Feðgar Guðmundur Óskarsson skrifar um sérstakt feðgasamband.
Feðgar Guðmundur Óskarsson skrifar um sérstakt feðgasamband. — Morgunblaðið/Ófeigur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðmund Óskarsson. 125 bls. JPV-Útgáfa 2016.

Ný bók Guðmundar Óskarssonar er gott dæmi um að mikla sögu þarf ekki alltaf að segja í mörgum orðum og rík myndræn sviðsetning snýst ekki endilega um súpur smáatriða heldur vel útfærða fáa drætti.

Þessi fyrsta skáldsaga Guðmundar frá því að Bankster kom út, sem færði höfundinum Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2009, heitir Villisumar og fer með lesandann í ferðalag til Frakklands þar sem feðgar og nafnar, Dagbjartar tveir, eyða einu sumri saman á forsendum föðurins; egósentrísks, viðkvæms og drykkfellds listamanns. Dagbjartur yngri er móðurlaus óharðnaður unglingur, undir verndarvæng móðurforeldra sinna sem hann býr hjá utan þessa eina örlagaríka sumars sem hann eyðir við það að fylgjast með og aðstoða föður sinn við myndlistina og flakkar sagan á milli þessa tíma og nútímans þar sem unglingurinn vitjar þessara frönsku slóða sem gamall maður í fylgd barna sinna.

Þegar rithöfundur beitir svo ríku myndmáli í texta mætti ætla að einhvers staðar væri veika bletti að finna; að einhvers staðar sé það tyrfið og þungmelt, þvingað og skrúfað en textinn er án nokkurrar ofhleðslu afar efnisríkur og lýsandi og flæðir þykkt en áreynslulaust áfram. Sérstaklega er þetta áskorun þegar um framandi umgjörð er að ræða, íslenskir rithöfundar ná oft ekki alveg utan um það að koma erlendum strætum og torgum þannig til skila í texta að lesandinn nái algerlega að hola sig niður í umhverfi sögupersóna þar sem einhver hluti af því verður alltaf fremur óljós í sögunni. En Guðmundur nær að koma umhverfinu þannig til skila að lesandanum finnst hann alltaf hafa verið þarna. Það sama má segja um einstakar aukapersónur og baksvið þeirra þar sem höfundur kemst jafnvel upp með að skjóta inn sögu af ævi þeirra og ástum í einungis sjö línum.

Egóismi er stórt þema í sögunni. Hvernig það er þegar manneskjunni er ómögulegt að reikna með öðrum og tilfinningum þeirra í tilveru sinni og hvernig frekt og fyrirferðarmikið eigið sjálf kæfir tilveru annarra en um leið hvernig egóistinn getur átt bráðfallegar hliðar. Þrátt fyrir átök og sorg er sagan falleg og fyndin og flakki í tíma lipurlega sneitt inn í söguna og brýtur það vel upp formið.

Júlía Margrét Alexandersdóttir

Höf.: Júlía Margrét Alexandersdóttir