafi þurft að byrja aftur frá grunni, nánast með báðar hendur tómar. Hann flutti frá Íslandi til Stokkhólms, þar sem hann setti Beringer Finance á laggirnar og naut þar góðs stuðnings Must-fjölskyldunnar, en henni hafði Aðalsteinn kynnst í gegnum ýmis samstarfsverkefni í gegnum árin. „Fjölskyldan vildi fá mig til að koma og vinna hjá Fondsfinans en mér hugnaðist ekki að búa í Ósló á þeim tíma, og vildi frekar hafa stóra fjölskylduna í Stokkhólmi. Úr varð að þau hjálpuðu mér að koma Beringer af stað af miklum krafti.“

Áhersla á tæknidrifin fyrirtæki

Hefur rekstur Beringer Finance gengið vel, en fyrirtækið hefur sérhæft sig í fjárfestingaráðgjöf og -þjónustu fyrir tæknigeirann. Sá Beringer meðal annars um söluna á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Betware til austurrískra kaupenda og hélt utan um kaup sænskra fjárfesta á Advania.

Eftir sameininguna verður reksturinn allur undir merkjum Beringer Finance. „Fondsfinans er mjög virt stofnun og þekkt nafn í Noregi en eftir samrunann færum við fókusinn meira yfir á tæknidrifin fyrirtæki og verðum í vaxandi mæli með starfsemi á heimsvísu. Var það sameiginleg ákvörðun að nýta því frekar vörumerki Beringer Finance,“ segir Aðalsteinn, en Fondsfinans hefur meðal annars þjónustað fyrirtæki í fjármálatækni og fjarskiptafyrirtæki auk félaga í laxeldi og sjávarútvegstækni. „Beringer er minna fyrirtæki en Fondsfinans, en hefur skilað mjög góðum tekjum, og meiri arðsemi verið af starfseminni okkar megin. Að færa fókusinn yfir á tæknimiðuð fyrirtæki, og liðsinna þeim við sameiningar, yfirtökur, hlutafjárhækkanir og fleira er líka til þess gert að vera í geira þar sem meira er að gerast, og því meiri tekjumöguleikar.“

Ætti Beringer Finance að geta orðið eins konar brú sem tengir Norður-Evrópu við Bandaríkin og fleiri heimshluta. Eru fjárfestar farnir að koma auga á verðmæt tækifæri í skandinavískum nýsköpunarfyrirtækjum og virðist gat á markaðnum fyrir öflugan millilið. „Uppbyggingin í Skandinavíu hefur mestöll verið fjármögnuð innanlands, en stóru sölurnar og fjármagnanir, s.s. á fyrirtækjum á borð við Minecraft, Spotify og Skype, hafa aðallega verið til bandarískra fjárfesta og fyrirtækja. Markmið okkar er að búa til norður-evrópskan fjárfestingarbanka sem skapar vettvang fyrir tæknifyrirtækin í þessum heimshluta til að finna kaupendur og fjárfesta, eða kaupa önnur fyrirtæki.“

Stækkun til Ísrael og Kína

Fram undan er að fjölga starfsstöðvum Beringer með skrifstofum í London, Berlín og Tel Aviv, og meira að segja er unnið að stofnun dótturfélags í Kína. „Í Kína hefur safnast upp gífurlegur auður og á landið enn mikið inni. Kínversk stjórnvöld hafa markað þá stefnu að fyrirtæki og fjárfestingarsjóðir leiti út í heim og dreifi þannig áhættunni í fjárfestingum sinum, og um leið fyrir kínverska hagkerfið,“ segir Aðalsteinn. „Kínverskir sjóðir og stórfyrirtæki hafa fyrir vikið lagt mikið kapp á fjárfestingar bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu, en fyrsta stoppið er oft í Tel Aviv, þar sem mjög góðir háskólar og þróunarvinna sem orðið hefur til út úr ísraelska hernum hafa skapað mikið framboð af hæfileikafólki og efnilegum hátæknifyrirtækjum.“

Bendir Aðalsteinn á að Kínverjarnir séu þegar lentir í Skandinavíu. Þannig keypti kínverskur bílaframleiðandi Volvo árið 2010 og fyrir skemmstu eignaðist hópur kínverskra fjárfesta fyrirtækið sem framleiðir Opera-vafrann fyrir 600 milljónir dala.

Breytt landslag í tækngeira

Í fréttum af sölum og kaupum tæknifyrirtækja virðast æ hærri tölur í spilinu og í Kísildal eru tekjulitlir sprotar sumir metnir á marga milljarða. Er nokkuð hætta á fjárfestingarbólu? „Ef horft er yfir landslagið í tæknigeiranum, og borið saman við bóluna sem var 2000-2001, þá eru fyrirtækin komin svo mikið lengra í að skapa tekjur úr tækninni. Efst í píramídanum eru fyrirtæki sem raka inn marga milljarða dollara. Allir þessir peningar ýtast niður til fyrirtækja neðar í píramídanum og vitaskuld geta þar orðið einhverjar bólur,“ segir Aðalsteinn. „Hafa verður líka ákveðinn fyrirvara á verðmati fyrirtækja í fjármögnunarlotum, og athuga skilmálana sem liggja að baki því fjármagni sem sett er inn. Eftir nokkrar fjármögnunarlotur getur verðmatið verið orðið mjög hátt en langt í að eitthvað af því rati til frumkvöðlanna sjálfra.“

Íslensk fyrirtæki eru áhugasöm en varkár

Beringer Finance verður áfram með skrifstofu á Íslandi og stefnt er að því að hún stækki. Segir Aðalsteinn ýmis áhugaverð tækifæri hérlendis. Hann nefnir mögulega stækkun eða sölu fyrirtækja á sviði sjávarútvegsnýsköpunar, upplýsingatækni og endurnýjanlegrar orku að ógleymdum leikjageiranum. Gæti Beringer bæði hjálpað þeim að fá nýtt hlutafé erlendis, finna alþjóðlega kaupendur og – með losun hafta – aðstoðað við kaup á félögum erlendis. „En þar á ég samt von á að fyrirtækin muni fara varlega. Íslensk fyrirtæki hafa komið að máli við okkur og spurt um tækifæri til að kaupa félög í Noregi og víðar, og er greinilegt að þau fara sér að engu óðslega, sem ég held að sé mjög gott.“