Guðjón Ketilsson fæddist í Reykjavík 29.10. 1956 og ólst þar upp í Smáíbúðahverfinu. Hann er Strandamaður í báðar ættir og dvaldi öll sumur í æsku hjá ættingjum sínum, á sveitabæ skammt frá Hólmavík. Guðjón var í Breiðagerðisskóla og Réttarholtsskóla, lauk myndlistarnámi frá Nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1978 og stundaði framhaldsnám við skúlptúrdeild Nova Scotia college of Art and Design í Kanada.
Við heimkomuna kom Guðjón sér strax upp vinnustofu og hefur sinnt myndlist síðan.
Guðjón hefur haldið yfir þrjátíu einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga, hérlendis sem erlendis, s.s. á Norðurlöndunum, í Bandaríkjunum, Hollandi, Spáni, Kanada og Ástralíu og Kína.
Verk Guðjóns eru m.a. í eigu allra helstu listasafna landsins. Auk þess að vera boðið að vinna að list sinni í ýmsum alþjóðlegum vinnustofum, hefur hann verið valinn í lokaðar samkeppnir um gerð listaverka í opinberu rými en slík verk hans má m.a. sjá í Reykjavík og á Seyðisfirði. Hann hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar s.s. Menningarverðlaun DV árið 2000 og verðlaun frá Listasafni Einars Jónssonar í tilefni 75 ára afmælis safnsins.
Guðjón hefur m.a. setið í stjórnum Myndhöggvarafélags Reykjavíkur og Myndlistaskóla Reykjavíkur.
Meðfram myndlistinni hefur Guðjón myndlýst og hannað fjölda bókakápa fyrir ýmis bókaforlög. Hann hefur auk þess gert leikmyndir fyrir leikhús og kvikmyndir, m.a. Þjóðleikhúsið, Frú Emilíu, Egg leikhúsið, Nemendaleikhúsið og fleiri leikhús. Hann vann við ýmsar leikmyndir og kvikmynd götuleikhússins Svart og sykurlaust á árunum 1983-85. Þá vann hann um skeið á auglýsingastofu.
Hin síðari ár hefur Guðjón starfað í auknum mæli við kennslu. Hann hefur sinnt stundakennslu við Myndlistaskóla Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands.
Þó að myndlistin sé bæði starf og áhugamál Guðjóns þá hefur hann einnig mikinn áhuga á ferðalögum: „Ég hef ferðast mikið, bæði á eigin vegum og ekki síður í tengslum við myndlistina. Þá er ég nú essinu mínu þegar ég næ þannig að sameina þessi tvö áhugamál.“
Fjölskylda
Eiginkona Guðjóns er Ragnheiður Elfa Arnardóttir, f. 2.1.1956, félagsráðgjafi og leikkona. Foreldrar hennar eru Örn Ævarr Markússon, 19.5. 1930, lyfjafræðingur og fyrrverandi apótekari, og Halla Valdimarsdóttir, f. 9.1. 1936, framhaldsskólakennari.Börn Guðjóns og Ragnheiðar eru Birta Guðlaug, f. 10.12.1977, deildarstjóri sýningardeildar í Listasafni Íslands, og Hrafnkell Örn, f. 23.9. 1989, tónlistarmaður en unnusta hans er Esther Ýrr Þorvaldsdóttir kynningarstjóri.
Systur Guðjóns eru Kolfinna, f. 10.8. 1943, leiðbeinandi í Svíþjóð, gift Þorsteini Ólafssyni rafeindavirkjameistara; Birna, f. 14.12. 1947, skrifstofumaður, gift Benedikt Svavarssyni vélstjóra; Hjördís, f. 17.12. 1949, textílkona í Bandaríkjunum, og Kristín, f. 25.11. 1950, gift Ólafi G. Laufdal Jónssyni, f. 10.8. 1944, en þau hjónin stunda hótel- og veitingarekstur.
Foreldrar Guðjóns: Ólöf Ragnheiður Guðjónsdóttir, f. 16.12. 1919, saumakona, og Ketill Berg Björnsson, f. 22.8. 1920, d. 7.12. 1994, vélsmiður.