Guðmundur Torfason Magnússon fæddist 7. september 1938. Hann lést 15. október 2016. Útför hans fór fram 24. október 2016.

Mikið erum við þakklát fyrir að hafa átt Mumma að. Mummi var einstakur maður. Hann bjó yfir miklu jafnaðargeði og hafði einstakt lag á börnum og dýrum. Það var eins og þau skynjuðu það öryggi og þann kærleika sem hann bjó yfir. Ekki einungis barnabörnin skriðu upp í fangið á honum heldur einnig börn sem höfðu aldrei séð hann áður. Þá var stutt í glettnina hjá Mumma og lét hann oft gamminn geisa, sérstaklega þegar hann var innan um barnabörnin. Mummi sýndi okkur öllum gífurlega mikla þolinmæði, kærleika og stuðning í einu og öllu. Níska var ekki til í orðabók Mumma. Mummi var einstaklega gjafmildur og örlátur maður. Fyrir um þremur árum þegar Mummi bjó enn heima en var orðinn veikur af alzheimer og parkinson þá kíktum við í heimsókn til hans. Peggý, kona hans, var þá ekki heima. Mummi var að reyna að klæða sig í sokka og sagðist vera að klæða sig því að Peggý ætti afmæli og hann væri að fara í skartgripaverslun til þess að kaupa handa henni skartgrip. Í fyrsta lagi kom okkur á óvart að hann væri meðvitaður um að Peggý ætti afmæli þennan dag því minnið hans var orðið takmarkað. Eins kom okkur spánskt fyrir sjónir að maður sem varla gat hreyft sig ætlaði að leggja það á sig að fara á stúfana og kaupa afmælisgjöf handa eiginkonunni. Það endaði með því að við keyrðum hann og studdum út í skartgripaverslun þar sem hann valdi gullhálsmen handa Peggý. Þetta var Mummi í hnotskurn.

Við kveðjum Mumma með kærleik og söknuði og vonum að honum líði vel þar sem hann er staddur nú. Milljón knús og kossar, elsku pabbi, afi og tengdapabbi.

Ágúst, Lilja, Írena,

Sandra og Ísabella.

Minn góði vinur, Mummi, hefur nú yfirgefið okkur. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka honum og fjölskyldu hans fyrir frábæran kunningsskap til margra ára.

Við hjónin, Óskar og Sóley, höfum margs að minnast eftir öll þau ár sem við vorum saman og þá sérstaklega í sambandi við golfíþróttina og ýmis ferðalög sem við fórum saman í og voru þau Mummi og hans dásamlega eiginkona, Petrína, sem gerðu þessar ferðir okkar saman svo ógleymanlegar. Alltaf var Mummi okkar svo ljúfur og kátur og aldrei man ég eftir að hann hafi verið annað en jákvæður og munum við sakna hans mjög mikið.

Margar ferðir fórum við saman til Kanarí og nutum sólar og spiluðum golf saman. Einnig fórum við margar ferðir saman til Vestmannaeyja og nokkrar ferðir í kringum landið og spiluðum golf á flestum golfvöllum landsins.

En eftirminnislegasta ferð okkar saman var þegar við ferðuðumst saman til Flórída og tókum okkur ferð með skemmtiferðaskipi og heimsóttum sex eyjar í Karíbahafinu og spiluðum golf á öllum eyjunum.

Gerðum við þetta svona í stað þess að taka rútu sem skipið útvegaði til að sjá það markverðasta á eyjunum og reyndist þetta sennilega ódýrara en að fara með rútunni og þá hefðum við misst af því að spila golf sem var okkur öllum svo mikið áhugamál. En ég held að samferðafólk okkar á skipinu hafi litið okkur hornauga þegar það sá að við vorum að fara með golfsettin okkar í land en þau hafa ekki áttað sig á því að við fengum leigubílstjórana til að sýna okkur það markverðasta á leið til skips aftur.

Elsku Mummi minn, við hjónin, Óskar og Sóley, munum sakna þín mikið en kynnum okkar hjóna af þér og þinni ástkæru eiginkonu, Petrínu, ásamt fjölskyldu ykkar, munum við ekki gleyma. Við huggum okkur við það að við munum sjá og hitta þig, Mummi minn, seinna.

Kveðja,

Óskar og Sóley.

Þegar ég heyrði af andláti Mumma T. varð mér hugsað til okkar fyrstu kynna. Leiðir okkar lágu saman þegar golfvöllurinn hjá Villunni uppi í Mosfellsdal var í deiglunni. Ég hafði tekið að mér að stofna golfklúbb í sambandi við völlinn, en var ekki sjálfur golfari og það vantaði „golfara“ til að vera í forsvari fyrir félagslega þáttinn í starfsemi golfklúbbsins.

Þá voru nokkrir golfarar þegar komnir að starfseminni og var Guðmundur þar framarlega í flokki og tilbúinn að taka að sér að vera í formennsku fyrir klúbbinn, sem fékk nafnið Golfklúbbur Bakkakots.

Það var mikið lán að Guðmundur tók þetta að sér því hann naut virðingar í hópnum fyrir utan það að vera afskaplega ljúfur félagi og hafði lag á að fá menn með sér.

Nú er fallinn frá drengur góður og ég veit að hann naut þess að vera í faðmi dalsins sem er innan seilingar frá höfuðborginni en Guðmundur taldi ekki eftir sér að skreppa upp í dal þó í Hafnarfirði byggi.

Ég minnist þess hvað það var alltaf mikill léttleiki í kringum þá mágana Mumma og Stebba og ekki má gleyma Petrínu, konu Guðmundar, sem átti sinn þátt í að Golfklúbbur Bakkakots komst á laggirnar og má geta þess að það var umtalsverð starfsemi í „kvennagolfinu“.

Það er margs að sakna í fortíðinni sem yljar manni í nútíðinni og sendi ég innilegar samúðarkveðjur til Petrínu og fjölskyldu frá mér og konu minni, Eygló.

Magnús Steinarsson.