Guðjón Tómasson
Guðjón Tómasson
Eftir Guðjón Tómasson: "Á sama tíma og elítuhóparnir hafa allt sitt á þurru, þá býr meirihluti þjóðarinnar við allt önnur kjör."

Þegar ég fór að skoða hvað hefði mest áhrif á alla launaþróun í landinu, þá kom í fljótlega í ljós að það eru nokkrir þættir. Fyrst vil ég nefna opinbera starfsmenn sem mynda aðra elítuna og hina mynda háskólaborgarar sem vinna hjá ríkinu. Þessar tvær elítur hafa í liðlega 21 ár notið víðtækra sérkjara. Þessi sérkjör felast meðal annars í því að lífeyrissjóður þeirra er bæði verðtryggður og með ríkisábyrgð. Á sama tíma og elítuhóparnir hafa allt sitt á þurru, þá býr meirihluti þjóðarinnar við allt önnur kjör, þar sem lífeyrissjóðir þeirra eru látnir lúta allt öðrum lögum. Þar sem almennu lífeyrissjóðirnir eru bundnir allt öðrum lögum, en opinberir starfsmenn. Lífeyrissjóðirnir á almenna markaðinum hafa í áratugi búið við sérstakt tryggingafræðilegt kerfi, sem leitt hefur til þess, að sjóðirnir hafa ítrekað þurft að lækka greiðslur sínar til sjóðfélaga sinna, svo tugum prósenta skiptir. Að vísu er það mis mikið milli einstakra lífeyrissjóða, en trúlega er meðaltals-skerðingin ekki langt frá 30 prósentum.

Já og þessi sérréttindi hafa elíturnar báðar varið með kjafti og klóm. Og gekk þetta meðal annars það langt, að elíturnar báðar buðu starfsmönnum ASÍ og SA beina aðild að opinberu sjóðunum, ef það mætti verða til þess, að forréttindi opinberu sjóðanna fengju að standa óbreytt. Þessi ójöfnuður hefur þegar kostað ríkið liðlega 500 milljarða, en með Salek-samkomulaginu er þessum mismun eytt að mestu leyti, það er að segja að frá og með næstu áramótum skal þessari miklu mismunun hætt, eftir liðlega 21 ár.

En það eru fleiri atriði í stjórnsýslunni, þar sem þjóðinni er misboðið. Já og þar skal fyrst nefna Kjararáð, sem hefur mokað út ótrúlegustu gjörningum síðastliðið ár.

Í Fréttablaðinu 26. nóvember var birt launabreyting til alþingismanna og 40 valinnkunnra embættismanna, enda voru þeir að fá afturvirka 9,3% hækkun launa frá 1. mars 2015. Þann 31. desember 2015, voru síðan allir yfirvinnutaxtar embættismanna hækkaðir um 14,3%. Mánaðarlaun embættismanna innifela grunnlaun + fastar yfirvinnustundir og dreifast þær á skalann 100 stundir og niður í 23 stundir á mánuði. Já og þennan sama dag hækkuðu laun dómara sem hér segir: Héraðsdómari úr kr. 949.067 í kr. 1.316.245, hækkun 38,7%.

Hæstaréttardómari úr kr. 1.162.159 í kr. 1.874.361, hækkun 48,1%. Kæru lesendur, þessi vinnubrögð eru algjörlega óásættanleg , að elíturnar tvær geti ausið út sérkjörum til beggja handa til meðlima sinna. Í 65. grein laganna 97 frá 1995 segir: Allir skulu vera jafnir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna. Hvernig stendur á því að grunnatriði stjórnarskrárinnar, að allir skuli vera jafnir fyrir lögum landsins er fótum troðið? Elíturnar tvær hafa báðar varið þessi ætluðu forréttindi sín með kjafti og klóm. En ég sé ekki betur en að framferðið stangist á við gildandi stjórnarskrá landsins og svo hafi verið í rúmlega 21 ár. Það virðist engu skipta hvaða ríkisstjórn hefur verið við völd, forréttindaelíturnar hafa alltaf verið látnar ráða. Hér verður að gera bragarbót á, það gengur ekki að láta langt innan við 20% þjóðarinnar ráðskast með allt fyrir þjóðarheildina. Nei, hér verður Alþingi að sjá til þess að lokið verði við að jafna lífeyriskjör milli opinbera kerfisins og almenna kerfisins, því nú er lag, sem óvíst er að komi aftur. Sá siðferðissóðaskapur sem hefur verið viðhafður í samningum við elíturnar er til skammar, eins og dæmin hér að framan sanna. Því fyrr sem við losnum við þann ósóma, því betra.

Að lokum vil ég fjalla aðeins um pólitíkina og byrja á fyrrverandi ríkistjórn, sem kynnir sig sem norræna velferðarstjórn. Já, það vantaði ekki stóru orðin hjá þeim Jóhönnu og Steingrími, enda tóku þau við í efnahagshruninu. Þau sendu meira að segja Svavar Gestsson til Bretlands til að semja við þá um það hvernig Íslendingar gætu bætt þeim ætlað tjón þeirra, en því tókst að afstýra. Einnig tókst Sigmundi Davíð og félögum hans að koma í veg fyrir það að Steingrímur veðsetti þjóðina fyrir hundruðum milljarða króna. Enda þótti mér hún frábær myndin sem birtist af honum með heljar langt Gosanef í Morgunblaðinu nú á haustmánuðum, það lýsti vel öllum ósannindum hans. Mér er aftur á móti ómögulegt að skilja þetta fylgi sem skoðanakannanir gefa Vinstri grænum. Um Píratana vil ég segja, að það er hörmung að horfa upp á það hvernig fulltrúi þeirra hefur verið meðhjálpari í því að eyðileggja fjárhag höfuðborgarinnar. Höfundar nafnsins viðreisn voru þeir Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson. Já, stolið nafn, skreytt með nokkrum skrautfjöðrum eins og Benedikt Jóhannessyni, Þorgerði Katrínu og fleirum, sem eru öll þjóðþekktir Evrópusambands-sinnar. Nei, kjósendur góðir, það stekkur enginn heilvita maður um borð í skip sem logar stafna á milli, eins og Jón Baldvin Hannibalsson sagði. Nei, aldrei aftur vinstri stjórn XD.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Guðjón Tómasson