Hópar uppreisnarmanna í Aleppo í Sýrlandi hófu í gær sókn gegn stjórnarher landsins til að reyna að binda enda á þriggja mánaða umsátur um yfirráðasvæði þeirra í austurhluta borgarinnar. Á meðal hópanna sem taka þátt í sókninni eru liðsmenn tveggja hreyfinga íslamista, Ahrar al-Sham og Fateh al-Sham. A.m.k. fimmtán óbreyttir borgarar, þeirra á meðal tvö börn, biðu bana í árásum uppreisnarhópanna á vesturhluta Aleppo.
Hundruð manna hafa látið lífið í loftárásum stjórnarhersins og Rússa á austurhluta borgarinnar. Her Rússlands óskaði í gær eftir leyfi Vladimírs Pútíns forseta til að hefja árásirnar að nýju eftir tíu daga hlé, en Pútín sagði að það væri ekki tímabært.