Fornminjar Við uppgröft á skálagólfi að Hofsstöðum fyrir nokkrum árum.
Fornminjar Við uppgröft á skálagólfi að Hofsstöðum fyrir nokkrum árum. — Morgunblaðið/BFH
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áður óþekktar tóftir uppgötvuðust í sumar við norðurenda túnsins að Hofsstöðum í Mývatnssveit, aðeins um 300 metra norðan við veisluskála sem áður hafði verið grafinn upp.

Áður óþekktar tóftir uppgötvuðust í sumar við norðurenda túnsins að Hofsstöðum í Mývatnssveit, aðeins um 300 metra norðan við veisluskála sem áður hafði verið grafinn upp.

Á þessum stað er þykkt kjarr en í því eru að minnsta kosti þrjár tóftir og leiddi uppgröftur um síðustu helgi í ljós að ein þeirra er af eldaskála sem fallinn var alllöngu fyrir 1104. Þarna er því fundið annað bæjarstæði frá sama tíma og veisluskálinn.

Þetta kemur fram í frétt frá Fornleifastofnun Íslands og Háskóla Íslands og segir þar að þessi fundur gerbreyti skilningi þessara aðila á Hofsstöðum og miðstöðvarhlutverki staðarins á víkingaöld. Veisluskálinn er frá víkingaöld og er stærsta hús sem þekkt er hér á landi frá þeim tíma.

Kallar á frekari rannsóknir

Skálinn er talinn hafa verið í notkun milli 950 og 1050. Í sama túni er kirkjugarður sem var í notkun frá um 1000 og fram á 13. öld. Uppgreftri kirkjugarðsins lauk sumarið 2015, en þá var liðinn aldarfjórðungur frá því að fornleifarannsóknir í Hofsstaðatúninu hófust og eru fáir staðir jafnítarlega rannsakaðir með tilliti til fornleifa á Íslandi.

„Það kom því mjög á óvart þegar áður óþekktar tóftir uppgötvuðust í sumar við norðurenda túnsins, aðeins um 300 metra norðan við veisluskálann,“ segir í fréttinni. Hinn nýfundni skáli er 26 metra langur, sem setur hann í flokk með stærstu skálum frá víkingaöld þótt hann sé mun minni en veisluskálinn.

Að mati rannsakenda kallar fundurinn á frekari rannsóknir, m.a. til að svara því hvort hinn nýfundni bær hafi verið stofnaður fyrir eða eftir byggingu veisluskálans, hvort hann hafi verið einhvers konar hjáleiga eða sjálfstætt bú og hvort fleiri slík bæjarstæði gætu leynst í nágrenninu.