Ásdís Alexandersdóttir fæddist í Reykjavík 12. júlí 1931. Hún lést að Hrafnistu í Reykjavík 15. október 2016.

Foreldrar hennar voru Margrét Aðalheiður Friðriksdóttir húsmóðir, f. í Hnífsdal 1. júlí 1906, d. 28. júní 1974, og Alexander McArthur Guðmundsson mjólkurfræðingur, f. í Winnipeg 26. desember 1904, d. 4. maí 1971.

Fimm ára flyst hún til Reykjavíkur með foreldrum og systkinum, þau eru Friðrik Tómas, f. 24. júní 1933, d. 17. nóvember 1995, Markús, f. 1. júlí 1934, og Guðrún, f. 7.janúar 1936, d. 19. nóvember 1946.

Ásdís giftist 1963 Hauki Ragnarssyni skógfræðingi, f. 3. október 1929, d. 5. ágúst 2006. Hann átti frá fyrra hjónabandi börnin Brynjulv Hauksson, f. 2. desember 1954, og Kristinu Hauksdóttur, f. 19 .desember 1959. Þau fluttust til Noregs með móður sinni Gro Aslaug Sjötveit og hafa búið þar. Brynjulv og Kristin dvöldu framan af flest sumur á Íslandi. Ásdís gekk í Skildinganesskóla og síðar Laugarnesskóla eftir að fjölskyldan flutti úr Skerjafirði að Bjarmalandi við Laugarnesveg. Síðar hóf hún nám í Kvennaskólanum og útskrifaðist þaðan 1949. Árið 1950 fer hún til New York USA sem au-pair. Ásdís kemur heim vorið 1951 og starfar þá við innanlandsflug Loftleiða sem flugfreyja. Síðan er hún ráðin af Agnari Kofoed Hansen flugmálastjóra til starfa á Keflavíkurflugvelli við móttöku erlendra flugvéla. Árið 1954 ræðst hún aftur til Loftleiða sem flugfreyja en 1971 fer Ásdís í land og sinnir ýmsum störfum fyrir Loftleiðir, Flugleiðir og Icelandair. Hún hættir störfum 2001 eftir að hafa unnið að flugmálum í 50 ár.

Útför Ásdísar fer fram frá Fossvogskirkju, í dag 24. október 2016, og hefst athöfnin klukkan 11.

Sex ára mundi ég að hún hét Dís eitthvað svo ég kallaði hana Flugdísi, enda vissi ég að hún væri flugfreyja hjá Loftleiðum. Flugið var ævintýralegasta starf sem hægt var að hugsa sér næst á eftir geimfara. Ég man fyrst eftir henni sem brosandi og fallegri ungri konu með svart hár. Hún flaug til New York sem var þá órafjarri. Kom til baka með ýmislegt sem ekki fékkst hérlendis; kalkún, kartöflustengur, sykurpúða, ítalskar sósur á spaghettí, pepperóní, blikkandi ljós á jólatréð á Tómasarhaganum. Hún ók um bæinn á gráum tveggja sæta sportbíl með tvo pottorma, mig og Brynjúlf frænda minn 6 ára, í afturbekknum á leið í ísbúðina og ekki bara einu sinni heldur aftur og aftur og aftur. Brynjúlfi og Kristínu systur hans sinnti hún af ást og alúð þegar þau komu að heimsækja föður sinn öll sumur frá Noregi. Svo flutti hún á Mógilsá þar sem stóð eitt reyniviðartré þegar þau Haukur fluttu þangað. Því trúir enginn í dag. Hafin var skógrækt og tilraunir í umboði Noregskonungs. Kompaníið ekki verra en sjálfur Haraldur krónprins þegar stöðin var formlega opnuð. Við Brynjúlfur fylgdumst stóreygðir með fyrirfólkinu og heilsuðum prinsinum. Á Mógilsá var hlustað á Harry Belafonte og mér var 1964 mútað til að láta klippa burt bítlahárið gegn því að fá 33 snúninga Rolling Stones-plötu frá fyrstu árum þeirra. Gaf mig enda óx hárið aftur. Platan kom frá Bandaríkjunum og hana á ég enn þann dag í dag, órispaða, til minningar um Ásdísi. Nú er hún gersemi. Það var farið í skógræktarferðir, m.a. á Hallormsstað, grillað og flogið til baka í Skymaster, allt í umboði Ásdísar – eintóm ævintýri.

Svo liðu árin og fyrr en varði var hún komin á endastöð, gömul kona södd ævidaga enda hafði heilsan gefið sig. Þeir sem kynntust Ásdísi aðeins á lokasprettinum vissu ekki hvers þeir fóru á mis. En því kalla ég fram myndina af henni þrítugri til þess að hinir yngri gleymi því ekki að þeir sem lifðu löngu lífi voru hrókar alls fagnaðar síns tíma.

Ég þakka fyrir mig og votta ásamt Kristínu konu minni fjölskyldu Ásdísar innilegustu samúð á kveðjustund.

Páll Torfi Önundarson.