Stuðningur Frá vinstri: Sigrún Gunnarsdóttir formaður Krabbameinsfélags, Baldvina Snælaugsdóttir markaðsstjóri Kringlunnar og Sigurjón Örn Þórsson framkvæmdastjóri.
Stuðningur Frá vinstri: Sigrún Gunnarsdóttir formaður Krabbameinsfélags, Baldvina Snælaugsdóttir markaðsstjóri Kringlunnar og Sigurjón Örn Þórsson framkvæmdastjóri.
Forsvarsmenn Kringlunnar afhentu í vikunni söfnunarfé góðgerðaverkefnisins Af öllu hjarta til Bleiku slaufunnar , en alls söfnuðust um fjórar milljónir króna.

Forsvarsmenn Kringlunnar afhentu í vikunni söfnunarfé góðgerðaverkefnisins Af öllu hjarta til Bleiku slaufunnar , en alls söfnuðust um fjórar milljónir króna. Bleika slaufan er verkefni á vegum Krabbameinsfélags Íslands, þar sem árvekni gagnvart brjóstakrabbameini er í brennidepli.

Verkefninu Af öllu hjarta í Kringlunni var hleypt af stokkunum í september síðastliðnum. Í því felst að einn dag á ári gefa verslanir og veitingastaðir Kringlunnar 5% af veltu dagsins til góðs málefnis.

Söfnunin í ár fór fram fimmtudaginn 29. september, en auk þess sem safnaðist hjá verslunum málaði listamaðurinn Tolli málverk með ungum leikskólabörnum og var verkið selt til styrktar málefninu. Enn fremur var opnuð bleik verslun í göngugötu sem var starfrækt í tvær vikur. Þar voru til sölu bleikar vörur frá ýmsum verslunum Kringlunnar, en allur ágóði af sölu þeirra rann einnig til málefnisins, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Góðgerðardagur Kringlunnar, þegar verslanir og veitingastaðir hússins gefa 5% af veltu dagsins til góðs málefnis, verður árlegur héðan í frá. Munu samtök sem vinna að velferðarmálum geta sótt um útnefningu söfnunar með því að senda inn umsókn til Kringlunnar. sbs@mbl.is