Línurnar í þingkosningunum sem fram fara í dag eru alveg skýrar eftir fund stjórnarandstöðuflokkanna í fyrradag. Að honum loknum kom fram, að Píratar, VG, Samfylking og Björt Framtíð, stefna á myndun ríkisstjórnar í kjölfar kosninganna. Það er í sjálfu sér jákvætt að það liggi fyrir. Kjósendur vita þá að hverju þeir ganga.
Áhrif slíkrar stjórnarmyndunar verða m.a. þau að slík ríkisstjórn mun efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, annaðhvort næsta vor eða samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2018 um það hvort halda beri áfram viðræðum við Evrópusambandið um aðild Íslands.
Núverandi ríkisstjórn og stjórnarflokkar geta sjálfum sér um kennt vegna þess að þeir ganga frá málinu hálfkláruðu og hafa skilið þennan möguleika eftir fyrir aðildarsinnaða ríkisstjórn.
Hið rétta er auðvitað að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort þjóðin vilji aðild að Evrópusambandinu eða ekki, en hún var aldrei spurð sumarið 2009. Sá flokkur hugsanlegrar vinstristjórnar sem verður knúinn til að horfast í augu við sjálfan sig, þegar að þessu kemur er Vinstri grænir. Þeir gengu til þingkosninganna 2009 með skýra yfirlýsingu um að aðild Íslands að ESB kæmi ekki til greina en sviku þau loforð til að tryggja sér aðild að ríkisstjórn með Samfylkingu. Taki Vinstri grænir þátt í þeim leik á næstu misserum að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli áfram viðræðum eru verulegar líkur á að það leiði til klofnings flokksins.
Annað stórt mál, sem augljóst er að ríkisstjórn af þessu tagi mun taka upp og leitast við að lögleiða er að breyta gjaldtöku vegna nýtingar auðlindarinnar í hafinu á þann veg að í stað veiðigjalda verði veiðiheimildir boðnar upp. Þetta álitamál hefur verið til umræðu frá því að vinstristjórn Steingríms Hermannssonar gaf framsal veiðiheimilda frjálst árið 1990 og skapaði með þeirri ákvörðun aðstæður til þess að fyrstu milljarðamæringarnir á Íslandi yrðu til.
Við Morgunblaðsmenn þeirra tíma tókum upp baráttu fyrir því að veiðigjöld yrðu tekin upp á sama tíma og Alþýðuflokkurinn barðist fyrir uppboðsleiðinni. Við höfðum m.a. áhyggjur af því að síðarnefnda leiðin yrði til þess að allar veiðiheimildir söfnuðust á hendur örfárra fyrirtækja í sjávarútvegi. Eftir miklar sviptingar gerði landsfundur Sjálfstæðisflokksins auðlindagjöld að grundvallarstefnu sinni en framkvæmdin varð hins vegar á þann veg að þau voru augljóslega of lág. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hækkaði þau verulega og það mikið að ástæða var til að ætla að þá væri gengið of nærri litlum útgerðum og meðalstórum.
Það eru meiriháttar mistök hjá útgerðarmönnum að hafa ekki notað síðustu ár til að ná samkomulagi um veiðigjöld sem þorri þjóðarinnar væri sáttur við. Afleiðingin, verði af myndun ríkisstjórnar Pírata og vinstriflokkanna, verður sú að stórstríð er framundan um uppboðsleiðina. Líklegt má telja að slík ríkisstjórn muni framfylgja þeim hugmyndum, sem fram komu í undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar um að auka framlög til heilbrigðismála upp í 11% af vergri landsframleiðslu og lækka verulega gjaldtöku á sjúklingum. Um þetta markmið er tæpast pólitískur ágreiningur en hið skrýtna er að núverandi stjórnarflokkar skuli ekki hafa stigið fyrstu skrefin í átt til þess á þessu hausti, sem þeir höfðu augljóslega tækifæri til og hefðu þar með slegið vopn úr höndum vinstriflokkanna.
Auk heilbrigðismála hafa málefni aldraðra og öryrkja verið helzt á dagskrá kosningabaráttunnar. Þeir flokkar sem mundu standa að hugsanlegri ríkisstjórn Pírata og vinstriflokkanna hafa lofað miklu í þeim efnum. Þó er ljóst að það verður erfitt að gera hvort tveggja í senn að standa við þau fyrirheit og endurreisa heilbrigðiskerfið. Sjálfur skil ég ekki hvers vegna ástæða er talin til að greiða þeim í hópi aldraðra bætur frá almannatryggingum, sem hafa viðunandi lífeyri úr lífeyrissjóðum en fram kom í Fréttatímanum að fjöldi þeirra, sem missi svonefndan grunnlífeyri vegna nýorðinna lagabreytinga sé um 4.200 manns.
Auk þessara málefna, sem öll hafa verið til umræðu í kosningabaráttunni er ljóst að endurskipulagning fjármálakerfisins hlýtur að komast á dagskrá á nýju kjörtímabili. Þau mál hafa of lítið verið til umræðu. Þó er ljóst að bankakerfið er alltof stórt og tekur of mikið til sín. Það er ekkert vit í að ræða nýja einkavæðingu bankanna áður en grundvallarákvarðanir hafa verið teknar um aðlögun þessa kerfis að íslenzkum veruleika. Það snýst m.a. um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.
En athyglin hlýtur líka að beinast að lífeyrissjóðunum. Annars vegar að því að tryggja með lögum rétt félagsmanna lífeyrissjóðanna til að kjósa sjálfir stjórnir sjóðanna í stað þeirrar fámennisstjórnar, sem þar ríkir nú og skapar augljósa hættu á eins konar „ólígarkíi“ milli vinnuveitenda, verkalýðshreyfingar, æðstu starfsmanna sjóðanna og æðstu starfsmanna banka og annarra fjármálafyrirtækja.
Og hins vegar að þeim augljósu hagsmunaárekstrum sem felast í ráðandi eignaraðild lífeyrissjóða að fyrirtækjum, sem eiga að vera í samkeppni sín í milli en eru það tæpast eins og eignaraðild þeirra hefur þróast.
Þetta síðastnefnda mál hefur því miður ekki verið til umræðu í kosningabaráttunni að því marki að auðvelt sé að átta sig á skoðanamun á milli flokka þegar að þessum stóra þætti í viðskiptalífi okkar kemur.
Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is