Næturþingmaður Samúel Örn Erlingsson fór inn og út aftur.
Næturþingmaður Samúel Örn Erlingsson fór inn og út aftur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Samúel Örn Erlingsson, íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins í aldarfjórðung, var virkur þátttakandi í starfi Framsóknarflokksins um skeið. Hann skipaði 2.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Samúel Örn Erlingsson, íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins í aldarfjórðung, var virkur þátttakandi í starfi Framsóknarflokksins um skeið. Hann skipaði 2. sætið á framboðslista flokksins í Suðurvesturkjördæmi fyrir þingkosningarnar 2007 og þegar fyrstu atkvæðatölur úr kjördæminu komu var flokkurinn talsvert frá því að ná tveimur mönnum inn. Siv Friðleifsdóttir var þó örugg inni.

Vestfirðingar réðu úrslitum

Þegar nokkuð var liðið á nótt fór að hitna í kolunum. „Ég var farinn að sofa þegar ég datt fyrst inn sem uppbótarmaður á landsvísu, ég held um fjögurleytið. Ég var svo vakinn undir 7 um morguninn, þá var ég inni og margt benti til að þingsæti væri í hendi. Það var svo ekki fyrr en á tíunda tímanum að veruleikinn varð ljós, þegar lokatölur úr Vestfjarðakjördæmi bárust. Þá vantaði 11 atkvæði á landsvísu upp á að ég næði kjöri,“ segir Samúel Örn.

Eftir kosningar segist þingmaðurinn sem ekki varð hafa hugleitt að atkvæðin 11 sem á vantaði hefðu víða getað náðst. „Sem hálfum Vestfirðingi fannst mér súrt að hlutfallið réðist þar. Ég ýtti þessum hugsunum þó fljótt frá mér. Sjálfsagt voru þetta forlög,“ segir Samúel Örn sem á næstu misserum tók nokkrum sinnum sæti á Alþingi. Var meðal annars inni sem varamaður þann 6. október 2008 þegar Alþingi setti neyðarlögin vegna falls bankanna og sat á þingi næstu tvær vikurnar þar á eftir.

Setti punktinn

„Það að vera á þingi þá daga var mikil reynsla og eldskírn fyrir stjórnmálamann. Öngþveitið var algjört og fólk vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Mér ofbauð harkan í umræðunni í kjölfarið. Eftir flokksþing Framsóknar í janúar 2009 ákvað ég að setja punkt fyrir aftan minn pólitíska feril,“ segir Samúel Örn sem býr nú á Hellu og kennir við grunnskólann þar.