Eyjólfur Guðmundsson fæddist í Reykjavík 18. júlí 1934. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 14. október 2016.

Foreldrar hans voru hjónin Ólöf Jóhannesdóttir, f. 1. nóvember 1891, d. 15. september 1984, og Guðmundur Ragnar Jóelsson, f. 13. júlí 1877, d. 13. maí 1940. Eyjólfur átti fjórar eldri systur. Elst var Ellen Sæunn, f. 25. apríl 1923, d. 22. ágúst 2003, Ingibjörg Jóhanna, f. 5. október 1925, d. 30. janúar 2015, Sigrún, f. 21. mars 1927, og Ágústa Ólöf, f. 29. mars 1930, d. 28. júní 2012.

Þann 24. september 1960 kvæntist Eyjólfur eftirlifandi eiginkonu sinni, Ragnhildi Ásmundsdóttur, f. 17. ágúst 1936. Eyjólfur og Ragnhildur eignuðust þrjú börn. 1. Ragna, f. 1. júní 1963, maki hennar er Kristján Ólafsson, f. 11. ágúst 1961. Börn þeirra eru Eydís Arna, f. 24. júlí 1987, sambýlismaður hennar er Diðrik Steinsson, f. 13. janúar 1983, og eiga þau tvíburana Kristrúnu Áróru og Huga Stein, f. 5. október 2011; Daníel Karl, f. 16. júní 1990, hann á dótturina Katrínu Mirru, f. 18. mars 2012; Ragnhildur Sandra, f. 29. apríl 1995. 2. Guðmundur Árni, f. 18. nóvember 1967, maki hans er Heiða Dögg Helgadóttir, f. 8. mars 1972. Börn þeirra eru Andri Geir, f. 23. maí 1996, Aníta Ýr, f. 27. nóvember 1998 og Sara Lind, f. 21. júlí 2003. 3. Hildur Björg, f. 18. ágúst 1972, maki hennar er Árni Sigmar Rúnarsson, f. 1. júní 1969. Börn þeirra eru Heiðar Ingi, f. 25. ágúst 1993, sambýliskona hans er Aldís Björk Óskarsdóttir, f. 20. júlí 1991, sonur hennar er Daníel Breki, f. 30. nóvember 2012; Hilmir Örn, f. 20. mars 1999; Guðrún Ragna, f. 30. september 2004.

Eyjólfur lauk verslunarskólaprófi 1954 og lærði í framhaldi endurskoðun hjá Birni Steffensen og Ara Thorlasíus. Löggildingu til endurskoðunar fékk hann 1966. Eftir það vann hann sjálfstætt og gerði alla tíð þar til í júní 2016.

Útför hans fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 24. október 2016, klukkan 15.

Pabbi hefur fengið hvíldina. Hann lést eftir skammvinn en erfið veikindi. Það er skrítið að hann pabbi skuli ekki vera lengur með okkur en lífið heldur víst áfram þótt einn vanti. Foreldrar mínir voru gift í 56 ár og áttu góð ár saman. Fallegt samband var á milli þeirra og aldrei brestur. Pabbi vann mikið alla tíð og til að vera með okkur tók hann okkur með sér í vinnuna. Af okkur systkinunum vildi hann kannski síst hafa mig á skrifstofunni, ég skildi aldrei af hverju allt þurfti að vera í möppum og öllu var raðað á skrifborðinu og í skúffunum. Ég rótaði í dótinu hans og fiktaði í vélum og tækjum. Hann sagði held ég við mig á hverju ári eftir að ég fullorðnaðist hvort hann ætti ekki að gefa mér möppu undir pappírana mína fyrir skattframtalið því ég kom alltaf með allt í einni hrúgu. Pabbi var húmoristi sem lét okkur hlæja fram á síðasta dag. Honum leið best í faðmi fjölskyldunnar og best þótti honum að hafa barnabörnin hjá sér og svo seinna langafabörnin. Börnin mín sakna elsku afa síns mikið. Pabba þótti gaman að ferðast og fannst ómissandi að fara með barnabörnin í smá ferðalag að sumri til. Að fara á hótel með ömmu og afa var mjög spennandi. Pabba þótti gott að fara í frí til heitra landa og fórum við oft að sumri til saman til útlanda og svo fóru hann og mamma tvö saman seinni árin. Á seinasta ári fórum við systur með mömmu og pabba til New Jersey þar sem pabbi hitti systur sína og fjölskyldu hennar sem hann hafði ekki hitt í mörg ár. Í dag eru þetta ómetanlegar minningar.

Ég vona innilega að elsku pabba líði vel núna þar sem hann er laus við sjúkdóminn sinn og þreytuna. Ég mun alltaf hafa hann í hjarta mínu og ylja mér við fallegar minningar um góðan pabba og dásamlegan afa.

Sé þig...

Hildur Eyjólfsdóttir.

Elsku pabbi minn er farinn frá okkur. Rólegri og yndislegri mann er vart hægt að hugsa sér. Ævistarfið sem hann valdi sér var líka í takt við hans persónu þar sem þurfti yfirvegun og nákvæmni. Pabbi vann alltaf mikið, var einyrki með eigin rekstur. Við krakkarnir fengum samt að vera mikið með honum á skrifstofunni og „vinna“ og eftir að barnabörnin fæddust fengu þau líka að fylgja afa á skrifstofuna. Þegar ég varð eldri fékk ég svo að hjálpa honum að færa dagbækur og aðalbækur og svo fékk ég að færa á stóru bókhaldsvélina með spjöldunum. Pabbi vélritaði samt alltaf allt á gömlu ritvélina sína okkur til mikillar furðu því manni fannst alltaf að puttarnir myndu festast á milli takkanna, en vá hvað hann var snöggur að vélrita. Hann hélt mikið upp á barnabörnin sín og eftir að þau fæddust fóru mamma og pabbi að taka þau tvö og þrjú stykki í einu í sumarfrí í nokkra daga innanlands og gistu þá á hótelum um landið. Þetta þótti nú krökkunum flott því þau voru bara vön tjaldútilegum. Alltaf var hann tilbúinn til að skutla eða sækja hvern sem var, bóngóður með eindæmum hann pabbi minn. Veikindin komu snöggt í sumar. Þá fór hann að tala um að hann væri svo latur að hann nennti ekki að vinna. Það var mjög óvenjulegt því pabbi nennti alltaf að vinna. En lifrarkrabbi er lúmskur ferðafélagi. Við áttum samt góðar stundir í sumar og fórum til Vestmannaeyja öll þegar hann átti afmæli, hann þreyttur en glaður. Nú sitjum við eftir þakklát fyrir allt sem hann skildi eftir sig. Gott lífshlaup er á enda og góður maður hefur fengið hvíld.

Elsku pabbi, takk fyrir allt.

Þín

Ragna.

Elsku afi Eyi.

Við krakkarnir vorum svo heppin að fá að alast upp með þér fram á fullorðinsár. Við munum svo vel að á skrifstofunni þinni á Laugaveginum var mest spennandi að vera, pikka á gömlu ritvélina, skoða landakortið með þér og svo miklu fleira, alltaf fengum við að vinna líka. Við munum öll eftir afakæfu og hvernig þú skarst svið í hádeginu, hversu svalt var að spýta augasteininum út? Af þolinmæði og ró kenndir þú öllum barnabörnunum mannganginn og varst alltaf til í að draga fram taflmennina, oftast leyfðir þú okkur samt að vinna. Einstaklega rólegur en þó alltaf til í gleði. Við munum alltaf muna góða lexíu sem þú kenndir okkur: „Who cares, maður?“ Til hvers að gera of mikið úr litlu hlutunum sem skipta í raun ekki máli? Það gerðir þú nú aldrei.

Við elskum þig, afi. Takk fyrir allt.

Eydís, Daníel og Ragnhildur.

Elsku afi minn hefur kvatt okkur eftir stutt en erfið veikindi, ég á eftir að sakna hans mjög en ég veit að hann er á góðum stað. Afi var einn af mínum bestu vinum og mér fannst fátt betra heldur en að vera hjá honum og ömmu að bíða eftir að fiskibollurnar yrðu tilbúnar, fara í keppni hver gæti borðað flestar bollur og fara svo út í sjoppu að kaupa nammi og vindil. Amma gaf mér um daginn Lúllabækurnar sem hann las alltaf fyrir mig áður en við fórum með faðirvorið fyrir svefninn. Við horfðum líka oft á glímukeppnir í sjónvarpinu og það var algjört sport fyrir mig að fá að vaka lengur með afa. Mjög oft fengum við Danni frændi líka að fara með honum á skrifstofuna og ég skil ekki enn þá hvernig hann fór að því að vinna með allan þennan hávaða í tveimur litlum pjökkum vera að ljósrita á sér andlitið í ljósritunarvélinni. Hann var mjög fyndinn og var oft mikið hlegið í hans návist. Afi var mikill fjölskyldumaður, gerði allt fyrir sitt fólk og er hann mín stærsta fyrirmynd. Ég get aldrei þakkað honum nóg fyrir allt sem hann gerði fyrir mig og minningarnar sem ég á með honum eru ómetanlegar. Ég veit að hann situr í þægilegum stól með appelsín og tópas að fylgjast með mér og passa upp á mig og mína nánustu.

Takk fyrir mig, elsku besti afi Eyji. Ég passa upp á ömmu fyrir þig.

Heiðar Ingi Árnason.

Elsku besti afi minn.

Sú tilhugsun að þú sért fallinn frá er hrikalega erfið. Mér þykir það afskaplega leitt að hafa ekki getað kvatt þig á þínum síðustu stundum, en þó þú sért fallinn frá, þá verður þú alltaf með okkur. Þín mun verða minnst í gleði en ekki sorg. Minningar okkar munu lifa að eilífu, til dæmis Spánarferðin 2005 og Danmerkurferðin 2006. Ég er afskaplega þakklát fyrir allt sem þú hefur kennt mér. En að lokum vil ég lofa þér einu, að við munum öll saman passa ömmu rosalega vel. Ég elska þig og mun sakna þín rosalega mikið.

Þín

Aníta Ýr.

Elsku afi.

Ég mun aldrei gleyma því augnabliki þegar mamma hringdi í mig og sagði mér að þú værir dáinn. Ég var staddur ásamt vini mínum á hótelherbergi í Liverpool, ég veit samt vel að þú varst hjá mér allan tímann og huggaðir mig. Ég hitti þig daginn áður og þykir mér mjög vænt um þessa síðustu stund okkar saman.

Ég minnist allra góðu og skemmtilegu stundanna sem við áttum saman. Þegar við fórum saman til Spánar og Danmerkur. Heimsóknirnar til þín og ömmu á Hjarðarhagann, sitja hjá þér í litla vinnuherberginu og fylgjast með þér vinna. Það er erfitt að hugsa til þess að þú verðir ekki með okkur um jólin, í afmælum og á gamlárskvöld. Þú varst yfirleitt sá fyrsti sem ég settist hjá og talaði við þegar við hittumst, þú spurðir mig ávallt hvernig gengi í skólanum og ég man að á síðasta gamlárskvöldi töluðum við um að þegar næsta gamlárskvöld yrði þá ætti ég aðeins eina önn eftir og svo yrði ég stúdent. Það plan er á réttri braut og þú verður við hlið mér það sem eftir er skólagöngunnar.

Ég veit að nú ertu kominn á góðan stað hjá pabba þínum og mömmu og systrum þínum. Ég hlakka til að hitta þig aftur og þá tökum við tafl saman.

Andri Geir.

Afi Eyji féll frá sl. föstudag eftir erfið veikindi. Ég man eftir að vera í stofunni á Hjarðarhaganum að horfa á Planet Earth með afa. Ég sitjandi í sófanum með ömmu hægra megin við mig og afa vinstra megin í hægindastólnum sínum. Einnig man ég eftir þegar ég og afi tefldum. Hann kenndi mér mannganginn og gaf mér bók sem heitir Skák og mát og í þeirri bók kenna Mikki Mús, Andrés Önd og restin af Disney-liðinu þér að tefla. Ég og afi fórum í gegnum þessa bók og lærðum nýja tækni um skák. Ég man eftir að vakna heima hjá ömmu og afa og amma var búin að elda hafragraut handa mér og afa. Sviðakjammar hjá afa voru alltaf bestir og það var mikil hefð þegar ég og bróðir minn fengum sviðakjamma og rifumst um hver myndi fá að borða augað en afi tók hnífinn sinn og skar augað í tvennt svo að við báðir fengum að borða það. Einnig var gott að fá afakjúlla eins og við köllum það sem var grillaður kjúklingur sem var keyptur í Melabúðinni. Um kaffileytið fórum við oft í bakaríið á horninu og keyptum okkur eitthvað gott. Afi var frábær maður og jafnvel enn betri afi. Hann var mikill fjölskyldumaður og allir sem þekktu hann sakna hans óendalega mikið. Ég veit að þú ert á betri stað núna og vona að þér líði vel hvar sem þú ert. Ég mun sakna þín, elsku afi.

Hilmir Árnason.

Mér er ljúft og skylt að minnast móðurbróður míns, Eyjólfs Guðmundssonar, sem látinn er eftir skammvinn veikindi 82 ára að aldri. Eyji, eins og hann var jafnan kallaður, var yngsta barn og eini sonur móðurforeldra minna, Ólafar Jóhannsdóttur og Guðmundar Ragnars Jóelssonar, sem eignuðust fimm börn. Amma varð ekkja þegar Eyji var á sjötta aldursári og móðir mín, næstyngst, á því tíunda. Ellen var elst og þá 16 ára. Með dugnaði og elju, ásamt stuðningi ættingja og vina, tókst ömmu að halda hópnum saman og koma börnum sínum vel á legg. Heimili þeirra var á Ránargötu 5 en það hús höfðu afi og amma látið byggja. Einnig bjó hjá þeim föðursystir afa, Árnína Elín. Það reyndist skipta sköpum að geta leigt út hluta hússins þegar fyrirvinna heimilisins féll frá.

Í útliti var Eyji ljós yfirlitum, hávaxinn og grannur. Framkoma hans einkenndist af rólyndi og yfirvegun. Hann var þægilegur og hlýr í samskiptum, hógvær og lagði ekki í vana sinn að gera mikið úr hlutunum. Eyji hafði góða kímnigáfu og jafnvel í alvarlegum veikindum sínum átti hann til skondin tilsvör sem kölluðu fram bros og léttu andrúmsloftið. Að kvarta var ekki hans stíll, æðruleysi var honum eiginlegt.

Fyrstu minningar mínar tengdar frænda eru frá Ránargötunni. Ég var hænd að ömmu minni og gisti oft um helgar hjá henni. Þá var spennandi að fara niður á neðri hæðina til Eyja og Ragnhildar, sem bjuggu þar fyrstu búskaparárin sín, og horfa á sjónvarpið með þeim. Mér til ómældrar ánægju skrapp Eyji þá út í nærliggjandi sjoppu og kom til baka með góðgæti. Mér fannst ég vera fordekruð.

Ræktarsemi einkenndi samskipti Eyja við ömmu og honum var annt um hag hennar. Eyji sá um ýmsar útréttingar fyrir hana sem hún kunni vel að meta. Hitti ég hann ósjaldan í eldhúsinu hjá ömmu, hann hafði oftar en ekki skroppið út í búð fyrir hana. Kærleikur var einnig milli systkinanna og þá sérstaklega hans og mömmu enda lík að mörgu leyti. Þrjár eldri systurnar fluttust búferlum til Bandaríkjanna. Þær héldu allar góðum tengslum við fjölskylduna á Íslandi. Alltaf var glatt á hjalla og mikið hlegið þegar systkinin komu saman og rifjuðu upp gamla tíma. Sigrún lifir systkini sín.

Eyji var menntaður í endurskoðun og starfaði í sínu fagi alveg fram að veikindum sínum. Persónugerð hans kom þar að góðu gagni þar sem nákvæmni og eftirtekt skipta máli. Enda var það svo að viðskiptamenn hans héldu áratuga tryggð við hann vegna þeirrar góðu þjónustu sem hann veitti þeim. Hann kvaddi sáttur við sitt dagsverk. Eyji var góður skákmaður og tefldi gjarnan við Kristin, náfrænda sinn og vin.

Í einkalífi sínu var Eyji gæfumaður og eignaðist þrjú börn með Ragnhildi, konu sinni. Afkomendurnir eru margir, stolt þeirra og prýði. Fjölskyldan er samhent og ferðaðist allur hópurinn oft saman, bæði innanlands og utan. Þau stóðu sem klettur við hlið Eyja þar til yfir lauk. Þeirra er missirinn mestur. Fjölskylda mín sendir þeim innilegustu samúðarkveðjur. Ég kveð góðan dreng og „litla bróður mömmu“ með virðingu og þakklæti fyrir góð kynni.

Ólöf Jónsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku afi Eyi, þú varst góður maður og varst tilbúinn að gera allt fyrir fjölskyldu þína. Það var alltaf gott að koma á Hjarðarhagann og fá harðfisk og hafragraut með rjóma hjá þér og ömmu. Það er erfitt að sætta sig við það að þú sért farinn en þú munt alltaf vera í hjarta mínu.
Ég á eftir að sakna þín óendanlega mikið.
Ég elska þig.
Sara Lind
Guðmundsdóttir.

„Allir dánu konurnar og mennirnir geta teygt sig upp í tunglið.“
– Hugi Steinn

„Tunglið er að elta okkur, kannski eru allir sem eru dánir að færa það til okkar. Takk, afi Eyi!“
– Kristrún Áróra.

Kveðja frá barnabarnabörnum,
Hugi Steinn Eydísar-Diðriksson, Kristrún Áróra Eydísar-Diðriksdóttir.