Kristín Guðbjörg Benediktsdóttir, alltaf kölluð Dídí, fæddist í Bolungarvík 16. september 1941. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík 15. október 2016.

Foreldrar Dídíar voru Fjóla Magnúsdóttir, f. 1921, d. 1970, og Benedikt Vagn Guðmundsson, f. 1915, d. 1971. Dídí var næstelst tíu systkina, hin voru Ingigerður Maggý Benediktsdóttir, f. 1939, d. 1960, Bára Benediktsdóttir, f. 1942, Ingunn Guðmunda Benediktsdóttir, f. 1944, d. 1944, Haraldur Guðmunds Benediktsson, f. 1946, Víðir Benediktsson, f. 1948, Lárus Haukur Benediktsson, f. 1949, Jóhanna Freyja Benediktsdóttir, f. 1952, Ásrún Benediktsdóttir, f. 1954, d. 1975, Benedikt Steinn Benediktsson, f. 1956.

Dídí giftist Stefáni Helga Bjarnasyni árið 1965 og saman áttu þau fimm börn, þau eru:

1) Elvar Stefánsson, f. 5. ágúst 1961, hann er kvæntur Elínu Þóru Stefánsdóttur, f. 19. september 1965, og eiga þau heima í Bolungarvík. Þau eiga synina Auðun Jóhann og Emil Una. Fyrir átti Elvar dótturina Fjólu Katrínu, barnabarnabörnin eru fimm.

2) Arnar Bjarni, f. 15. júní 1963 kvæntur Heiðu Jónu Hauksdóttur, f. 25. desember 1964, þau búa í Kópavogi. Arnar á fimm börn, fyrst soninn Kristin Ísak en börn Arnars og Heiðu eru Hanna Steina, Helga Rut, Stefán Haukur og Styrmir Máni. Barnabarnabörnin eru sex.

3) Ingigerður Maggý Stefánsdóttir, f. 1. júní 1966, hún er gift Þór Björnssyni, f. 2. mars 1967, og búa þau í Reykjavík. Börn þeirra eru Stefán Darri, Sigurlaug Sara og Ernir.

4) Fjalar Vagn Stefánsson, f. 26. nóvember 1973, í sambúð með Rögnu Dam, f. 3. mars 1976, þau búa í Færeyjum. Börn þeirra eru Stefanía Friða, Andrias og Edith.

5) Dagný Ása Stefánsdóttir, f. 18. júní 1978, í sambúð með Guðbjarna Karlssyni, f. 21. júlí 1972, þau búa í Bolungarvík. Sonur Dagnýjar er Kristinn Hallur Arnarsson. Guðbjarni á fimm börn og eitt barnabarn.

Fyrir átti Stefán Sigríði Jakobínu. Dídí og Stefán skildu árið 1994.

Dídí vann fyrstu árin á sjúkraskýli Bolungarvíkur, vann svo í fiski í Bolungarvík þar til hún flutti suður til Reykjavíkur þar sem hún vann við verslunarstörf. Hún flutti síðar á Hellissand þar sem hún vann við fiskvinnslu þar til hún flutti aftur suður. Hún vann síðustu árin á Landspítalanum sem aðstoðarkona ljósmæðra á fæðingargangi. Þegar hún komst á eftirlaun flutti hún aftur á æskuslóðirnar til Bolungarvíkur árið 2008.

Útför Dídíar fer fram frá Hólskirkju í Bolungarvík í dag, 29. október 2016, kl. 14.

Elsku besta móðir mín, hetjan mín og fyrirmynd er látin. Það er erfitt að kveðja og stutt í tárin. Minningarnar hrannast upp og veita yl á erfiðum stundum. Ég ólst upp frjáls í áhyggjulausu umhverfi í faðmi foreldra og systkina þar sem leikvöllurinn var Bolungarvík á milli fjalls og fjöru. Þorpið mitt var endalaus uppspretta leikja og upplifana. Minningarnar eru margar úr æsku.

Mamma var dugnaðarforkur til vinnu og byrjaði ung að vinna í fiskvinnslu í Bolungarvík og lét stóran hluta launa sinna til móður sinnar til að létta undir með rekstri heimilisins. Aðeins 17 ára fór hún að vinna á Sjúkraskýlinu í Bolungarvík og var strax gerð að forstöðukonu og gegndi því starfi í tvö ár.

Eftir það fór hún á síldina á Siglufirði þar sem hún kynntist föður mínum. Hún bjó í Bolungarvík í 40 ár, fluttist þá suður og var þar meira og minna í 27 ár. Foreldrar mínir skildu 1994. Börnin mín eiga margar minningar með ömmu sinni í Kópavogi.

Þegar mamma komst á eftirlaun lét hún loksins langþráðan draum rætast og flutti aftur á æskuslóðirnar í Bolungarvík þar sem hún keypti sér hús með garði sem hún ræktaði af natni. Mamma var mikið náttúrubarn, elskaði alla útiveru, fór í göngutúra, hjólaði og synti daglega á meðan hún hafði þrek til. Eftir að hún flutti til Bolungarvíkur fórum við fjölskyldan oft og iðulega í heimsókn til hennar og fannst börnunum mínum gott að heimsækja hana þar og upplifa lífið í litla þorpinu.

Í mars 2015 greindist mamma með sjúkdóminn MND, hún var þá lengi búin að leita skýringa á því þróttleysi sem hafði hrjáð hana. Síðustu árin eyddum við mamma miklum tíma saman þar sem við ræddum saman, hlógum, grétum og ekki síst í sumar og í haust. Ég er óendanlega þakklát fyrir þessar stundir sem við áttum saman, þær ylja á erfiðum stundum. Í sumar fórum við systkinin með mömmu á draumastaðinn hennar að Gardavatni á Ítalíu og eyddum þar saman viku þar sem við hlógum mikið og sköpuðum með henni dýrmætar minningar.

Mamma trúði því að þegar hún yfirgæfi þetta líf tæki við annað líf og betra í „Draumalandinu“ þar sem engir sjúkdómar þekktust. Ég trúi því að nú gangi hún þar um frjáls og hamingjusöm og að ég hitti hana þar þegar minn tími kemur.

Ég man þig – elsku mamma

ég man þig alla tíð.

Við þraut svo þunga og ramma

þú þögul háðir stríð.

Sem hetja í kvöl og kvíða

þú krýnd varst sigri þeim

sem á sér veröld víða

og vænni en þennan heim.

En þín ég sífellt sakna

uns svefninn lokar brá.

Og hjá þér vil ég vakna

í veröld Drottins þá.

Því jarðlífs skeiðið skamma

er skjótt á enda hér.

Og alltaf á ég, mamma,

minn einkavin í þér.

Ég veit það verður gaman,

það verður heilög stund,

að sitja aftur saman

sem sátum við í Grund.

Þá gróa sorgarsárin

og söknuðurinn flýr.

Þá þorna tregatárin,

og tindrar dagur nýr.

Þá ljómar Drottins dagur

með dýrð og helgan frið,

svo tær og töfrafagur

um tveggja heima svið.

Þá hverfur raunin ramma

sem risti hold og blóð,

þá geng ég með þér mamma,

um morgunbjarta slóð.

Þá geng ég með þér mamma,

um morgunbjarta slóð.

(Rúnar Kristjánsson.)

Ingigerður M. Stefánsdóttir.