Logi Einarsson
Logi Einarsson
Eftir Loga Einarsson: "Í dag ræðst hverjir móta samfélagið næstu ár á Íslandi."

Í dag ræðst hverjir móta samfélagið næstu ár á Íslandi. Samfylkingin var stofnuð til að sameina jafnaðarmenn í einum stórum hópi. Sú vegferð hefur reynst lengri en vonir stóðu til, en hugsjónir jafnaðarmanna eru samt sem áður þær sömu.

Við í Samfylkingunni höfum lagt okkur fram um að kynna mál okkar með skýrum og kannski stundum dálítið frökkum hætti. Við höfum sagst vilja besta heilbrigðiskerfi í heimi og komið fram með hugmynd um fyrirframgreiddar vaxtabætur upp að 3 milljónum til útborgunar í fyrstu íbúð. Þetta er djarft og sett fram til að ná athygli kjósenda í þeirri von að þeir leggi við hlustir og velti fyrir sér valkostum.

Stóra samhengið er hins vegar flóknara og oft erfiðara að koma því til skila með fyrirsögnum.

Samfylkingin vill þjóðfélag jöfnuðar, mannúðar og réttlætis. Aðeins með þessar hugsjónir að leiðarljósi er mögulegt að byggja upp þjóðfélag þar sem ríkir sátt og friður um helstu málefni. Við viljum jafna stöðu fólks, en til þess þarf meðal annars heilbrigðiskerfi sem allir hafa jafnan aðgang að, menntakerfi sem veitir öllum tækifæri til menntunar og við viljum að húsnæðismál séu samfélagsverkefni. Þetta eru nokkrar grunnstoðir þjóðfélags jafnréttis og sáttar.

Til þess að ná þessu markmiði verðum við að læra af þeim bestu. Við þurfum að nýta okkur fyrirmyndir frá þeim löndum sem bestum árangri hafa náð í að byggja upp slík þjóðfélög. Við þurfum bæði að læra af þeim bestu og vera í félagi með þeim bestu. Þess vegna var á sínum tíma samið um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, sem skilaði Íslandi langt fram á veg. Af sömu ástæðu þurfum við að halda áfram og klára viðræður við Evrópusambandið og leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um aðildarsamning.

Það er fagnaðarefni að fleiri framboð taki nú undir mörg af helstu baráttumálum Samfylkingarinnar. Málum sem Samfylkingin hefur barist fyrir árum saman. En okkur er best treystandi til að koma okkar eigin málum í höfn. Þrátt fyrir mótbyr gegn nauðsynlegum umbótum á stjórnarskrá og að tryggja þjóðinni réttlátan arð af auðlindum til lands og sjávar, mun Samfylkingin eins og hingað til leggja allt undir til að tryggja þessum málum framgang. Við verðum að sækja fram því að aðeins þannig komumst við í hóp þeirra bestu, en þar bæði getum við verið og eigum að vera.

Höfundur er varaformaður Samfylkingarinnar og oddviti í Norðausturkjördæmi.

Höf.: Loga Einarsson