— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Fréttamenn okkar verða á staðnum og leita viðbragða formanna flokkanna við fyrstu tölum um leið og þær berast,“ segir Sunna Ósk Logadóttir, fréttastjóri mbl.

„Fréttamenn okkar verða á staðnum og leita viðbragða formanna flokkanna við fyrstu tölum um leið og þær berast,“ segir Sunna Ósk Logadóttir, fréttastjóri mbl.is, og vísar í máli sínu til kosningavöku vefsins þar sem ítarleg og öflug umfjöllun verður um alþingiskosningarnar í allan dag og allt þar til endanleg úrslit liggja fyrir.

Fylgst verður með gangi mála frá því að kjörstaðir eru opnaðir og allt til enda. Á mbl.is verða birtar tölur um leið og þær verða gefnar út af yfirkjörstjórnum, viðbrögð frambjóðenda og fylgst með kosningavökum stjórnmálaflokkanna.

Tölur, Twitter og komment

Von er á fyrstu tölum strax og kjörstöðum hefur verið lokað eða upp úr klukkan 22 í kvöld.

„Á forsíðu mbl.is geta lesendur nálgast nýjustu tölur sem birtar verða í aðgengilegri grafík og að sjálfsögðu viðbrögð stjórnmálaskýrenda, frambjóðenda og annarra - allt þetta og miklu meira til á kosningavöku mbl.is,“ segir Sunna Ósk og heldur áfram:

„Einnig verðum við með beina textalýsingu á forsíðu mbl.is þar sem hægt er að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni á einfaldan hátt. Skemmtilegustu kommentin, sniðugustu Twitter-færslurnar og allt hitt verður þar að finna.“ khj@mbl.is