Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir
Í febrúar síðastliðnum sagði Birgitta Jónsdóttir, foringi Pírata, að ekki kæmi til greina að gera neinar tilslakanir á kröfum Pírata um stutt kjörtímabil eftir næstu kosningar.

Í febrúar síðastliðnum sagði Birgitta Jónsdóttir, foringi Pírata, að ekki kæmi til greina að gera neinar tilslakanir á kröfum Pírata um stutt kjörtímabil eftir næstu kosningar. Píratar mundu ekki vinna með flokkum sem ekki samþykktu þetta skilyrði enda væri það „ótækt“ að hennar áliti og „óráð að gera það sem allir gera alltaf“. Þá væri betra fyrir Pírata að vera í minnihluta.

Hún sagði líka að hún vildi að stjórnarsáttmáli yrði tilbúinn fyrir kosningar og helst líka fjárlög.

Þessar áherslur Pírata hafa verið margítrekaðar síðan, einkum skilyrðið um stutt kjörtímabil, helst níu mánuði en að minnsta kosti ekki lengra en átján mánuði.

Allt þetta eru Birgitta og Píratar þegar búin að svíkja. Nú er sagt að hinir vinstri flokkarnir hafi ekki verið til í styttra kjörtímabil og þar með er fallið frá því.

Svo tókst ekki að koma saman stjórnarsáttmála af nokkru tagi, hvað þá fjárlögum, og þá er fallið frá því.

En þetta er ekki allt. Birgitta var búin að marglofa því að hún yrði ekki lengur á þingi en tvö kjörtímabil, en það loforð sveik hún líka með framboði sínu.

Píratar setja sig jafnan á háan hest og kvarta undan óheilindum annarra, en eru þeir sjálfir alveg undanþegnir því að þurfa að segja satt?