Stefanía Jónasdóttir
Stefanía Jónasdóttir
Eftir Stefaníu Jónasdóttur: "Söngur frambjóðenda flokkanna er falskur og leiðinlegur."

Mikið eru vinnubrögð RÚV ógeðfelld. Nú skal rétt fyrir kosningar hamrað á Davíð Oddssyni, Geir H. Haarde og seðlabanka, enda Björn Valur hjá VG fljótur að tjá sig um rannsókn og skýrslu – en hvað um höfðingjann Steingrím J. og lafði Jóhönnu Sig.? Þar má ekki hrófla við neinu, enda hundrað ára leynd. Meira að segja stjórnmálafræðingurinn Stefanía Óskarsdóttir og stjórnsýslufræðingurinn Sigurbjörg voru fljótar að setja út á skýrslu Vigdísar Hauks um málefni þeirra Steingríms og Jóhönnu – ekki marktæk skýrsla því hún var illa orðuð og rituð, sögðu þessar vitru konur. Já, það er gott að mennta sig, en hafa síðan ekki vit til að vera menntaður. Hvað skyldi vera kennt í Háskólanum?

Að öðru, söngur frambjóðenda flokkanna er bæði falskur og leiðinlegur. Lítið um stjórnmál, bara loforð um að eyða fjármunum okkar. Ekkert um atvinnumál að finna né um aukningu starfa sem mundu skapa verðmæti. Það er búið að gera Alþingi að sveitarstjórnarskrifstofu þar sem rifist er um hverjum skuli afhent fé okkar til stuðnings í lífinu. Björt Ólafs bullar um hrútskýringar og sveitta karlmenn á þinginu, en veistu Björt, ég vil þá frekar heldur en að hlusta og horfa á frekju- og hormónaköst þín, þú ert langt frá því að vera málefnaleg. Alþingi er orðið bullstaður, enda sést það á framboðunum, allir telja sig geta stýrt landi og þjóð. Ekkert ykkar hefur minnst á íslensku þjóðina, það er ellilífeyrisþegar séu 40 þúsund, brottfluttir um 20 þúsund, öryrkjar um 20 þúsund, hvað hafa margir látist á árinu, hversu stór hópur er börn og unglingar? Hversu margar vinnandi hendur skapa verðmæti, hversu margir eru á ævilaunum og listamannalaunum? Hvar ætlið þið að fá alla þá fjármuni í allt það sem þið hafið lofað? Séu útgjöld sveitarfélaga 70% launagreiðslur, hversu mörg prósent greiðir ríkið í allt sitt bákn og laun? Þið jarmið öll um heilbrigðisþjónustuna, en hversu vel er farið með fé í þeim geira? Biðlaun til fyrrverandi framkvæmdastjóra 67,7 millur – já, Kári Stefánsson, viltu ekki rannsaka hvernig fjármunum er varið í þessum geira, áður en þú geltir meira?

Inn til landsins eruð þið, og ætlið að taka á móti 250 til 500 manns á ári auk hælisleitenda. Ekkert er hugsað til framtíðar. Hver er fjölgun okkar Íslendinga á ári, hvað fæðast hér mörg börn á fjölskyldu, e.t.v. rúmlega tvö að meðaltali, en þið eruð að flytja inn fólk sem lifir ekki eftir vestrænum gildum og þar tíðkast stórfjölskyldan, mörg börn, afar og ömmur, því stærri fjölskylda því betra. En það er ykkar val að afhenda þetta land til annarra en ykkar afkomenda. Ykkur er sjálfsagt sama þó að börn ykkar og barnabörn lúti í framtíðinni andlega sterkara fólki. Ykkar er valið.

Og í lokin, hvar ætlið þið að fá fé í allt það sem þið lofið og til handa þessu fólki sem þið viljið fá til landsins, þar sem þið, Píratar, VG, Samfylking og Björt framtíð, eigið eftir að eyðileggja sjávarútveg, landbúnað og allt það sem mín kynslóð byggði hér upp? Sé ekki hvar þið ætlið að taka það, nema auðvitað að skattleggja okkur Íslendinga, miklum mun meira en þegar er. Það eru einkennileg stjórnvöld sem það vilja. Ferðamannastraumur til landsins verður ekki eilífur. Þegar þið, vinstra liðið, hafið klúðrað hér málum munið þið auðvitað kenna Framsókn og Sjálfstæðisflokknum um ófarirnar og þjóðin mun eina ferðina enn trúa því.

Höfundur býr á Sauðárkróki.

Höf.: Stefaníu Jónasdóttur