2007 Margrét og Ragna urðu í 1. og 3. í kjöri Íþróttamanns ársins 2007.
2007 Margrét og Ragna urðu í 1. og 3. í kjöri Íþróttamanns ársins 2007. — Morgunblaðið/Jón Svavarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harðjaxlar Kristján Jónsson kris@mbl.is Í umræðu um íþróttir verða iðulega til alls kyns mýtur. Umræðan er oft einsleit og ekki virðist vera mikið pláss fyrir ólíkar skoðanir.

Harðjaxlar

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Í umræðu um íþróttir verða iðulega til alls kyns mýtur. Umræðan er oft einsleit og ekki virðist vera mikið pláss fyrir ólíkar skoðanir. Af og til er fjallað um harðjaxla og er sú umræða í raun skemmtileg enda er þá iðulega verið að hrósa fólki fyrir að leggja mikið á sig á íþróttavellinum. Stundum er talað um harðhausa en líklega er það orð tilvísun í þá tíma þegar menn skölluðu aftan í hnakkann á öðrum í fótbolta á Bretlandseyjum. Ekki er þar um huggulegustu hlið fótboltans að ræða.

Þegar merkimiðinn harðjaxl er settur á einhverja íþróttamenn þá er það nú yfirleitt bara hrós og fátt annað en jákvætt um það að segja. En hins vegar virðist þetta ekki vera hugsað mjög djúpt og kannski engin sérstök ástæða til. Yfirleitt er þessu þannig farið að íþróttafólk er stimplað harðjaxlar út frá leikstíl þess á vellinum. Einnig eru ágætar líkur á því að fólk í sjálfsvarnaríþróttum og mögulega lyftingum fái harðjaxlastimpilinn.

Mér dettur í hug að hugsa mætti þetta út frá fleiri vinklum heldur en því hvernig fólk beitir sér í keppni. Ég held að fleira íþróttafólk hafi unnið fyrir því að vera kallað harðjaxlar heldur en augljósustu dæmin. Til gamans þá ætla ég að nefna nöfn nokkurra sem mér finnst að standi vel undir harðjaxla-nafnbótinni en hafa mér vitanlega aldrei verið kölluð harðjaxlar í tengslum við íþróttaiðkun sína. Líklega þar sem leikstíllinn kallar ekki á það.

Eiður Smári Guðjohnsen

Ég hef áður minnst á þá þolraun Eiðs Smára Guðjohnsens að blása aftur lífi í atvinnumannaferil sinn árið 1998. Draumurinn virtist vera að deyja út hjá einum efnilegasta knattspyrnumanni sem þjóðin hafði eignast. Ferill sem hafði byrjað svo vel með Ronaldo, Jaap Stam og fleiri köppum hjá PSV. Eiður lýsti því í viðtali á sínum tíma að honum var ráðlagt að „æfa í gegnum sársaukann“. Hann átti sem sagt að reyna að æfa og koma sér í form og vonast til þess að sársaukinn eftir ljótt fótbrotið myndi hverfa. Margir læknar spáðu því að dæmið væri vonlaust og að hann myndi aldrei spila aftur sem atvinnumaður. Við þetta má bæta að Eiður fótbrotnaði aftur árið 2011, þá 33 ára, en hefur tekist að bæta fimm árum við landsliðsferilinn eftir það og spilaði í lokakeppni EM. Eiður er aldrei kallaður harðjaxl.

Guðmundur Benediktsson

Ekki hef ég tölu á því hversu oft Guðmundur Benediktsson var afskrifaður á sínum ferli sem knattspyrnumaður. Eins og Eiður var hann einn efnilegasti leikmaður í Evrópu og fór utan strax að loknum grunnskóla. Þegar Guðmundur var tvítugur hafði hann þrívegis slitið krossband. Eftir hvert krossbandsslit tekur við gríðarleg vinna í endurhæfingu sem tekur um það bil átta mánuði. Sjaldan styttra og oftast lengra. Guðmundur sýndi snilldartilþrif hér heima þegar hann gat beitt sér en hnémeiðslin bönkuðu reglulega upp á og krossböndin gáfu sig oftar. Hann hneig til dæmis niður í vítateig ÍA þegar Íslandsmótið var hálfnað 1996 en þá hafði hann skorað 9 mörk í fyrstu 8 leikjunum. Guðmundur gafst aldrei upp og varð leikmaður ársins 1999 þegar KR vann tvöfalt eftir langa bið. Þegar hann hafði verið afskrifaður eina ferðina enn, þá var hann lykilmaður í Íslandsmeistaratitli Vals 2007, þá 33 ára. Guðmundur er aldrei kallaður harðjaxl.

Jón Arnór Stefánsson

Jón Arnór Stefánsson er á leið í hnéaðgerð sem hann hefði ef til vill átt að fara í fyrir tveimur árum. Hann lék alla leiki Íslands á EM í Berlín þótt tappa þyrfti vökva af hnénu eftir hvern leik. Í beinu framhaldi lék hann svo gott sem alla leikina með Valencia í deild og Evrópukeppni um veturinn. Í sumar hélt hann áfram og hjálpaði Íslandi að komast í sína aðra lokakeppni. Allan þennan tíma með illa farið hné þar sem hnéskelin hefur færst til. Jón er aldrei kallaður harðjaxl.

Margrét Lára Viðarsdóttir

Þegar Margrét Lára Viðarsdóttir var orðin einn marksæknasti landsliðsmiðherji í heiminum þá lenti hún í erfiðum og flóknum meiðslum. Á sem einfaldastan hátt má reyna að skýra þau sem svo að vöðvarnir í lærinu hafi stækkað of mikið fyrir hylkið sem umlykur þá. Margrét spilaði meidd, bæði með landsliðinu og sem atvinnumaður, í liðlega fimm ár. Á þeim tíma tókst henni að verða markahæsti leikmaður sænsku deildarinnar. Henni tókst að beita sér í lokakeppni EM 2013 og hjálpaði nú landsliðinu að komast í sína þriðju lokakeppni. Margrét er aldrei kölluð harðjaxl.

Ragna Ingólfsdóttir

Ragna Ingólfsdóttir sleit krossband þegar hún var komin inn á topp 40 í heiminum í badminton. Hún virtist á góðri leið með að vinna sig inn á Ólympíuleikana í Peking en aðgerðin hefði gert þær vonir að engu. Með gríðarlegri vinnu tókst henni að styrkja sig nægilega mikið til að halda áfram keppni með slitið krossband og vann sig inn á leikana í Peking. Að þeim loknum fór hún í aðgerð en sneri aftur og vann sig einnig inn á leikana í London þar sem hún varð fyrst íslenskra kvenna til að vinna leik í badminton á Ólympíuleikum. Ragna er aldrei kölluð harðjaxl.