Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
Eftir Bjarna Benediktsson: "Við erum á réttri leið og ef við höldum áfram á þeirri braut eftir kosningar eru okkur allir vegir færir."

Í dag göngum við að kjörborðinu til þess að hafa áhrif á það hvert leið okkar Íslendinga liggur næstu fjögur ár.

Við tókum við erfiðu búi vorið 2013 – atvinnulífið í járnum og efnahagslífið í lægð – en við náðum að snúa taflinu við. Okkur Íslendingum auðnaðist að vinna okkur út úr vandanum. Í dag er fleira fólk í vinnu á Íslandi en nokkru sinni í sögunni. Atvinnuþátttakan hefur aldrei verið meiri, atvinnuleysi í lágmarki, verðbólgan innan markmiða og kaupmáttur launa er meiri en nokkru sinni. Við náðum að binda enda á hallarekstur ríkisins og höfum greitt niður skuldir. Á sama tíma höfum við lækkað skatta og örvað atvinnulífið. Við skákuðum kröfuhöfunum og losuðum höftin og hagvöxtur er sá næstmesti í Vestur-Evrópu. Það er ekki slæmt á þremur og hálfu ári.

Við erum á réttri leið og ef við höldum áfram á þeirri braut eftir kosningar eru okkur allir vegir færir, og við blasir stöðug og örugg framtíð þar sem lífskjör allra munu batna. Það gerist ekki af sjálfu sér, við þurfum að sjá til þess í kjörklefanum í dag.

Það gerum við aðeins með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Án hans verður ekki mynduð frjálslynd, borgaraleg ríkisstjórn á Íslandi, með staðfestu við stjórn efnahagsmála. Því það sem Ísland þarf á að halda er stöðugleiki í stjórnmálum og styrk efnahagsstjórn. Á þeim grunni byggjum við heilbrigðiskerfi í fremstu röð, menntakerfi sem undirbýr unga fólkið fyrir lífið, nýsköpun sem fjölgar tækifærunum og hagsæld sem tryggir mannsæmandi kjör eldri borgara.

Kosningabaráttunni lýkur ekki fyrr en síðasta kjörstað verður lokað í kvöld. Ég hvet alla Íslendinga til þess að standa vörð um efnahagsárangurinn og hafna þeim flokkum, sem vilja setja hann í uppnám og óvissu. Valið stendur á milli þess að taka u-beygju eða halda saman áfram á réttri leið. Veljum leiðina fram á við.

Höfundur er formaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Bjarna Benediktsson