Þessi var laugardagsgátan: Svöngum hún saðningu veitir. Gegn sársauka fingur ver. Flakkandi fór hún um sveitir. Fuglinn þar unir sér. Svo mörg og góð svör bárust að þessar vísur eftir Árna Blöndal á Sauðárkróki komust ekki fyrir: Drangeyjar minning.

Þessi var laugardagsgátan:

Svöngum hún saðningu veitir.

Gegn sársauka fingur ver.

Flakkandi fór hún um sveitir.

Fuglinn þar unir sér.

Svo mörg og góð svör bárust að þessar vísur eftir Árna Blöndal á Sauðárkróki komust ekki fyrir:

Drangeyjar minning.

Á hörðum vorum hungruð þjóð

höfði draup og féll til jarðar,

þá mærðu Drangey menn og fljóð

„Mjólkurkúna Skagafjarðar“.

BJÖRG.

Þá var fugl á fleka seiddur

fyrsta björgin nýja ketið,

úr fjörunni var fiskur veiddur

og fyrn af eggjum líka étið.

Á fimmtudag heilsaði Páll Imsland Leirliði „undir svefninn eða þá í býtið í fyrramálið ef svo vill verkast“:

Við flytjum út garg hátt og gól

og giggum í dragg-síðum kjól

svo framtíðin vor

er feiknagott skor

og umsagnir allar topp-hól.

Veður voru válynd fyrir helgi. Ingólfur Ómar orti:

Kveina vindar kólnar tíð

kul að taugum setur.

Kemur brátt með krap og hríð

kaldur róstu vetur.

Á þriðjudaginn voru átta limrur í Vísnahorni um Hróðnýju, Arnhildi gömlu og fleiri fraukur. Eftir að Helgi R. Einarsson hafði lesið allar limrurnar í horninu varð þessi til:

Rögnvaldur ræfilsgreyið.

Fannst í rúminu að sér vegið

þegar Sigríður ljóta

sagði til fóta.

„Allt er í harðindum heyið.“

Gunnar J. Straumland birtir veðurlýsingu – „áttstiklaða“:

Úfinn særinn ögur slær,

áfram færir bárur nær,

öllum bærum árum rær,

æstur hlær nú sunnanblær.

Morgunhæsi meyrir dæs,

miður kræsilegt er ræs.

Um mig væsir, vindur blæs,

vekur þræsing lægðarfnæs.

Það eru nýir og breyttir tímar – Hjálmar Freysteinsson yrkir á Boðnarmiði:

Sem keppinautar þeir komu inn

í kvikmyndahús fyrir skömmu.

Þá fór annar að hata hinn

og hætti að kall ´ann mömmu.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is