Færi Dagný Brynjarsdóttir er hér í góðu færi í tapleiknum gegn Dönum í Chongqing á laugardaginn.
Færi Dagný Brynjarsdóttir er hér í góðu færi í tapleiknum gegn Dönum í Chongqing á laugardaginn. — Ljósmynd/KSÍ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landsliðið Hjörvar Ólafsson hjorvaro@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu laut í lægra haldi, 1:0, fyrir Danmörku þegar liðin mættust í vináttulandsleik á Yongchuan-vellinum í Chongqing í Kína.

Landsliðið

Hjörvar Ólafsson

hjorvaro@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu laut í lægra haldi, 1:0, fyrir Danmörku þegar liðin mættust í vináttulandsleik á Yongchuan-vellinum í Chongqing í Kína. Johanna Rasmussen, fyrrverandi leikmaður Vals, skoraði sigurmark Danmerkur.

Leikurinn var liður í Sincere Cup, sem íslenska liðið tekur þátt í þessa dagana, en auk Íslands og Danmerkur taka Kína og Úsbekistan þátt í mótinu. Ísland gerði 2:2 jafntefli gegn Kína á fimmtudaginn síðastliðinn á meðan Danmörk lagði Úsbekistan að velli með tveimur mörkum gegn einu.

Íslenska liðið getur tekið marga jákvæða hluti úr leiknum þrátt fyrir að hafa beðið ósigur í leiknum. Leikmenn íslenska liðsins héldu boltanum vel í leiknum og sköpuðu sér tvo upplögð marktækifæri áður en Danmörk skoraði markið sem skildi liðin að.

Leikmyndin þegar Ísland og Danmörk hafa mæst í gegnum tíðina hefur alla jafna verið þannig að Danir hafa verið meira með boltann og íslenska liðið verið í hlutverki þess sem verst og beitir síðan skyndisóknum. Það er enn eitt merki um jákvæða þróun á leik íslenska liðsins að liðið hafi á löngum köflum stýrt þessum leik og náð að halda boltanum vel innan liðsins og skapa sér oft og tíðum stöður til þess að skapa sér góð færi.

Mikil breidd í leikmannhópnum

Freyr Alexandersson og Ásmundur Guðni Haraldsson gerðu sjö breytingar á byrjunarliði íslenska liðsins frá jafnteflinu gegn Kína. Sandra Sigurðardóttir, Elísa Viðarsdóttir, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, Katrín Ómarsdóttir, Svava Rós Guðmundsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir komu inn í byrjunarliðið.

Guðbjörg Gunnarsdóttir, Sif Atladóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Dóra María Lárusdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir fengu sér hins vegar sæti á varamannabekk íslenska liðsins.

Það sýnir þá breidd sem íslenska liðið hefur á að skipa að liðið geti gert svo miklar breytingar á liði sínu án þess að það bitni á spilamennsku liðsins.

Aðstæður voru afar erfiðar til þess að spila fótbolta í Chongqing á laugardaginn og hafði það nokkuð mikil áhrif á spilamennsku liðanna.

„Leikurinn bar þess keim að aðstæður voru mjög erfiðar og bæði lið höfðu eytt mikilli orku í fyrsta leik sinn í mótinu. Leikmenn beggja liða geta leikið mun betur en þeir gerðu í þessum leik,“ sagði Freyr um spilamennsku íslenska liðsins.

„Danska liðið hefur alla jafna verið meira með boltann og sótt mikið á okkur í fyrri leikjum liðanna. Það er jákvæð þróun að við stýrðum leiknum, héldum boltanum vel innan liðsins gegn danska liðinu og settum góða pressu á þær. Það vantaði bara að reka smiðshöggið á góðar sóknir okkar. Það er hins vegar margt jákvætt sem við getum tekið út úr þessum leik,“ sagði Freyr enn fremur um frammistöðu íslenska liðsins.