[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Kostnaður við lagningu jarðstrengja í meginflutningskerfi raforku í samanburði við lagningu loftlína hefur lækkað mjög á undanförnum árum.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Kostnaður við lagningu jarðstrengja í meginflutningskerfi raforku í samanburði við lagningu loftlína hefur lækkað mjög á undanförnum árum. Ekki eru nema rúm fimm ár síðan áætlað var að kostnaðurinn væri 7-10 meiri við jarðstrengi, það mat breyttist svo í 5-8 sinnum og loks í að verðmunurinn væri þrefaldur, jarðstrengjum í óhag. Í nýrri valkostaskýrslu Landsnets vegna Suðurnesjalínu er kostnaður við jarðstrengi áætlaður 2-2,5 sinnum meiri en við loftlínu um sama svæði.

Margir þættir hafa haft þau áhrif að raunkostnaður við lagningu jarðstrengja hefur verið að minnka. Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, nefnir tækni í framleiðslu jarðstrengja, jarðvinnu, gengi krónunnar, lágt hrávöruverð og aukna samkeppni framleiðenda. Í sambandi við það síðastnefnda má vekja athygli á að strengjaframleiðendur höfðu með sér verðsamráð sem Evrópusambandið leysti upp með látum og að framboð hefur aukist frá framleiðendum utan Evrópu. Þá nefnir Steinunn að það hafi einnig áhrif hvort og hvenær reiknað er með seinna strengjasettinu við framkvæmdina.

Við þetta má bæta að verðsamanburður er flókið verk og erfitt að bera mismunandi kosti nákvæmlega saman. Oft hefur til dæmis verið rætt um líftímakostnað þar sem tekið er tillit til styttri endingartíma jarðstrengja og ýmissa annarra rekstrarlegra atriða, til viðbótar mati á hreinum stofnkostnaði. Þá er nauðsynlegt að halda því til haga að mikill munur á stofnkostnaði er fyrst og fremst í spennuhærri línum, svo sem 220 og 400 kV og hefur í skýrslum Landsnets fyrr á tíð verið rætt um allt að 25-faldan verðmun.

Stöðugt verið að kanna verð

Steinunn segir að Landsnet hafi ávallt byggt kostnaðaráætlanir fyrir verk á bestu fáanlegu upplýsingum á hverjum tíma. Við mat á jarðstrengjum var lengi byggt á erlendum reynslutölum um hlutfallslegan kostnað jarðstrengs og loftlínu. „Frá 2008 hefur Landsnet skipulega leitað eftir reynslutölum annarra raforkuflutningsfyrirtækja um kostnað við jarðstrengslagnir auk upplýsinga frá framleiðendum. Reynslan hefur sýnt að verð á jarðstrengjum hefur lækkað á þessum tíma og þá sérstaklega verð á 220 kV strengjum,“ segir Steinunn. Þess ber þó að geta að innkaupsverð strengjaefnis er innan við helmingur af kostnaði við lagningu jarðstrengs. Hún bendir á að Landsnet hafi lagt talsvert af jarðstrengjum á undanförnum árum og náð góðum árangri við að ná niður kostnaði, bæði við innkaup á strengjum og við jarðvinnu ásamt vinnu við lagningu strengja.

Að auki hefur í ákveðnum samanburðarathugunum verið gert ráð fyrir tveimur strengjasettum strax á móti einni loftlínu vegna takmarkana á flutningsgetu. Það var til dæmis gert í upphaflegum samanburði fyrir Suðvesturlínur. Kostnaður nánast tvöfaldast við að fara úr einu strengjasetti í tvö, samkvæmt upplýsingum Steinunnar.

Þá viðheldur Landsnet verðgrunni fyrir loftlínur. Byggir hann á nýlegum tilboðum og verðfyrirspurnum. Steinunn segir að reynslan af nýlegum útboðum hér á landi sýni að verð frá erlendum efnisframleiðendum hafi verið að lækka ásamt því að hagstæðir samningar hafi náðst við verktaka við að reisa loftlínur.