Sigurður Oddsson
Sigurður Oddsson
Eftir Sigurð Oddsson: "...hinir sem áttu skuldabréf á banka urðu að lýsa kröfum í bú föllnu bankanna í þeirri von að fá eitthvað einhvern tíma seinna."

Í Panamaskjölum kemur fram að fé sé falið fyrir íslenskum skattayfirvöldum í skattaskjólum. Formaður VG boðar nú rannsókn á þessum innistæðum og er það vel, þó að fyrr hefði verið. Einnig mætti lyfta lokinu af svarta kassanum, sem Steingrímur sagðist hlynntur að yrði gert.

Ekki þarf að eyða miklum tíma í rannsókn á reikningi fyrrverandi forsætisráðherra og hans konu. Allt um það má sjá á panamaskjolin.is

Þar er allt kristaltært uppi á borðinu og sýnir að frá upphafi hafa þau staðið skil á öllum sköttum til íslenska ríkisins. Þar með talinn fjármagnstekjuskattur. Einnig að krafa í gömlu bankana er þannig tilkomin að fyrir hrun keyptu þau skuldabréf af bönkunum. Þeir sem áttu inneign í bönkum héldu sínu með neyðarlögunum, en hinir sem áttu skuldabréf á banka urðu að lýsa kröfum í bú föllnu bankanna í þeirri von að fá eitthvað einhvern tíma seinna. Það er því ekki rétt, að þau hafi eitthvað verið að braska með kaupum á kröfum á föllnu bankanna líkt og hrægammasjóðirnir.

Í fjölmiðlum hefur formaður VG sagt að fyrrverandi forsætisráðherra hafi borið að segja af sér, af því að hann hafi logið að þjóðinni. Skiptir þá engu máli í hvernig stöðu og jafnvægi hann var eftir að hafa verið leiddur í gildru. Hvað segir hún um svar fyrrverandi formanns VG við spurningu Sigmars, hvort VG muni standa við að halda Íslandi utan ESB? Svarið var skýrt, eins og sjá má á Youtube. Þeir sem kusu VG vegna ESB munu seint fyrirgefa svikin.

Steingrímur er enn við sama heygarðshornið. Í beinni útsendingu hjá RÚV neitaði hann að í dag væri hann eini maðurinn á þingi, sem hefði greitt atkvæði með frjálsu framsali kvótans. Steingrímur var í góðu jafnvægi og sagði þann sem hélt þessu fram fara mannavillt. Hann hlyti að hafa tekið sig fyrir Halldór Ásgrímsson. Ekki beint smekklegt. Þar fyrir utan var kvótaeigandinn Steingrímur báðum megin borðs við samþykkt frjáls framsals.

Hvernig er hægt að bjóða kjósendum VG upp á mann, sem telur önnur lög gilda fyrir sig en aðra landsmenn, sem hann og VG hafa krafist að segi af sér?

Höfundur er verkfræðingur.

Höf.: Sigurð Oddsson