Talsverðar skemmdir urðu í fyrrinótt þegar eldur kom upp í efnafræðistofu í VR-1 við Hjarðarhaga í Reykjavík, sem er ein af byggingum raunvísindadeildar Háskóla Íslands. Það var á fimmta tímanum um nóttina sem tilkynning barst frá öryggisverði og voru slökkvilið og lögregla fljót á vettvang. Mikill viðbúnaður var hafður, því í þessari byggingu eru ýmis eldfim og hættuleg efni sem er notuð til kennslu og rannsókna. Sprengingar og eldtungur mættu reykköfurum þegar þeir komu á vettvang, en stofan þar sem eldurinn kom upp er á 2. hæð byggingarinnar. Skaðinn var þó ekki alvarlegur, því efnin voru í sérútbúnum öryggisgeymslum og slökkvistarf var fumlaust. Því lauk um klukkan sex um morguninn en varðstaða var á vettvangi nokkru lengur.
Allri kennslu sem vera átti fram í VR-1 í dag hefur verið aflýst, enda þykir ljóst að verk sé fyrir höndum að koma öllu í samt lag aftur. Fulltrúar tryggingafélags hafa komið á staðinn til að leggja mat á skaðann og lögregla kannar eldsupptökin.
„Þetta er töluvert fjárhagslegt tjón. Við verðum að leggja niður kennslu í þessu húsi í það minnsta þar til vitað er hvernig í málinu liggur. Það verður ekki kennt þessa vikuna, held ég,“ segir Oddur Ingólfsson, forseti raunvísindadeildar HÍ, í samtali við mbl.is Almennt telur hann að í eldsvoða þessum hafi þó farið betur en útlit var fyrir í upphafi. sbs@mbl.is