Kemur heim Arna Ýr Jónsdóttir hætti við þáttöku í fegurðarsamkeppni sem fram fer annað kvöld.
Kemur heim Arna Ýr Jónsdóttir hætti við þáttöku í fegurðarsamkeppni sem fram fer annað kvöld. — Morgunblaðið/Eggert
Fegurðardrottningin Arna Ýr Jónsdóttir hefur hætt við þátttöku sína í keppninni Miss Grand International í Las Vegas sem fram fer annað kvöld.

Fegurðardrottningin Arna Ýr Jónsdóttir hefur hætt við þátttöku sína í keppninni Miss Grand International í Las Vegas sem fram fer annað kvöld. Fram hefur komið í fjölmiðlum að eigandi keppninnar vildi að Arna Ýr grennti sig fyrir úrslitakvöldið en hún neitaði að taka því. „Eigandinn er búinn að segja að ég hefði átt að vinna keppnina og það hefði átt að krýna mig. Þeir vildu bara hafa mig sem flottasta þegar ég væri krýnd. Umboðsmaðurinn sem sendi mig út sagði að ég ætti bara að mæta á sviðið, fá kórónuna og 40 þúsund dollara. Þeir halda virkilega að þeir geti mútað mér með peningakórónu en það virkar ekki þannig,“ sagði Arna Ýr í samtali við mbl.is í gær.

Frábær fyrirmynd

Fanney Ingvarsdóttir, einn skipuleggjenda keppninnar Ungfrú Ísland, er yfir sig hissa yfir ummælum eiganda keppninnar. Hún segir viðbrögð Örnu Ýrar til fyrirmyndar. „Hún er frábær fyrirmynd fyrir ungar stelpur um að láta ekki bjóða sér einhverja vitleysu.“ Segir Fanney að fegurðarsamkeppnir séu mjög misjafnar eftir því hvar í heiminum þær eru haldnar og kröfur og reglur ólíkar. Hún hafi sjálf keppt í fegurðarsamkeppnum en aldrei kynnst því sem Arna Ýr hafi upplifað. „Stelpurnar hér á Íslandi fara upp á svið nákvæmlega eins og þær vilja og engar kröfur eru gerðar á þyngd eða útliti keppenda. Allur undirbúningurinn hjá okkur snýst um að byggja upp sjálfstraust stelpnanna,“ segir Fanney.