Laugardagsgátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Á það flykkist manna mergð. Mjög er þarft við kökugerð. Með þeim svipur sést ei par. Saman koma leiðir þar. Lausn Hörpu á Hjarðarfelli: Á mannamótin fólkið fer. Fyllt af deigi kökumót.

Laugardagsgátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Á það flykkist manna mergð.

Mjög er þarft við kökugerð.

Með þeim svipur sést ei par.

Saman koma leiðir þar.

Lausn Hörpu á Hjarðarfelli:

Á mannamótin fólkið fer.

Fyllt af deigi kökumót.

Ættarmót þar enginn sér.

Ökum við um gatnamót.

Helgi R. Einarsson svarar:

Er ég gátukornið kanna,

kryf það alveg nið'r í rót,

upp þá lúkast orðin: Manna-,

ættar-, köku-, og vegamót.

Þessi er ráðning Helga Seljan:

Fólkið sækir ákaft mannamót,

mót er brýnt við ýmsa kökugerð.

Svipmót bræðra ekkert hætis hót

hér að vegmótum enduð ferð.

Guðrún Bjarnadóttir á þessa:

Fer á stöku mannamót,

úr móti köku gef ég þrjótum

þó engin sjái ættarmót,

enda þrengsli á gatnamótum.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Fólks er oft á móti mergð.

Mót er þarft við kökugerð.

Svipmót ekki sést með þeim.

Svo eru mót á leiðum tveim.

Síðan er það limran:

Það var eftirminnilegt öllum

ættarmót niðja frá Hjöllum,

þeir brutust í byl

byggða til,

sem ekki frusu á fjöllum.

Og að lokum kemur Guðmundur með nýja gátu:

Veröld dagsins vitrast mér,

víkur draumsins glýja,

losa svefn, á fætur fer,

og fæst við gátu nýja:

Í sorpinu rótar sífellt og hrín.

Í sjó er það reyndar hvalur.

Svo er það eins konar auraskrín.

Örlagabytta sá halur.

Stakan er sígilt yrkisefni hagyrðinga. Pétur Stefánsson yrkir

Kann að yrkja þessi þjóð,

það hún sannað getur.

Stytt hefur mér stakan góð

stundir heldur betur.

Ingólfur Ómar bærir við:

Eyðir drunga örvar sál

ærið slungin baga.

Lipurt sungið ljóðamál

létt á tungu braga.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is