Meginreglan er sú að notast er við loftlínur í meginflutningskerfi raforku. Það er línan í stefnu stjórnvalda um val á aðferðum við flutning raforku sem fram kemur í ályktun Alþingis frá því á síðasta ári.
Undantekningar frá meginreglunni felast í línuleiðum í þéttbýli, innan verndaðs friðlands eða þjóðgarða eða við flugvelli. Þá skal leggja jarðstreng ef það er talið tæknilega mögulegt. Síðan bætist við það skilyrði í hluta dæmanna að kostnaður við jarðstreng sé ekki meira en tvöfalt meiri en við loftlínu.
Ljóst virðist að þessi undanþáguákvæði eiga ekki við um þau verkefni sem komin eru á eða að framkvæmdastigi og mikið eru umrædd um þessar mundir, Suðurnesjalínu 2 og Bakkalínur í Þingeyjarsýslu.