Stella Jóhannsdóttir fæddist í Gunnólfsvík á mörkum Norður-Múlasýslu og Norður-Þingeyjarsýslu 6. desember árið 1938. Hún lést á líknardeild Landspítalans 10. október 2016.

Foreldrar hennar voru Jóhann Sigurður Jón Frímannsson frá Gunnólfsvík, f. 14. mars 1915, d. 18. febrúar 1989, og Matthildur Halldóra Jónsdóttir frá Miðfirði í Skeggjastaðahreppi, f. 22. maí 1919, d. 16. maí 1942.

Stella var elsta barn þeirra hjóna en auk hennar eignuðust þau dæturnar Eddu, f. 1940, og Matthildi, f. 1941.

Þegar móðir þeirra systra lést, tæplega 23 ára gömul, gekk þeim í móðurstað systir hennar, Jóhanna Sigríður, f. 11. júní 1922, d. 20. desember 1988. Hún giftist síðar Jóhanni, föður þeirra, og eignuðust þau börnin Kristbjörgu (Boggu), f. 1944, Herdísi (Lollu), f. 1945, Elínborgu, f. 1947, d. 2003, Frímann Grétar Benedikt, f. 1948, Ólafíu Soffíu, f. 1950, Magnþór, f. 1952, Halldór, f. 1953, Óttar Þór, f. 1959, og Bergfríði, f. 1963, d. 1992.

Þann 16. júní 1962 giftist Stella Einari Benediktssyni lyfsala. Eignuðust þau hjónin börnin Poul Kim, f. 1962, d. sama ár, Arndísi, f. 1966, og Indriða, f. 1971, d. 1992. Stella og Einar skildu árið 1973.

Barnabörn Stellu og Einars eru Einar Merlin, f. 1987, Védís Drótt, f. 2001, og Áslaug Hlökk, f. 2004.

Stella sleit barnsskónum í Gunnólfsvík. Hún var 12 ára gömul send til náms í Reykjavík en sú vist entist aðeins í eitt ár þar sem hún sneri aftur heim vegna veikinda móður sinnar. Ári síðar hélt hún aftur til Reykjavíkur og hélt skólagöngunni áfram í Austurbæjarskóla.

Stella fermdist í gömlu Hallgrímskirkjukapellunni árið 1952. Ekki var hægt að ferma heima í Gunnólfsvík þar sem bærinn hafði eyðilagst í eldi fyrr sama ár.

Árið 1958 fluttist Stella til Danmerkur þar sem hún gekk í húsmæðraskóla. Það var þar sem hún kynntist Einari og giftust þau í Kaupmannahöfn árið 1962, eins og fyrr er getið.

Stella vann hin ýmsu störf á lífsleiðinni, m.a. var hún kaupakona í sveit, vann við umönnun á gömlu heilsuverndarstöðinni, við skrifstofustörf hjá IBM og Skýrsluvélum ríkisins svo eitthvað sé nefnt. Lengst af vann hún sem starfsmaður á skrifstofu Félags einstæðra foreldra ásamt því að sitja í stjórn félagsins. Hjá félaginu vann hún ýmsa sjálfboðavinnu og var hún brautryðjandi í að bæta kjör einstæðra foreldra. Hún hóf störf við þjónustuíbúðirnar á Norðurbrún 1 og lauk þar sinni starfsævi árið 2008, þá sjötug að aldri. Árum saman prjónaði hún fyrir Handprjónasambandið og vann sjálfboðaliðastörf við fataflokkun hjá Rauða krossinum.

Útför Stellu fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 24. október 2016, kl. 13.

Sumarið er liðið, eins er lífið hennar Stellu frænku en minningin lifir.

Þessi yndislega frænka mín sem ég gat alltaf leitað til og sýndi mér og fjölskyldu minni ávallt mikla umhyggju.

Heimili hennar í Skipasundinu stóð okkur ættmennum hennar ætíð opið og er mér í fersku minni þótt langt sé liðið síðan ég kom til Reykjavíkur til að klára stúdentspróf. Þá var eins og nú erfitt að finna húsnæði og fékk ég að vera á bekk í stofunni hjá Stellu eins og ég þurfti og aldrei upplifði ég að ég væri fyrir eða að það væri annað en sjálfsagt.

Á menntaskólaárum mínum var Stella dugleg að láta mig hafa danskar bækur og voru það helst höfundar eins og Tove Ditlevsen. Stella hafði alltaf gaman af að fara á bókamarkaði og keypti oft bækur af sérkennilegu fólki. Eina bók lánaði hún mér sem var um Önnu, norska konu sem lifði afskekkt og átti erfiða ævi, gæti ég trúað að með því að lesa þetta hafi Stellu fundist sitt líf vera dans á rósum en það var það ekki alltaf.

Stella var með sterka réttlætiskennd og átti erfitt með að fyrirgefa ef henni var sagt ósatt. Hún var víðsýn og hafði gaman af að segja sögur og það gerði hún af þeirri snilld að ég fékk það á tilfinninguna að ég hefði verið með henni hvort sem hún var að lýsa París eða Kaupmannahöfn, en þar bjó hún um tíma og átti eflaust sínar bestu minningar.

Við deildum svipuðum áhugamálum, svo sem lestri, prjónaskap og garðrækt og gátum við stundum gleymt okkur tímunum saman við að ræða þessi hugðarefni okkar. Aldrei fann ég fyrir aldursmuninum á okkur því Stella var svo skemmtileg.

Mér er ljúft að rifja upp ferðalag sem ég fór fyrir þremur árum með Stellu, mömmu og pabba upp á Hvanneyri til að skoða ullarsetrið, það var yndislegt veður og við dunduðum okkur lengi og nutum þess að skoða fallegt handverk og litaðan lopa.

Í garðinum mínum eru margar plöntur sem ég hef fengið í garðinum hennar Stellu. Í sumar uxu hindber sem aldrei fyrr og naut Stella þess að fylgjast með þeim vexti og útdeila þeim þegar þau voru tilbúin.

Stella var vinkona mín og vil ég þakka henni allar góðar stundir sem við áttum saman.

Arndís, Einar, Védís og Áslaug, missir ykkar er mikill en ég veit að góðar minningar um Stellu frænku lifa með ykkur og þær verða styrkur ykkar í sorginni.

Þegar ég stend

við spegilinn að morgni

minnist ég þess

er þú straukst hár mitt

og sagðir: Þú ert vel greidd

Þannig fyllir þú ennþá

daga mína af gleði

þótt endilangt

eilífðarhafið sé

á milli okkar

(Vilborg Dagbjartsdóttir)

Kveðja,

Áshildur.