Það felst mikill lærdómur í viðbrögðum valdhafa í Brussel við þjóðarákvörðun Breta

Eins og allir vita hafa búrókratar í Brussel og klapplið þeirra um álfuna talið það óskráða reglu að svari kjósendur „rangt“ í þjóðaratkvæði skuli kjósa aftur og eftir þörfum þar til rétt niðurstaða fæst. Engum datt þó í hug að slík sjónarmið yrðu viðruð varðandi atkvæðagreiðslu um brottför Bretlands úr ESB.

Bretar höfðu beðið atkvæðagreiðslunnar í nærri hálfa öld. En nú hafa ýmsir, og þar með talinn Tony Blair, rökstutt það að 48 prósentin sem vildu vera kyrr eigi rétt á annarri atkvæðagreiðslu. Telur einhver að þetta hefðu einnig verið rök Blair ef niðurstaðan hefði orðið önnur?

Sumir helstu forystumenn ESB segja það upphátt og opinberlega að Bretar verði að fá afleitan útgöngusamning svo aðrir vilji ekki út í kjölfarið. Þá er einnig tekið við að blása nýju lífi í hræðsluáróðurinn sem dugði svo illa í atkvæðagreiðslunni. Það má vera undarlegt fyrir önnur ríki, sem inni eru, að verða vitni að þessu. Bretland er eitt helsta viðskipta- og herveldi Evrópu og með efnahagsleg sambönd um allan heim. Þó telja þeir sem ánetjast hafa trúnni á Stór-Evrópu að rétt sé að reyna hvort kúga megi Breta með hótunum og áróðri til að falla frá ákvörðun þjóðarinnar. Menn geta rétt ímyndað sér hvernig smærri ESB-þjóðir yrðu meðhöndlaðar, svo ekki sé talað um „örþjóð“, eins og íslenskir ESB-sinnar nefna þá íslensku gjarnan, hefði hún verið plötuð inn.

Hitt er svo hrópandi hve litla trú menn hafa á ágæti verunnar í ESB að þeir telja að beita verði þjóðir hörðu og hafa í hótunum til að þær fari ekki út.