Jóna Kristín Ágústsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 9. ágúst 1957. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 18. október 2016.
Foreldrar hennar eru Nanna Guðjónsdóttir, f. 27. september 1928, og Ágúst Ólafsson, f. 1. ágúst 1927, d. 29. júlí 2003.
Jóna var önnur í röðinni af sex systkinum, en þau eru: 1) Jóhann Grétar Ágústsson, f. 7. júní 1955. 2) Ágústa Salbjörg Ágústsdóttir, f. 24. febrúar 1959. 3) Jenný Ágústsdóttir, f. 2. janúar 1961. 4) Ólafur Gísli Ágústsson, f. 15. ágúst 1965. 5) Jón Eysteinn Ágústsson f. 19. október 1970.
Hinn 30. maí 1987 gifttist Jóna lífsförunaut sínum, Magnúsi Birgi Guðjónssyni, f. 13. júlí 1949. Magnús Birgir er sonur hjónanna Guðjóns Magnússonar, f. 4. apríl 1921, d. 4. janúar 2001, og Önnu Sigríðar Grímsdóttur, f. 14. júlí 1928. Jóna og Magnús Birgir eignuðust þrjú börn en þau eru: 1. Guðjón Magnússon, f. 20. september 1983. 2. Anna Kristín Magnúsdóttir, f. 6. mars 1987, unnusti Toke Ploug Henriksen, f. 21. mars 1987. 3. Ólafur Vignir Magnússon, f. 12. febrúar 1993, unnusta Halla Kristín Kristinsdóttir, f. 14. apríl 1997.
Jóna lauk gagnfræðaprófi við Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja. Hún hóf ung störf við Fiskiðjuna í Vestmannaeyjum. Síðar starfaði hjá Vinnslustöð Vestmannaeyja, Ísfélagi Vestmannaeyja, Íslenskum matvælum, ÍBV íþróttafélagi og lauk starfsferli sínum við heimilishjálp hjá Vestmannaeyjabæ.
Jóna var öflug þegar kom að sjálfboðavinnu, hvort sem það var við íþróttahreyfinguna hjá Tý eða ÍBV, Rauða krossinn eða krabbameinsfélagið. Hún var einnig meðlimur í Sinawik-klúbbi Vestmannaeyja. Jóna var mikil félagsvera og leið best í margmenni. Hún var dugnaðarforkur og baráttukona og fengu sjálfboðaliðastörfin vel að njóta krafta hennar. Þrátt fyrir erfið veikindi gafst hún aldrei upp og barðist til lokadags.
Útför Jónu verður gerð frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 29. október 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.
Kallið er komið,
komin er nú stundin
ómar í huga okkar er við kveðjum móður okkar eftir hetjulega baráttu hennar við illvígan sjúkdóm. Ekki óraði okkur fyrir því að þú værir að leggja upp í þína hinstu ferð þegar þú sóttir Reykjavík heim í byrjun október.
Mamma lét okkur ávallt líða eins og það væri ekkert sem hún gæti ekki gert. Hún horfðist í augu við lífið af hreinskilni og virðingu, var ekkert að tvínóna við hlutina því hálfkák var eitthvað sem hún gat engan veginn unað. Hún var ætíð boðin og búin að leggja hönd á plóg og reyndi eftir bestu getu að gera öllum til hæfis, var ekkert að spyrja um stétt eða stöðu.
Mömmu leið hvergi betur en með prjónana í hendi, afkastagetan var á við meðalstóra verksmiðju. Íbúar Vestmannaeyja nutu líka góðs af þessu áhugamáli því um leið og út spurðist að einhver ætti von á sér þá var mamma byrjuð að prjóna húfu, vettlinga og sokka fyrir verðandi foreldra.
Það var fátt sem kom mömmu úr jafnvægi og oft reyndi nú á þolrifin þegar við systkinin tókum okkur til og gerðum einhvern óskunda af okkur sem varla telst prenthæfur og skipti þá engu hvort um væri að ræða fall í hænsnaskítshaug suður á eyju við kanínuveiðar, þegar Áshamar 6 varð hér um bil alelda vegna tilrauna við reyksprengjugerð á eldavélinni eða skömmustuleg heimkoma í fylgd lögreglu vegna „láns“ á kappróðrarbáti sem endaði í sjávarháska. Það tók hana ekki langan tíma að fyrirgefa þess háttar gjörðir.
Karakter mömmu kom bersýnilega í ljós þegar hún fékk þær fréttir að hún hefði verið greind með krabbamein á lokastigi. Hún lagðist ekki í kör við þessar fregnir, hér var á ferðinni ákveðið verkefni sem hún ætlaði sér að sigrast á og það með glæsibrag. Með jákvæðnina og einstakan baráttuvilja að vopni (já og dass af þrjósku sem hún var nú þekkt fyrir) vaknaði hún á hverjum morgni staðráðin í að gera daginn í dag betri en gærdaginn, bæði fyrir sig en samt aðallega alla aðra. Aldrei urðum við þess vör að hún kveinkaði sér, ekki einu sinni, sama hversu slæmir dagarnir voru og alltaf var svarið það sama „ég hef það bara ágætt“ ef hún var spurð hvernig henni liði. Í raun má segja að hún hafir sigrast á sjúkdómnum með því að takast það að láta hann aldrei stjórna lífi sínu.
Elsku mamma, tómarúmið sem nú hefur myndast í lífi okkar eftir að þú kvaddir er stórt, sagt er að tíminn lækni öll sár og í þeirri von munum við halda áfram göngu okkar í þessu lífi. Eitt er víst, þetta sár verður lengi að gróa en til allrar hamingju eru hugur okkar og hjarta stútfull af yndislegum minningum sem aldrei munu gleymast og verða okkur ætíð ofarlega í huga og munum við seint þreytast á að deila þessum minningum með öllu því fólki sem þekkti þig og dáði. Okkur hefur verið tjáð að handbragð þitt endurspeglist í okkur, við vonum svo innilega að það séu orð að sönnu því ef svo er þá vitum við fyrir víst að lífið muni koma til með að leika við okkur með einum eða öðrum hætti. Ef við getum gefið helminginn af því sem þú gafst af þér í þessu lífi, af okkur, þá getum við litið sátt yfir farinn veg þegar okkar tími kemur.
Það eru engin orð til yfir það hversu mikið við elskum þig og við munum seint geta þakkað fyrir það að fullu að hafa fengið að njóta þeirra forréttinda að hafa þig í lífi okkar.
Því mamma skildi flest.
Já, mamma hún var best.
Hún bætti öllu úr, svo undarlega fljótt.
Guðjón, Anna Kristín
og Ólafur Vignir.
Hún Jóna Kriss, eins og ég kallaði hana alltaf, var bara fjögurra ára þegar við Gaui föðurbróðir hennar fluttum á rishæðina á Austurvegi 22 árið 1961. Hún var yndisleg lítil bjarthærð stúlka nr. tvö af fjórum systkinum, þegar þetta var, en seinna bættust við tveir drengir svo það var alltaf fjör og nóg að gera á neðri hæðinni.
Við vorum barnlaus fyrstu tvö árin og var Jóna mín dugleg að skjótast upp til okkar í rólegheitin. 1963 og 1964 eignuðumst við svo drengina okkar tvo og einhvern veginn þótti henni meira gaman að passa þá en systkini sín! Svo áttum við svo fínan barnavagn sem Siggi Vídó keypti í Englandi og fór hún því oft með mér út að ganga. Jóna átti góða æsku, varð falleg ung stúlka, ljúf og góð, fékk meðal annars verðlaun í skólanum fyrir fallega og góða framkomu.
Hún fór snemma að vinna, eins og unglingar gerðu í þá daga, var dugleg til vinnu, heiðarleg og vinsæl. Þegar sá tími kom giftist hún Bigga sínum og eignaðist þrjú mannvænleg börn sem hún elskaði og var stolt af og vildi allt fyrir þau gera.
Hún var ótrúlega hjálpfús og drífandi og voru þær óteljandi skírnar- og fermingarveislurnar sem hún hélt fyrir systkini sín og ófáar eru afmælisveislurnar sem hún hefur hjálpað mér við.
Núna síðustu ár, áður en hún veiktist hjálpaði hún mér í hverri viku við þrif og tiltekt á heimilinu. Við áttum yndislegar stundir saman þegar við fengum okkur kaffisopa og stundum sérrílögg eftir tiltektirnar. Rifjuðum upp gömlu góðu dagana og jafnvel hjálpaði hún mér við prjónaskap. Hún var mikil handavinnukona.
Elsku hjartans Jóna Kriss, við munum sakna þín mikið og sendum Bigga, börnunum, mömmu þinni og systkinunum, tengdafólki, vinum og vandamönnum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Hólmfríður og Guðjón.
Það er með miklum trega sem ég skrifa þessi minningarorð um þig. Ég er samt sem áður mjög þakklát fyrir að hafa kynnst þér og þekkt þig í öll þessi ár.
Ykkar heimili var í raun mitt annað heimili þegar ég var barn, þar sem ég og Anna Kristín lékum okkur svo mikið saman. Og þið Biggi hafið alltaf tekið vel á móti mér með ykkar góðu nærveru. Þú varst mjög hress og jákvæð að eðlisfari og það var alltaf gott að spjalla við þig.
Þrátt fyrir að ég hafi ekki hitt ykkur hjónin oft síðasta áratuginn eða svo, eða síðan ég flutti frá Vestmannaeyjum, hef ég ávallt hugsað hlýlega til ykkar og hef alltaf verið meðvituð um það að væri gagnkvæmt.
Ég mun alltaf varðveita minningarnar um allar góðu stundirnar með þér, á Áshamrinum og víðar.
Ég minnist þín sem góðhjartaðrar og duglegrar konu með góðan húmor, og mun aldrei gleyma þér.
Þú gengin ert hugglöð á frelsarans
fund
og fagnar með útvaldra skara,
þar gleðin er eilíf, þar grær sérhver
und.
Hve gott og sælt við hinn hinsta blund
í útbreiddan faðm Guðs að fara.
Nú kveðja þig vinir með klökkva og þrá
því komin er skilnaðarstundin.
Hve indælt það verður þig aftur að sjá
í alsælu og fögnuði himnum á,
er sofnum vér síðasta blundinn.
(Hugrún)
Elsku Biggi, Anna Kristín, Guðjón og Ólafur Vignir og aðrir aðstandendur: Ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Megi Guð gefa ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.
Kristín Stefánsdóttir.
Ekki má gleyma yndislegu stundunum sem við áttum saman í desember í þó nokkuð mörg ár. Þá gerðum við alltaf sörur saman og þegar ég kom varst þú alltaf búin að baka allar kökurnar og ekkert eftir nema setja krem og súkkulaði.
Nú kveð ég, kæra vina, með þakklæti og góðar minningar um yndislega vinkonu.
Elsku Biggi, Anna Kristín, Guðjón og Ólafur Vignir, megi góður Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.
Kveðja,
Ragnheiður Víglundsdóttir.
Æðruleysið og jákvæðnin var engu lík í veikindum þínum, elsku Jóna mín. Heimsókn mín fyrir síðustu Reykjavíkurferð þína á leið í geisla sem þú og fjölskyldan bunduð miklar vonir við er mér ógleymanleg.
Hvað segir þú, Jóna mín?
Veistu, Kristný, ég þarf ekki að kvarta.
Nei, örugglega ekki, liggjandi í sófa, að reyna að horfa á sjónvarpið með lepp fyrir öðru auga, nánast heyrnarlaus og með göngugrind við sófann.
Jóna mín, þú fórst ekki ein í gegnum baráttu þína, þinn elskulegi jákvæði Biggi stóð þér við hlið ásamt börnum, tengdabörnum og tengdafjölskyldu. Guð gefi fjölskyldunni styrk á þessum erfiðu tímum.
Elsku Jóna, ég kveð þig með þakklæti fyrir allt það sem þú gafst mér, sem lítilli stelpu að fá að skottast með þér ófáar bæjarferðirnar, vináttu alla tíð og öll prjónalistaverkin þín fyrir mig og börnin mín.
Jóna mín, „það þarf fólk eins og þig“.
Þín
Kristný.
og söknuður huga vorn grætir
þá líður sem leiftur úr skýjum
ljósgeisli af minningum hlýjum. (H.J.H. )
Skrítið og erfitt að sitja hér og kveðja þig, kæra vinkona. Þú þurftir að lúta í lægra haldi fyrir krabbanum. Við brölluðum svo margt saman og nú flæða minningarnar. Vorum með börn á sama aldri sem gengu inn og út á báðum heimilum. Prjónuðum margt og mikið, lituðum augun og kláruðum peysurnar fyrir Þjóðhátíðarnar. Fórum saman í sumarbústað þrjár fjölskyldur, bara gleði og gaman. Gengum um hverfið og seldum fyrir Krabbavörn, þú alltaf svo tilbúin að gera allt fyrir alla. Síðasta ár var þér erfitt en þetta verkefni ætlaðir þú að vinna vel og klára með sigri. Við ætlum okkur margt en Guð ræður og hann tók þig frá okkur alltof snemma. Fjölskyldan þín er svo yndislega samhent og gerði allt fyrir þig sem hægt var. Elsku Biggi, Guðjón, Anna Kristín, Toke, Ólafur Vignir, Halla Kristín, Nanna, systkini, Anna, Þura og Óli og öll fjölskyldan, innilegar samúðarkveðjur til ykkar frá öllum í minni fjölskyldu. Elsku Jóna, góða ferð í Sumarlandið og takk fyrir allt. Þín vinkona,
Ester Ólafs.
sem góðir vinir byggja.
Þá er meira en hálfnað heim,
hvert sem vegir liggja.
(Guðmundur Böðvarsson)
Vinir eru eins og stjörnur, þær eru ekki alltaf sýnilegar en eru alltaf til staðar. Þannig voru kynnin af Jónu. Það var mikill happafengur að fá að vera nágranni þeirra hjóna, Birgis og Jónu. Með fjölskyldunum í Áshamri 6, 8, 12 og 14 tókust góð kynni og ómetanleg vinátta.
Hópurinn átti margar skemmtilegar stundir. Það voru allir saman, bæði börn og fullorðnir. Sumarbústaðaferðin ógleymanlega, pysjuveiðar, sölvatínsla á háflóði, afmælisveislur, útskriftir, kaffispjall, leikir barnanna úti og inni. Ef einhver hélt veislu þá voru húsgögn og borðbúnaður færð á milli húsa. Ef eitthvað vantaði til heimilishalds var hlaupið yfir til Jónu í næsta húsi. Það var ekki hægt að hugsa sér betri nágranna. Með íbúum úr hinum húsunum í botnlanganum var svo margt brallað, brenna á gamlárskvöld með skrúðgöngu, lúðrablæstri, brennu- kóngum og drottningum og götugrillin ógleymanlegu. Þjóðhátíðin var á sínum stað og kankvísi hláturinn hennar Jónu er falleg minning sem við geymum. Það var gott að eiga Jónu að, hún var hrein og bein og sagði sína meiningu ef því var að skipta. Hörkudugleg, hjálpsöm, félagslynd og glaðvær. Prjónarnir voru aldrei langt undan og handbragðið fallegt. Það gekk allt áreynslulaust þegar Jóna var annars vegar. Hún vann sín verk hljóðlega af alúð og setti aðra í forgrunn. Styrkur hennar kom ekki síst fram meðan hún barðist við þann vágest sem að lokum hafði betur. Hún var ákveðin að berjast til loka og var dyggilega studd af sinni góðu fjölskyldu.
Nú hefur skarð verið höggvið í þennan góða hóp, en tíminn í Áshamrinum uppúr 1980 og fram undir aldamótin gleymist ekki. Vinaböndin sem bundin voru slitna ekki. Við vorum heppin að fá þennan tíma saman. Það er sárt að kveðja elsku Jónu og hugur okkar er hjá ástvinum hennar, við sendum samúðarkveðjur til Bigga, Guðjóns, Önnu Kristínar, Ólafs Vignis og annarra ættingja og vina.
Takk fyrir allt, elsku Jóna, samfylgdin með þér gerði lífið betra, hvíl þú í friði.
Guðný, Kristján, Einar,
Ester, Gylfi, Guðrún og krakkarnir í Áshamrinum.
Kletturinn í fjölskyldu þinni sem allir treystu á.
Nú er sól þín sest eftir erfiða baráttu. Eftir eru fjölskyldan, Biggi og börnin sem þú varst svo stolt af, sem nú syrgja móður sína og konu.
Hugur minn er hjá ykkur öllum, kæra fjölskylda Jónu. Ég kveð þig í friði og söknuði, kæra vinkona.
Auróra.
Þú hafðir þennan einstaka hæfileika að takast á við svona verkefni, kláraðir þau á staðnum og þá voru þau bara búin. Ef það brotnuðu fimm nýkeypt kristalsglös í partíi, þá var þeim sópað í poka, partíinu haldið áfram og daginn eftir var farið út í búð og keypt ný. Engin eftirmál, svo einfalt var það. En verkefnin sem deilt er niður á fólk eru mismunandi og oft óskiljanleg, en kannski er manni bara ekki ætlað að skilja þau. Í þínu tilfelli sannar það hve lífið getur verið hverfult. En þó að verkefni þitt hafi verið stórt var baráttan aðalsmerki þitt, með stuðningi frábæru fjölskyldu þinnar og vina. Á móti því sem ólæknandi er stendurðu alltaf uppi sem sigurvegari.
Elsku Jóna. Þínar 90 mínútur eru liðnar, en þrátt fyrir það munum við, einum færri, halda áfram fjörinu á Áshamrinum, eins og þú hefðir viljað hafa það. Það verður ótrúlega skrítið að labba „óboðinn“ þangað inn í framtíðinni og mæta þér ekki í sófanum með ástarsögurnar góðu eða prjóna í hendi. En ég veit það að Biggi mun taka vel á móti mér og mínum í staðinn. Þú verður hjá mér í hug og hjarta líkt og alltaf.
Það er sumt sem maður saknar,
vöku megin við.
Leggst út af á mér slokknar.
Svíf um önnur svið,
í svefnrofunum finn ég,
sofa lengur vil.
Því ég veit að ef ég vakna upp,
finn ég aftur til.
(BJF og DÁH.)
Guðni Freyr Sigurðsson.
Við Jóna urðum vinkonur fyrst í gegnum börnin okkar. Börnin þeirra þrjú og börnin mín þrjú eru öll á sama aldri, eins yndislegt og sérstakt og það er eru þau öll vinir. Guðjón og Einar Hlöðver, Anna Kristín og Erla Signý, Ólafur Vignir og Guðni Freyr. Heimili þeirra Jónu og Bigga að Áshamri 6 hefur alltaf verið börnunum mínum opið eins og í raun öllum þeim sem lögðu leið sína til þeirra hjóna, allir eru þar velkomnir og hefur alltaf verið gott að koma til þeirra.
Við Jóna náðum vel saman í leik og starfi og unnum við mikið saman í sjálfboðaliðastarfi fyrir ÍBV. Það var mjög gott að starfa með Jónu, hún var hörkudugleg, hress og mikill ljúflingur. Hún fór oftast hljóðlega í því sem hún gerði og ég held að kannski hafi ekki alltaf verið tekið eftir því hvað hún skilaði miklu í starfi. Jóna var mikill Týrari en ég aftur á móti mikill Þórari og ef það er hægt að segja að við höfum einhvern tímann verið ósammála hefur það mjög líklega tengst rígnum þar á milli, en þó var það alltaf í góðu.
Elsku Jóna, ég vil þakka þér fyrir allt. Ég veit að við hittumst síðar og ég mun geyma allar fallegu minningarnar um þig í hjarta mínu að eilífu.
Elsku Biggi, Guðjón, Anna Kristín, Ólafur Vignir og fjölskylda. Ég bið algóðan Guð að styrkja ykkur í sorginni.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(Valdimar Briem)
Guðný Hrefna Einarsdóttir.
Sem starfsmaður sá Jóna um hin ýmsu verk hjá félaginu og sinnti þeim af natni en hún kom einnig mikið að starfi félagsins sjálf og ekki síst í gegnum hann Bigga sinn sem hefur setið í þjóðhátíðarnefnd félagsins í áratugi. Það eru ekki margir makar sem sýna þá þolinmæði sem hún sýndi til margra ára þeim störfum sem þarf að sinna árlega í kringum verslunarmannahelgi.
Sem dæmi um umburðarlyndi hennar gagnvart félaginu þá vantaði sængur í dalinn eina hátíðina til að hlúa að gestum, Biggi er maður framkvæmda og dreif sig heim og sótti sængurnar úr hjónarúminu. Þegar þau hjónin komu heim undir morgun eftir að hafa gengið úr skugga um að allt væri í lagi á hátíðarsvæðinu þá undraðist Jóna mjög hvar sængurnar væru niðurkomnar, en eins og svo oft áður þá sýndi hún þessu fullan skilning.
Þrettándahátíðin átti líka sinn sess í hjarta Jónu, enda ættuð úr Gíslholti. Undirbúningur og framkvæmd þessarar hátíðar var fyrirferðarmikil á heimilinu hjá Jónu, mikið líf og fjör og ekkert var sjálfsagðara en að lána bóndann í þrettándaverkefni.
Um leið og við þökkum Jónu fyrir alla hennar margþættu og ósérhlífnu vinnu fyrir ÍBV, mikið framlag til þjóðhátíðar og þrettándans og ekki síst alla þá þolinmæði sem hún hefur sýnt félaginu þá viljum við senda Bigga, Önnu Kristínu, Guðjóni og Ólafi Vigni sem og öllum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur og megi guð og góðar vættir styrkja þau á sorgartímum.
Minning um góðan félaga mun lifa með félaginu.
Fyrir hönd ÍBV íþróttafélags,
Dóra Björk
framkvæmdastjóri.