Sigurður Sigurðsson
Sigurður Sigurðsson
Eftir Sigurð Sigurðsson: "Nýr meirihluti á Alþingi þarf strax að leiðrétta allt ranglætið og skekkjurnar í samfélaginu."

Um 40% þingmanna hætta á þingi eftir kosningarnar 29. október nk. og inn koma nýir og ferskir einstaklingar til að takast á við þingstörfin. Það hlýtur að vera spennandi fyrir alla þessa nýju þingmenn að koma inn á íslenska þingið sem hefur sérstöðu meðal þjóðþinga. Ráðherrar sitja beggja vegna borðsins sem þingmenn annars vegar og hins vegar ráðherrar, æðstu handhafar framkvæmdavaldsins. Formenn flokka veikja lýðræðið með áhrifum sínum á lagasetningar í krafti ofurvalds foringjans.

Gríðarleg velmegun hefur orðið í samfélaginu vegna aukningar í ferðaþjónustunni sem veltir nokkur hundruð milljörðum á ári. Aukin aflabrögð á fiski, sem kom óvænt inn í landhelgina, hafa búið til mikla fjármuni. Hin séríslenska verðtrygging hefur ótakmarkað fært fjármuni fyrirhafnarlaust frá almenningi og fyrirtækjum til fjármálageirans.

Hagnaður bankanna var um 80 milljarðar árið 2014, þar af um 30 milljarðar í þjónustugjöld, og greiddu þeir ríkissjóði um 25 milljarða arðgreiðslur umfram áætlanir 2016. Heildartekjur ríkissjóðs eru nú áætlaðar um 1.100 milljarðar, um 70 milljarða umfram væntingar. Fimm stærstu útgerðirnar, sem eru með um þriðjung aflaheimilda í landinu, skiluðu um 27 milljarða hagnaði 2014. Það er nánast sama hvar drepið er niður að allir þessir aðilar sem halda á efnahagslegum örlögum Íslendinga, ríkið, bankarnir, útgerðirnar og ferðaþjónustan o.fl. eru allir að raka saman gríðarlegum fjármunum.

Í þessu ástandi þar sem nóg virðist af peningum er efnahagur hins almenna borgara bágborinn og sérstaklega er eldri borgurum og öryrkjum gert að lifa á framfærslu undir hungurmörkum enda með framfærslugreiðslur langt undir lágmarks framfærslukostnaði sem er reiknaður út af opinberum aðilum.

Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara fyrir einstakling er í dag kr. 134 þúsund á mánuði fyrir mat, fötum og lækniskostnaði en án húsnæðiskostnaðar meðan velferðarráðuneytið gerir ráð fyrir kr. 222.764 framfærslukostnaði fyrir einstakling á mánuði án húsnæðiskostnaðar.

Í viðbót við þessar hörmungar þeirra sem minnst mega sín er heilbrigðis- og almannatryggingakerfið í heild sinni ásamt menntakerfinu allt gríðarlega fjársvelt á sama tíma og fjármála- og auðlindakerfið ásamt lífeyrissjóðakerfinu er allt látið vinna gegn hagsmunum almennings. Þessir helstu örlagavaldar á högum almennings eru allir til samans samstilltir í að draga úr eða halda niðri hagsæld og lífsgæðum almennings í landinu og halda öryrkjum og ellilífeyrisþegum undir hungurmörkum.

Í umsögn Öryrkjabandalagsins 14. september 2016 um breytingu á lögum um almannatryggingar kemur fram að ellilífeyrisþegi fái í dag útborgað kr. 161.398 en talan eigi að lækka samkvæmt nýja frumvarpinu í kr. 123.451 meðan framfærsluviðmið TR er kr. 246.902. Frumvarpið á sem sagt í miðju góðærinu að auka mínusinn hjá þeim verst settu úr kr. 85.504 á mánuði í kr. 123.451 á mánuði. Er hægt að ganga lengra í að níðast á öryrkjunum í miðju góðærinu?

Allt þetta almannatryggingakerfi virðist vera helsjúkt og er langt frá því að standa undir nafni hjá landi eins og okkar en samkvæmt rannsókn OECD 2011 var Ísland í öðru sæti yfir tíu efstu velmegunarþjóðir heims.

Það er eitthvað mikið bogið við þetta allt saman þar sem staðreyndir sýna að íslensk yfirvöld koma mjög illa fram við eldri borgara og öryrkja efnahagslega auk þess sem almannatrygginga- og heilbrigðiskerfið er gríðarlega undirfjármagnað og í engu samræmi við aukna hagsæld í samfélaginu. Nýtt almannatryggingafrumvarp virðist gera ráð fyrir meiri skerðingum á bótum til öryrkja og eldri borgara eftir því sem hagurinn batnar hjá ríkinu.

En það eru ekki bara eldri borgarar og öryrkjar sem kvarta í peningaflóðinu. Undanfarið hafa verið birtar margar blaðagreinar þar sem fjallað er um aðstæður fólks til dæmis við að kaup á fyrstu íbúð. Það sem fólki er boðið upp á er að taka verðtryggð lán til 40 ára – svokölluð Íslandslán – sem þekkjast hvergi nema á Íslandi – enda er upphæð á endurgreiðslu þessara lána allt upp í fjórfalt til fimmfalt það sem fólk fékk lánað miðað við 4% verðbólgu. Helstu úrræði fyrir fólkið er að flytja á þau svæði á landinu sem eru með ódýrt húsnæði og mikið skerta atvinnumöguleika – eða þá að flytja til útlanda.

Í tveimur nýlegum blaðagreinum er fjallað um þegnskyldu- og þrælavinnu almennings vegna verðtryggingar- og vaxtaokursins og að allir þegnarnir séu þrælar kerfisins enda sér verðtryggða krónuhagkerfið um að flytja alla fjármuni frá fólki og fyrirtækjum til fjármálastofnana og fjármagnseigenda sem oftar en ekki sitja sjálfir í valdamiklum embættum eða hafa ítök inni í kerfinu og passa að ekki sé hróflað við fjárstreyminu í vasa þeirra.

Það er búið er að koma öllu kerfinu í heild í það form að hagur almennings er sniðgenginn í samfélaginu meðan peningarnir og auðlindirnar virðast flæða í vasa hinna ríku og með töfrabrögðum látnir flæða fram hjá fólkinu án þess að eðlilegt hlutfall teknanna séu skattlagðir til að halda uppi samfélaginu.

Nýr meirihluti á Alþingi þarf að fara beint í að leiðrétta allt ranglætið og skekkjurnar í samfélaginu.

Höfundur er BSc. MPhil. byggingaverkfræðingur.

Höf.: Sigurð Sigurðsson