Kennslanefnd ríkislögreglustjóra vinnur nú að því að bera kennsl á líkamsleifar sem fundust í fjörunni við Selatanga skammt frá Grindavík á miðvikudag.

Kennslanefnd ríkislögreglustjóra vinnur nú að því að bera kennsl á líkamsleifar sem fundust í fjörunni við Selatanga skammt frá Grindavík á miðvikudag. Nefndin sér um að staðfesta auðkenni en sá þáttur er á byrjunarstigi og unnið er að honum í samvinnu við frönsk yfirvöld. Þetta kemur fram í upplýsingum frá ríkislögreglustjóra.

Brak frönsku skútunnar Red Héol fannst skammt frá Grindavík ásamt neyðarsendi sem gerði Landhelgisgæslu fyrst viðvart á miðvikudagsmorgun.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum er staðfest að sendirinn tilheyri skútunni.

„Neyðarsendirinn er um borð í skútunni og hann virkar þannig að hann fer sjálfkrafa í gang ef hann lendir í sjó,“ segir Auðunn Friðrik Kristinsson, verkefnastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, um virkni neyðarsenda en á meðan sendirinn helst þurr um borð þá fer hann ekki í gang. „Það er hægt að kveikja á honum ef skipstjórinn er með rænu,“ bætir hann við. Ekki er skylda að vera með staðsetningarbúnað í skútum. laufey@mbl.is